Fara í efni

FITAN OG FÉLAGIÐ


Stjórn RÚV ohf var kjörin í gær. Handhafi hlutabréfsins í ohf, Þorgerður Katrín menntamálaráðherra, tilnefndi stjórnina sem áður hafði verið kjörin í hlutfallskosningu á Alþingi. Það þýðir að ríkisstjórnarmeirihlutinn endurspeglast í hinni nýju stjórn. Þess vegna var á Alþingi talað um ríkisstjórnarútvarp.
Þorgerður Katrín var óendanlega glöð við athöfnina í gær. Langþráðu takmarki var náð. Hún sagði að bjartir tímar væru framundan fyrir hið unga hlutafélag. Nú yrðu aldeilis hendur látnar standa fram úr ermum. Hvernig Ríkisútvarpið á að bera sig að í þessari nýju spennandi framfarasókn beið nýs stjórnarformanns að svara. Sá heitir Ómar Benediktsson og mun hafa reynslu úr heimi viðskipta.
Hann sagði að það vildi gerast hjá stofnunum sem hefðu “ekki tök á” að hagræða að safnast vildi fyrir “fita”. Þessa fitu þyrfti “félagið” að skera af.
Eflaust má hagræða í Ríkisútvarpinu, það hefur ekkert staðið í vegi fyrir slíku nema þá kannski úrræðaleysi. Það setur hins vegar að mér óhug þegar ég heyri hið nýja tungutak. Fólk sem ekki hugnast forstjórum kallast “fita”. Nú er ekki lengur vísað í Ríkisútvarpið heldur “fyrirtæki” eða “félag” sem hafi þá æðsta skyldu að megra sig, skera af sér einhverja meinta “fitu”. Hvar skyldi “fituna” vera að finna í stórfyrirtækjum þessa lands? Skyldu menn líta á forstjóra sem taka til sín tíu milljónir á mánuði sem “fitu”? Nei, ætli það flokkist ekki sem fita ef hægt er að losa sig við sendil, ræstitækni, millistjórnanda, ritara eða eins og einn förðunarmeistara?
Ríkisstjórnir Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa þrengt mjög að Ríkisútvarpinu, rauntekjur hafa dregist saman og mannafli að sama skapi: Um 15% frá 1996 ef ég man rétt. Í umræðum um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins kom fram að ekki stæði til að bæta fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins með auknum framlögum eftir að stofnunin hefði verið hlutafélagavædd. En nú skiljum við hvers vegna Þorgerður Katrín menntamálaráðherra er svona glöð og bjartsýn fyrir hönd hins nýja “félags”. Það er vegna þess að hún trúir því að Ómar stjórnarformaður og Páll útvarpsstjóri geti skorið einhver lifandis býsn af fitu utan af Ríkisútvarpinu. Bara með því að bregða hnífnum á loft megi færa björg í bú. Fróðlegt verður að sjá hvar kutanum verður beitt.
Annars myndi ég fara hægt í sakirnar. Hver veit nema komin verði til sögunnar ný ríkisstjórn eftir rúma tvo mánuði. Samanstandi hún af núverandi stjórnarandstöðu er Ríkisútvarpið hólpið.