Fara í efni

FORÐUMST ALHÆFINGAR

Birtist í Morgunblaðinu 01.04.08.

Birtist í Morgunblaðinu 01.04.08.
EINS og gefur að skilja hefur ákvörðun um að hækka afurðastöðvaverð til bænda um 14 krónur á mjólkurlítrann eða um 14,6% vakið athygli og viðbrögð enda um að ræða meiri hækkun en orðið hefur í einu lagi um langt árabil. Annars vegar þykir neytendum hækkunin mikil, hins vegar heyrast þær raddir frá kúabændum að hún sé of lítil og er þar einkum vísað til stóraukins fjármagnskostnaðar. Viðbrögð hvorra tveggja eru skiljanleg en um var að ræða málamiðlun sem BSRB stóð að í Verðlagsnefnd búvara.

Enginn getur véfengt að kúabændur hafa orðið fyrir miklum áföllum vegna geigvænlegrar hækkunar á áburði og öðrum aðföngum. Drýgstur hluti hækkunarinnar er af þessum sökum. Þá er hækkunin einnig vegna annarra þátta og vegur þar fjármagnskostnaður þungt. Viðmiðun vegna aukins fjármagnskostnaðar er þó aðeins brot af því sem forsvarsmenn kúabænda telja réttmætt þótt þeir hafi fallist á niðurstöðuna sem málamiðlun.

Ástæðan fyrir því að BSRB ákvað að standa að þessari hækkun er í fyrsta lagi sú að samtökin hafa sannfærst um að kúabændur myndu upp til hópa lenda í verulegum hremmingum ef ekki yrði komið til móts við óskir þeirra og væri það í hæsta máta óábyrgt að tefla afkomu þessa mikilvæga atvinnuvegar í tvísýnu. Í annan stað má ekki gleyma því að bændur geta ekki farið líkt að og ýmsir aðrir sem stýra verði á vöru sinni eða þjónustu og ákveðið verðlagið einhliða. Sannast sagna er ástæða til að ætla að sveiflur á heimsmarkaðsverði eða gengissveiflur hafi iðulega ekki skilað sér í lægra vöruverði þegar þær hafa verið neytendum í hag þótt sjaldan hafi þess verið langt að bíða að vöruverð hafi verið hækkað í snarhasti þegar hið gagnstæða hefur verið uppi á teningnum. Í fyrra tilvikinu hefur neytendum verið sagt að vörubirgðir hafi verið miklar þannig að verðlækkanir muni láta á sér standa. Gamlar birgðir virðast hins vegar ekki vera fyrir hendi þegar gengi krónunnar veikist eða verðlag á heimsmarkaði verður okkur óhagstætt. Þetta er nokkuð sem við höfum orðið vitni að þessa dagana.

Við þessar aðstæður hafa bændur ekki búið þar sem hömlur eru á verðlagi framleiðslu þeirra. Við sjáum ástæðu til að benda á þessi atriði í tengslum við þá umræðu sem nú fer fram um réttmæti hækkunar til kúabænda. Í þeirri verðhækkunarhrinu sem nú gengur yfir er mikilvægt að neytendur haldi vöku sinni. Þá er og nauðsynlegt að allir þeir sem stýra verðlagi á vöru og þjónustu axli ábyrgð, haldi aftur af verðhækkunum, jafnvel leiti leiða til lækkunar. Það breytir ekki hinu að hækkanir verða stundum ekki umflúnar og geta hreinlega valdið keðjuverkandi áföllum ef ekkert er að gert. Okkar mat er að einmitt þetta eigi við um mjólk og mjólkurafurðir. Á dýrtíðartímum verður vissulega að gæta aðhalds. En jafnframt þarf að sýna raunsæi. Því fer fjarri að hægt sé að alhæfa um verðhækkanir.

Elín Björg Jónsdóttir er varaformaður BSRB og fulltrúi í Verðlagsnefnd búvara. Ögmundur Jónasson er formaður BSRB.