Fara í efni

Framsókn byrjuð að klippa á borðana

Hjálmar Árnason alþingismaður tók sig einstaklega vel út við opnun Barnaspítala Hringsins í gær og var Framsóknarflokknum til mikils sóma. Hjálmar var formaður byggingarnefndar og því eðlilegt að hann kæmi fram við þessi tímamót fyrir hönd skattborgaranna. Einstaklega vel var til fundið að draga opnunarhátíðina á langinn. Þannig var á laugardegi eins konar forsýninig fyrir fjölmiðla þar sem Hjálmar sýndi starfsmönnum lykla sjúkrahússins. Ljósmyndarar blaðanna náðu að fanga augnablikið þannig að þegar komið var á hina einu og sönnu opnun daginn eftir vissu menn hvers mátti vænta. Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn er að hefja kosningabaráttuna í hefðbundnum stíl ríkisstjórnarflokks og má vænta þess að mikið verði um dýrðir við opnanir og borðaklippingar þegar líður að vori.