Fara í efni

FRUMKVÆÐI ÁLKFTANESLISTANS AÐ VERNDUN SKERJAFJARÐAR OG GRÆNN TREFILL ERLU


Sigurður Magnússon
, hefur reynst afar kröftugur sem bæjarstjóri á Álftanesi. Undir hans forystu hafa félagsleg og umhverfistengd verkefni verið sett á oddinn. Sveitarfélagið á þakkir skildar fyrir frumkvæði að ráðstefnu um verndun Skerjafjarðar sem efnt var til 2. mars síðastliðinn. Ég sótti þessa ráðstefnu og þótti hún afar áhugaverð. Á heimasíðu bæjarfélagsins er að finna slóð á samantekt um ráðstefnuna og er hana að finna HÉR.
Sannast sagna kom mér á óvart hve fjölbreytt fugla- og dýralífið er við Skerjafjörðinn og að á ýmsum sviðum það er að eflast þrátt fyrir aukna byggð! Allt er hægt ef vilji er fyrir hendi!
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, félagi minn í póltíkinni sem skipar annað sætið í Kraganum, Suðvestur-kjördæmi, þar sem ég er einnig á lista, spurði á fundinum um hinn svokallaða Græna trefil. Hún fékk greið svör um viljann til að vefa þann trefil áfram. En að fundinum loknum var okkur bent á konu, sjálfan frumkvöðulinn að þessum trefli,  Erla Bil Bjarnardóttir sem fræddi okkur um þennan sérstaka vefnað.
Hér er frásögn hennar um Græna trefilinn, samtenginguna á útivistarsvæðunum í "Kraganum":

Græni trefillinn – Hvað er það?
Skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hófu samstarf 1992 um tengingu skógræktarsvæðanna ofan byggðanna. Markmiðið var að tengja svæðin með göngustígum til útivistar fyrir alla. Fengnir voru landlagsarkitektarnir Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson nú hjá Landslagi ehf. til að vinna heildstæða mynd af svæðunum, með því að hvert skógræktarfélag kæmi með sínar teikningar og skissur af svæðunum.
Þegar skógræktarsvæðin gömul og ný voru komin saman á kort, kom í ljós grænn trefill sem umliggur byggðina á höfuðborgarsvæðinu. Víða er hann gloppóttur og bara slitrur einar, en félögin vildu tengja svæðin saman með stígum.
Þessir uppdrættir af Græna treflinum voru lagðir fyrir bæjaryfirvöld frá Kjalanesi og suður í Hafnarfjörð árið 1994. Það má segja að þessu framtaki skógræktarfélaganna hafi verið vel tekið á sínum tíma, fékk t.d. stórt vægi við gerð svæðisskipulags yfir höfuðborgarsvæðið er kom út 2002 þ.e. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024.  En eftir þá umfjöllun er eins og Græni trefillinn hafi gleymst bæjaryfirvöldum, þó að hann komi fram á aðalskipulögum bæjarfélaganna en ekki skilgreindur með framtíðarsýn. Benda má á að í framhaldi af gerð svæðisskipulagsins hafi vatnsvernd verið skilgreind og gefin út á sérstöku korti fyrir höfuðborgarsvæðið og upplöndin, árið 1997.
Skógræktarfélögin tóku sig aftur saman um að vekja athygli á Græna treflinum og skilgreina útivist á svæðunum sem hefur margfaldast á undanförnum árum. Leitað var samstarfs við SSH Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem styrkti vinnu við gagnaöflun o.fl. sem fulltrúar skógræktar- og bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu unnu að. Skýrslan var gefin út í okt 2006.
Hvað var helsta markmið í skýrslu um Græna trefilinn? Það var að lagður yrði grænn aðalstígur um skógræktarsvæðin, möndulstígur þar sem svæðin tengdust á einhvern hátt með skógræktarstígum, hann yrði malbikaður og greiðfær öllum. Að aðkoma að svæðunum verði aðgengileg öllum til að njóta útivistar. Að prjónað verði í göt trefilsins og einnig þarf að stækka hann, því nýbyggingarhverfi hafa verið að þrengja sér inn í hann. Skógræktarfélag Garðabæjar sendi bæjaryfirvöldum bréf í janúar sl. með tillögu að grænum aðalstíg ofan byggðar í Garðabæ, meðfylgjandi var tillaga að legu stígsins um Garðabæ frá Hafnarfirði norður í Kópavog sem er unnin af Þránni Haukssyni. Þess má geta að þessi hugmynd er ekki á aðalskipulögum bæjarfélaganna, sumstaðar eru vinsælir stígar á þessari leið sem þarf að endurgera og malbika yfirborð þeirra.
Félagið vill að sem flestir njóti heilbrigðrar útiveru í sínu nærumhverfi. Af stígnum yrði víðsýnt og hann lægi um fallegt land.
Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar verður haldinn mánudaginn 12. mars haldinn í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli, allir eru velkomnir.
Efir aðalfundarstörf og kaffi verður kynning á rannsókn á náttúrutengdum útivistarsvæðum einnig myndasýning frá Rússlandsferð skógræktarfélaganna sl. haust.
Erla Bil Bjarnardóttir,
formaður Skógræktarfélags Garðabæjar .