Fara í efni

FULLVELDISDAGURINN: TILEFNI TIL SÖGULEGRAR UPPRIFJUNAR


Í dag minnast menn þess að árið 1918 öðluðust Íslendingar fullveldi. Það ár voru samþykkt lög á danska þinginu og Alþingi þar sem í fyrstu grein sagði: "Danmörk og Ísland eru frjáls og fullvalda ríki , í sambandi um einn og sama konung..."
Þarna vannst stærsti sigur sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem staðið hafði mestalla 19. öldina með stöðugt vaxandi þunga.
Skin og skúrir hafa skipst á í sögu þjóðarinnar frá landnámi fram á þennan dag. Það kostaði mikla baráttu að komast frá örbirgð til þeirrar velsældar sem við þekkjum í dag (þrátt fyrir allt).
Forsenda velgengninnar er frelsi og forræði yfir eigin málum. Hið sama gildir um þjóðir og um einstaklinga hvað það snertir. Vitneskjan ein um frelsið er aflvaki. Vitund um ófrelsið hefur gagnstæð áhrif. Enda segir í annálum að Árni Oddsson, lögmaður á Leirá, hafi verið með tár í augum þegar honum, ásamt öðrum forsvarsmönnum Íslendinga, var gert að  vinna Friðriki III erfðahyllingareið og viðurkenna hann sem einvald á Kópavogsfundinum 1662. Þar með var allt pólitískt vald horfið úr landinu.
Íslendingar þráuðust við að undirrta valdaafsalið en þegar Brynjólfur Sveinsson, biskup, vildi andmæla því að landsmenn afsöluðu sér fornum landsréttindum, spurði fulltrúi Danakonungs hvort hann sæi ekki hermennina sem voru með honum í för! Sáu Íslendingar þá að þeir áttu ekki annarra kosta völ með byssukjaftana í bakið en að undirrita.
Minnir á samtímann. Að vísu ekki byssum að okkur beint. Ofbeldið birtist okkur nú í öðrum myndum. Spurningin um viðbrögð er til umræðu á Alþingi þessa dagana sem kunnugt er. Dapurlegast í þeirri stöðu sem nú er uppi er sundrungin innan þings og utan. Sameinuð hefðum við betur getað tekist á við vandann.
Hvað um það. Svo óhressir voru forsvarsmenn Íslands á þessum tíma, bæði hinir leiku og hinir lærðu, að þeir settu fyrirvara við samþykki sitt í bréfum sem þeir rituðu konungi.
Leikmenn kváðust hafa unnið erfðahyllinguna í trausti þess að virt yrðu "gömul, venjuleg og vel fengin landslög..." og að landsmenn fengju notið friðar og frelsis. Kennimenn  tilgreindu níu fyrirvara, þar a meðal að ekki yrðu settar á þá álögur umfram það sem venja hefur verið. Athyglisvert er að í bréfunum til konungs er hvergi vikið að því að Íslendingar hafi viðurkennt einveldið, aðeins er talað um erfðahyllingu. Hvað sem því líður var einveldið orðið raunveruleiki.
Fullveldisbaráttan var löng og ströng og átti sér sumpart samsvörun í öðrum löndum: ákvörðun um endirreisn Alþingis 1843, stjórnarskrá fyrir Ísland 1874, Heimastjórn 1904 og síðan fullveldið 1918.