Fara í efni

FORSÆTISRÁÐHERRA OG FORMENN STJÓRNMÁLAFLOKKANNA Í BOÐI ALCAN!!!

Getur einn fjölmiðill komist lengra í vesælmennsku en að efna til umræðu um liðið ár og það sem framundan er, með formönnum allra stjórnmálaflokka og þar með forsætisráðherra landsins, í boði álrisans Alcan! Þetta gerði Stöð 2 í gær í svokallaðri Kryddsíld. Þar voru áhorfendur minntir á það með reglubundnum hætti í hléum sem stjórnmálaforingjarnir voru látnir gera á umræðu sinni, að þeir væru þarna frammi fyrir þjóð sinni í boði Alcan.

Þetta í kjölfar álinnpakkaðrar mútugjafar til Hafnfirðinga rétt fyrir hátíðar hlýtur að slá  met í óskammfeilni og smekkleysu.

Hvað skyldi svo bíða íbúa hreppanna á virkjunarsvæðunum upp með Þjórsá? Að sjálfsögðu munu þeir krefjast sinnar atkvæðagreiðslu um stækkun í Straumsvík, álver í Helguvík og hvar sem verða vill. Slíkar framkvæmdir koma nefnilega þeim beint við vegna þess að þeirra svæði mun þurfa að sjá álfyrirtækjunum fyrir orku. Ég spái því að eftir að Alcan og ríkisstjórnin beygir sig fyrir þessari staðreynd, sem þeim hlýtur að verða nauðugur kostur að gera, verði farið að bera gjafir á bændur við Þjórsá.

Síðan er hitt að þessi mál koma að sjálfsögðu ekki þeim einum við sem búa á þeim svæðum sem verksmiðjurnar eru reistar, eða raforkan framleidd. Þetta kemur öllum landsmönnum við.

Í vor verður kosið um álið og stóriðju. Víglínurnar eru að dragast upp, fyrst í Hafnarfirði, þar verður kosið um álið og síðan á landinu öllu.

Það er ekki seinna vænna að hefja baráttuna. Það er lífsnauðsyn að hún verði kröftug!