Fara í efni

FRAMSÓKN FRAM AF FULLUM ÞUNGA?

Ég sé í fjölmiðlum að Geir H. Haarde, utanríkisráðherra vill einkavæða Keflavíkurflugvöll. Ekki þykir mér það vera vel ígrunduð hugmynd eins og þú bentir á við umræðu á Alþingi. Það gerðu reyndar einnig þingmenn Framsóknarflokksins. Þeim leist ekkert á þeta tal í Geir og minntu á að þetta væri aðeins hugmynd og hefði hún ekki verið rædd í ríkisstjórn. Mér stórlétti við að heyra þetta. Við vitum hvílíkur styrkur er í Framsókn þegar á reynir. Um það tala ófá dæmi. Yfirlýsingar þeirra hafa alltaf reynst gulls ígildi, til dæmis loforð um að ekki verði hróflað við Íbúðalánasjóði eða að Ríkisútvarpið yrði ekki undir neinum kringumstæðum gert að hlutafélagi! Skyldi Framsókn fara fram af fullum þunga í flugvallarmálinu eins og hún hefur gert gagnvart RÚV og fyrirsjáanlegt er að hún geri gagnvart Íbúðalánasjóði? Óhætt er að segja að það er mikið hald í Framsókn þegar hún virkilega beitir sér – eða þannig.
Haffi