Fara í efni

TÁKNA RAUÐIR TÚLIPANAR BLÁA HEILBRIGÐIS-STEFNU?

Ég sé að hjartalæknum gengur vel í "kjarabaráttu" sinni. óskandi að þeim gengi betur með baráttu sína fyrir auknum fjárveitingum til að eyða biðlistum í heilbrigðisþjónustunni. En það eru tvær auglýsingar í Fréttablaðinu 1. maí sem mér eru nú hugleiknar. Og ég er forviða.
Eins og gengur var Samfylkingin með auglýsingu þennan hátíðisdag, rauða baráttuauglýsingu, þar sem talað var um "verkalýðinn". Það er til marks um breytta tíma að í auglýsingunni var helsta skrautið RAUÐIR TÚLÍPANAR. Altso hvað!? Túlípanar? Eru ekki rauðu RÓSIRNAR alþjóðlegt tákn jafnaðarmanna?! Síðast þegar ég vissi. Hvað táknar þessi breyting. Hefur jafnaðarmannastefnan verið yfirgefin og tekin upp einhver óútskýrð túlípanastefna?
Og BEINT UNDIR þessari auglýsingu var önnur frá Háskólanum í Reykjavík (viljandi? tilviljun?) þar sem auglýst er "spennandi" meistaranám fyrir "framsækna stjórnendur" og frumkvöðla í heilbrigðismálum. Og takið nú eftir. Námið er sagt fyrir "metnaðarfulla einstaklinga sem ætla sér hlutverk í þeim breytingum sem framundan eru í heilbrigðismálum Íslendinga".
Háskólinn í Reykjavík virðist allt vita um þessar breytingar og nógu mikið til að fjárfesta í spennandi meistaranámi fyrir "frumkvöðla". Getur einhver sagt mér hvaða breytingar þetta eru? Er getið um þær einhvers staðar, í stjórnarsáttmála og slíku? Erum við hér að tala um að stórar ákvarðanir liggi fyrir um stórfellda einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni?
Ég er ekki viss um að þingmenn Samfylkingarinnar geti svarað mínum spurningum, samanber:
"Já, hvað er hann að gera? Við vitum ekkert hvað hann er að gera," hrópaði Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í Silfri Egils 16. mars sl. og átti við hvað Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra væri að gera.