Fara í efni

Fólk verði ekki látið gjalda aldurs á vinnustað

Birtist í Mbl
Mjög athyglisverðar upplýsingar komu fram í útvarpsþættinum „Hér og nú“ fyrir nokkru, þar sem fjallað var um fordóma gagnvart miðaldra og eldra fólki á vinnumarkaði.

Að yngja upp ásýnd.

Í þættinum var staðhæft að þessir fordómar færu vaxandi og að algengt væri að atvinnurekendur vildu ekki ráða fólk sem komið er yfir 45 ára aldur. Ekki nóg með það því í máli Hugrúnar Jóhannesdóttur, forstöðumanns Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins, kom fram að fólki er hreinlega sagt upp störfum til „…að yngja upp ásýnd fyrirtækisins.“ Friðbert Traustason, formaður Sambands íslenskra bankamanna, var þungorður í þessum útvarpsþætti og sagði að talsverð brögð væru að því að fólki sem starfað hefði í áratugi í bönkum væri vísað á dyr með uppsagnarbréf í vasanum til að rýma fyrir yngra fólki. Formaður SÍB sagði að siðferði fyrirtækja sem höguðu sér á þennan veg væri ábótavant. Hvatti hann til viðhorfsbreytinga í samfélaginu.

Undir þetta skal tekið. Undirritaður hefur nú að nýju lagt fram þingsályktunartillögu um að skipulega verði kannað hvort unnt sé með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi án þess að hún fengist afgreidd. Viðbrögð við henni voru almennt afar jákvæð með undantekningum þó, því Samtök atvinnulífsins höfðu af því nokkrar áhyggjur að hætt væri við því að löggjöf af því tagi sem tillagan vísar til gæti skapað fleiri vandamál en henni væri ætlað að leysa. Þannig sagði SA í álitsgerð sinni að tillagan væri „…eingöngu til þess fallin að skerða snerpu og viðbragðsflýti fyrirtækja og dregur þannig úr samkeppnishæfni þeirra og þá jafnframt atvinnumöguleikum starfsmanna.“

SA skýri sjónarmið sín.

Vel má vera að það sé erfiðleikum háð að koma með lögum í veg fyrir mismunun vegna aldurs en tillagan gengur út á að kanna hvort og hvernig mætti bera sig að í því efni. Hitt tel ég rangt hjá talsmönnum Samtaka atvinnulífsins að fólk sem er komið á miðjan aldur eða þar yfir hafi minni „snerpu og viðbragðsflýti“ en yngra fólk. Þvert á móti hafa komið fram sterkar vísbendingar um að æskudýrkun sem svo hefur verið nefnd hafi komið fyrirtækjum í koll og beinlínis orðið til að veikja stöðu þeirra. Til þess að geta brugðist hratt og skynsamlega við er ekki verra að starfsfólk búi yfir reynslu og þekkingu. Það er meira að segja alveg bráðnauðsynlegt þegar um er að ræða afdrifaríkar ákvarðanir.

Á vettvangi stjórnmálanna og innan verkalýðshreyfingarinnar hafa menn að mínum dómi réttmætar áhyggjur af því að eldra fólk sé að ósekju látið gjalda aldurs síns, bæði þegar breytingar eru gerðar á starfsemi fyrirtækja sem leiða til uppsagna og þegar starfsfólki er fækkað vegna samdráttar. Með samningum má vissulega treysta réttarstöðu eldra starfsfólks, til dæmis með lengri uppsagnarfresti, ákvæðum um biðlaun og svo framvegis og hugsanlega einnig með ákvæðum í lögum. Mikilvægast af öllu er þó hugarfarið og að atvinnurekendur láti ekki stjórnast af fordómum eða hugmyndum sem þegar grannt er skoðað eiga ekki við nokkur rök að styðjast. Þess vegna er umræða um þessi efni mikilvæg og er hér með óskað eftir því við talsmenn Samtaka atvinnulífsins að þeir skýri sjónarmið sín. Skjót viðbrögð væru vel þegin. Um það erum við sammála að „snerpa og viðbragðsflýtir“ eru af hinu góða.