Fara í efni

FRUMVARP UM EINKAVÆÐINGU HEILBRIGÐISÞJÓNUSTUNNAR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 07.09.08.
Senn hefst þriðja umræðan á Alþingi um frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráherra, um sjúkratrygginga- og innkaupastofnun í heilbrigðiskerfinu. Við aðra umræðu síðastliðið vor var ákafinn mikill að klára málið en á síðustu stundu féllst ríkisstjórnin á að fresta afgreiðslu til haustsins. Stóðu menn þá almennt í þeirri trú að unnið yrði að málinu í sumar. Það var ekki gert. Engin hreyfing var á málinu þar til nú fyrir nokkrum dögum að verktakafyrirtæki sem annast hefur þessi mál fyrir Guðlaug Þór var fengið til að skipuleggja tveggja daga ferð til Svíþjóðar fyrir heilbrigðisnefnd. Ekki var þar gefið ráðrúm til gagnrýninnar umræðu sem heitið getur, hvað þá að aflað hafi verið nauðsynlegra gagna og úr þeim unnið á vegum heilbrigðisnefndar.

Lærum af reynslu annarra

Í greinargerð með frumvarpinu segir að við undirbúning þess „hafi verið tekið mið af þeirri reynslu sem komin er á fyrirkomulag kaupenda og seljenda í löndum sem Ísland hefur gjarnan borið sig saman við og er þar helst að nefna Svíþjóð og Bretland."
Gott og vel. Gætum við fengið þau gögn á borðið? Nú vill svo til að BSRB hefur látið sig þessi mál varða um langt árabil og fylgst mjög vel með þróun mála. Velferðarþjónustan er í senn vinnuvettvangur félagsmanna og öll eigum við mikið undir því komið að hún sé skipulögð með hagsmuni almennings að leiðarljósi.
Ítrekað hafa samtökin boðið færustu sérfræðingum á sviði heilbrigðismála til Íslands til fyrirlestrahalds til þess að færa okkur reynslu og þekkingu frá útlöndum. Þar á meðal hafa komið sérfræðingar frá þeim löndum sem frumvarpið vísar til. Sænski prófessorinn og fyrrum handhafi norrænu lýðheilsuverðlaunanna, Göran Dahlgren, kom hingað 2003 og varaði þá mjög eindregið við því í fyrirlestri sem hann flutti hér og er aðgengilegur í bæklingi og á rafrænu formi hjá BSRB, að við tækjum upp svipaðar kerfisbreytingar og ríkisstjórnin hyggst nú innleiða. Ekki síður afdráttarlaus var Allyson Pollock, prófessor við háskólann í Edinborg og forstöðumaður rannsóknarstofnunar á sviði heilbrigðismála (Centre for International Public Health Policy), en hún flutti hér erindi síðastliðið vor sem nú hefur verið gefið út í bæklingi og er einnig aðgengilegt í rafrænu formi.

Fræðimenn vara við frumvarpi

Í erindi sínu vísaði Pollock til áforma íslensku ríkisstjórnarinnar og ber fyrirliggjandi frumvarp saman við lagabreytingar í Bretlandi í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Þar segir hún m.a. eftirfarandi: „Einkavæðingarferlið hefði ekki getað átt sér stað í Bretlandi án löggjafarinnar frá 1991. Hún gegndi lykilhlutverki með því að innleiða þær kerfisbreytingar að koma á innri markaði, aðgreina veitendur og kaupendur og verðleggja veitta þjónustu. Í kjölfarið fylgdi fjöldi nýrra reglugerða og verkferla til að hrinda einkavæðingunni í framkvæmd. Verkferlarnir byggðust ekki einungis á meginlöggjöfinni heldur einnig á reglugerðum sem voru samdar af embættismönnum. Sjúkratryggingafrumvarp íslenskra stjórnvalda nú er af sama toga og opnar leiðir fyrir ógrynni stefnumarkandi reglugerða á forræði ráðherra."

Ráðherra á ábyrgð stjórnarmeirihluta

Það yrði ömurlegt hlutskipti fyrir Alþingi að leggja blessun sína yfir grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu sem reynslan hefur kennt að voru til ills. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hefur verið treyst fyrir heilbrigðisráðuneytinu. Það er vandmeðfarið verkefni. Með þeim kerfisbreytingum sem ráðherrann reynir nú að þjösna í gegnum þingið hefur hann fallið á prófinu. Endanleg niðurstaða ræðst síðan af afstöðu annarra í stjórnarmeirihlutanum. Guðlaugur Þór starfar nefnilega á ábyrgð sinna samherja á þingi, hvort sem þeir koma úr Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu.

Höfundur er þingmaður og formaður BSRB.