Fara í efni

FRAMSÓKN ÞJÓNAR FJÁRMAGNI

Halldór Ásgrímsson forsærisráðherra er nýkominn úr skíðaleyfi. Þaðan hélt hann beint á ársþing Verslunarráðsins þar sem hann ræddi við bissnissmenn um ágæti einakvæðingar, sérstaklega á símaþjónustu. Á sama tíma var óskað eftir nærveru ráðherrans við umræðu um sama efni á Alþingi. Látum þessa framkomu við þingið liggja á milli hluta svo og blíðmælgi Halldórs og skjall við peningamennina. Þjónkun Frmsóknar við fjármagnið er ekki ný af nálinni. Hins vegar virðast árásir formanns Framsóknarflokksins á samfélagsþjónustuna og opinberan rekstur færast í aukana auk þess sem ýmsar fullyrðingar hans í tengslum við einkavæðingu standast einfaldlega ekki skoðun. "Ég fullyrði", sagði Halldór Ásgrímsson við Verslunarráðið, "að möguleikar stjórnvalda til þess að tryggja landsmönnum öflugt dreifikerfi munu ekki minnka við sölu Símans, heldur aukast verulega."

Þetta er undarleg yfirlýsing frá manni sem ætlar að selja frá okkur arðsama eign og færa byrðarnar af fjármögnun dreifikerfisins yfir á herðar skattgreiðenda. Fram til þessa hefur Landssíminn skilað milljörðum í ríkissjóð og fyrr á tíð niðurgreiddi síminn póstþjónustuna. Nú er sá tími liðinn, bréfbuðrargjöld hafa hækkað og fyrirsjáanlegt að skattborgarinn þarf að koma að fjármögnun póstþjónustu á þeim svæðum þar sem byggðin er dreifðust. Í lögum er nú þegar búið að heimila slíka aðkomu skattborgarans gagnvart símaþjónustu. Því gerir Halldór Ásgrímsson sér þó grein fyrir: "Þá legg ég áherslu á að þrátt fyrir að ríkið sleppi hendinni af Símanum verður það áfram skylda stjórnvalda að beita tiltækum úrræðum til að tryggja nauðsynlega uppbyggingu á fjarskiptaþjónustu á svæðum þar sem markaðsaðilar treysta sér ekki til."

Póstur og sími tryggði Íslendingum ódýrustu símaþjónustu í heimi. Á þetta er m.a. minnt í nýútkomnu blaði Símamanna undir ritstjórn Þorsteins J. Óskarssonar. Yfirlýsingar Halldórs Ásgrímssonar hjá Verslunarráðinu verða harla undarlegar þegar málin eru skoðuð í víðu samhengi. Gefum honum sjálfum orðið: Á vakningarsamkomu Verslunarráðsins sagði Halldór Ásgrímsson að til væru þeir "sem sjá sér hag í því að gera sölu á Símanum tortryggilega. Innihald þeirrar umræðu er að mestu gamalkunn og kannski skiljanleg að einhverju leyti. Gamlir kunningjar hafa kvatt sér hljóðs á nýjan leik. Þeir sem lengst til vinstri standa vilja halda fyrirtækinu áfram í ríkiseigu og keppa áfram við atorkusama einkaaðila sem hafa haslað sér völl á fjarskiptamarkaðinum. Fleiri viðurkenna þó að ríkið eigi lítið hlutverk í dag í samkeppnisrekstri sem þessum, en krefjast þess að fyrirtækið verði klofið og grunnnetið aðskilið."

Gæti nú ekki verið að menn hafi sýnt atorkusemi innan Landssímans og þess vegna Orkuveitu Reykjavíkur og annarra þjónustustofnana í almannaeign? Síðan er það beinlínis rangt hjá Halldóri Ásgrímssyni að halda því fram að "fleiri viðurkenni" að ríkið eigi lítið hlutverk í þessum rekstri. Nú vill svo til að á þessu var gerð mæling á vegum Gallup. Sú könnun sýndi að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var á bandi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem vill tryggja almannaþjónustuna í almannaeign og hafnar minnihlutaskoðun Halldórs Ásgrímssonar og Verslunarrásins að fela fjárfestum á markaði slíkan rekstur sjálfum sér til ábata.