Fara í efni

Fjármagnseigendur með belti og axlabönd

Birtist í Mbl
Síðastliðið haust birti undirritaður blaðagrein undir þessari sömu fyrirsögn en beltið og axlaböndin vísa annars vegar í verðtryggingu fjármagns og hins vegar í breytilega vexti. Það er ekki á hverjum degi að Valgerður Sverrisdóttir bankamálaráðherra tekur undir með undirrituðum um vaxtakjörin á Íslandi en þó gerðust þau undur og stórmerki við umræður á Alþingi fyrir fáeinum dögum og í viðtölum í kjölfarið að ráðherra lét svo lítið að gera einmitt þetta. Hún kvaðst myndu beina því til Seðlabankans að taka fyrir tvítryggingu fjármagnsins að þessu leyti. Ekki útlistaði ráðherrann afstöðu sína ítarlega en af þessu tilefni er ástæða til að efna til frekari umræðu um mikilvægi þess að sporna gegn vaxtaokri og setja skorður við valdi lánastofnana.

Vaxtabyrði mikilvægari en verðtrygging

Um langt árabil hefur farið fram umræða um verðtryggingu fjármagns og telja ýmsir það vera allra meina bót að afnema verðtrygginguna. Fyrir þessu hef ég aldrei haft sannfæringu. Það sem öllu máli skiptir er hverja raunvexti lánin bera. Hvernig raunvextirnir eru samansettir skiptir hins vegar minna máli, hvort það eru háir nafnvextir á óverðtryggðum lánum eða lágir nafnvextir á verðtryggðum lánum gildir einu þegar að skuldadögum kemur. Það sem þá skiptir máli er hvað lántakandinn þarf að greiða, hver vaxtabyrði hans er. Og staðreyndin er sú, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að lánin sem bera hæstu raunvextina eru þegar á heildina er litið án verðtryggingar.

Ef við lítum á vaxtakjör láns til 6 ára með sjálfskuldarábyrgð eins og þau eru nú kemur í ljós að þeir eru um 17,30% á óverðtryggðu láni en um 12,25% á verðtryggðu láni. Miðað við 5% verðbólgu eru raunvextir verðtryggða og óverðtryggða lánsins þeir sömu. Gangi hins vegar verðbólguspá Seðlabanka Íslands eftir um 3% verðbólgu innan ársins þá eru raunvextir óverðtryggða lánsins allt að 2% hærri og væri eins konar þóknun lánveitanda fyrir að taka á sig verðlagsáhættuna. Þetta þýðir að fyrir þá sem vilja beita sér gegn háum fjármagnskostnaði á slagurinn ekki að snúast um verðtrygginguna sem slíka heldur á að beina kröftunum að því að létta klyfjar okurlánastefnunnar með öðrum hætti. Engum á að þurfa að koma á óvart að lán sem bera verðtryggingu skuli bera lægri vexti en hin sem enga slíka tryggingu hafa. Lánveitandinn getur lifað í þeirri vissu að lánið rýrnar ekki þrátt fyrir verðbólgu og getur hann af þeim sökum leyft sér að bjóða lægri vexti. Í þeim ríkjum þar sem verðtrygging er ekki við lýði tryggja lánveitendur sig með breytilegum vöxtum. Ef verðbólga eykst hefur lánveitandinn heimild til þess að hækka vextina. Ef hins vegar dregur úr verðbólgu eru vextirnir lækkaðir.

Ráðherra seint á ferli

Þetta nægir íslenskum fjármagnseigendum ekki. Þeir vilja geta haldið uppi um sig buxunum bæði með belti og axlaböndum. Þeir heimta verðtryggingu auk breytilegra vaxta. Verðtryggingin þýðir eins og áður segir að eign fjármagnseigandans rýrnar aldrei hver sem verðbólgan verður. Þá áhættu tekur lántakandinn hins vegar á sínar herðar. En í ofanálag heimtar lánveitandinn síðan breytilega vexti. Hann vill geta ákveðið einhliða og samkvæmt eigin geðþótta hve mikið hann skammtar sjálfum sér úr vasa lántakandans hverju sinni. Þetta er ósiðlegt.

Á þetta hef ég áður bent og reyndar boðað lagafrumvarp sem kæmi til með að reisa við þessu skorður. Undir þessa hugsun hefur viðskiptaráðherra nú tekið og er það fagnaðarefni. En því miður bregst ráðherrann við tveimur til þremur árum of seint þar sem vextir hafa farið hækkandi allan þann tíma. Það væri hins vegar óráðlegt að festa nafnvexti verðtryggðra lána á þessum tímapunkti þegar allt bendir til að þeir fari lækkandi. Reyndar tel ég eðlilegt að þær reglur sem settar yrðu um vaxtakjör væru á þann veg að nafnvexti verðtryggðs láns mætti ekki hækka á lánstímanum, en lánveitanda yrði að vera heimilt að lækka þá ef því væri að skipta.