Fara í efni

FRAMLAG TIL MANNRÉTTINDASKRIFSTOFU VERÐI ENDURSKOÐAÐ

Hér á síðunnni grófflokka ég efnið undir aðskiljanlegum heitum, samfélagsmál, umhverfismál, umheiminum, stjórnmálum og svo framvegis (sjá neðst á síðunni). Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég flokkað málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands undir samfélagsmál. Ekki að þessu sinni. Nú er tilefni til að flokka skrifstofuna undir stjórnmál. Ekki svo að sklija að Mannréttindaskrifstofa Íslands sé pólitísk í þröngum skilningi. Það er framkoman í hennar garð sem er pólitísk. Eða hverju sætir að opinbert framlag til þessarar mikilvægu stofnunar, sem er andlit Íslands inn á við og út á við í mannréttindamálum, er skorið niður úr 8 milljónum í 2,2 milljónir? Skyldi það vera vegna þess að Mannréttindaskrifstofa hefur haft sitthvað að athuga við ýmis umdeild stjórnarfrumvörp, fjölmiðlafrumvarpið, útlendingalagafrumvarp og fleiri á undanförnum misserum? Enginn hefur treyst sér til að segja að Mannréttindaskrifstofan hafi ekki verið fagleg og sanngjörn í umfjöllun sinni um fyrrgreind mál. Hún hefur hins vegar gerst sek um þann "glæp" að vera stjórnvöldum ekki undirgefin. Þess vegna er nú talað um hefndaraðgerðir í hennar garð.
Þessu hefur verið mótmælt og stjórnarmeirihlutinn hvattur til að endurskoða sinn hlut. Það gerði BSRB í dag í eftirfylgjandi ályktun sem samþykkt var einróma á stjórnarfundi samtakanna:
"Stjórn BSRB hvetur stjórnvöld til að endurskoða afstöðu sína um fjárstuðning við Mannréttindaskrifstofu Íslands og tryggja henni traustan starfsgrundvöll. Mannréttindaskrifstofan gegnir lykilhlutverki í þjóðfélaginu. Hún veitir stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald og ráðgjöf auk þess sem hún örvar til umræðu í samfélaginu um mannréttindamál. Mannréttindaskrifstofan er einn af hornsteinum lýðræðisins í landinu."