Fara í efni

FRJÁLSLYNDIR GEFA LÍTIÐ FYRIR LÆKNARITARA

Ég gat nú ekki annað en vorkennt Frjálslynda flokknum  fyrir málsvara sinn, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformann, í utandagskrárumræðunni um störf læknaritara í síðustu viku. Hann sagði að læknaritarastörf væru í eðli sínu „stoðþjónusta". Ekki veit ég hvað Kristinn á við með þessu en hitt veit ég að hann gefur lítið fyrir störf minnar stéttar. Ég hugga mig hins vegar við að maðurinn talar af mikilli vanþekkingu. „Stoðþjónusta" hefur verið boðin út, segir Kristinn og ekkert við það að athuga. Hann sagði að ekki væri ástæða til „að fara af hjörunum yfir því". Ég sat á pöllunum við þessa umræðu og hlustaði á þessa heimskulegu en jafnframt hrokafullu ræðu.  Maðurinn gaf ekkert fyrir  það hvort kjör okkar læknaritara skertust eða ekki. Síðan veit hann augljóslega ekkert  um eðli starfsins. Er eðli starfs þingmanna að tjá sig um mál án þess að gera minnstu tilraun til að afla sér lágmarksþekkingar á málefnum? Ég er enn að jafna mig á þessari umræðu. Verstur var Kristinn nema ef vera skyldi þingkona Samfylkingarinnar, Ásta R. Jóhannesdóttir.
Læknaritari