Fara í efni

FÁTÆKAR ÞJÓÐIR EIGA EKKI AÐ GREIÐA NIÐUR RAFMAGN Í REYKJAVÍK

Sæll Ögmundur.
Við Vinstri grænir erum á móti því að einkavæða orkulindir Íslands og teljum að þær eigi að vera sameign þjóðarinnar. Um þá stefnu virðist raunar vera nokkur samstaða víðar í samfélaginu. En í sambandi við svokallaða "útrás" Orkuveitunnar langar mig að spyrja hvort við Vinstri grænir séum ekki á móti einkavæðingu orkulinda á Filippseyjum? Mér skilst að hraðinn, sem hafður var á fundum í stjórn Orkuveitunnar á dögunum, hafi helgast af því að Orkuveitan ætlaði að standa við einhverjar kaupskuldbindingar gagnvart tilboði GGE og/eða REI í orkufyrirtæki á Filippseyjum, þar sem ætlunin var að "eignast" ráðandi hlut í fyrirtæki sem nýtir orkulindir þar í landi. Þ.e.a.s. Orkuveitan, félagslegt fyrirtæki í eigu Reykvíkinga allra, kappkostar nú að komast yfir orkulindir í fjarlægu landi. Þetta er kannski ekki rétt hjá mér, en maður hefur bara svo óljósar hugmundir um aðstæður í orkugeiranum á Filippseyjum. Helsta fróðleiksuppsprettan er hálfmanískur lýsingarorðavaðall úr Össuri Skarphéðinssyni en lítið er að treysta á slíkar heimildir. Ég get ekki skilið að eignarhald á orkufyrirtækjum í öðrum löndum sé forsenda fyrir því að Íslendingar taki þátt í að aðstoða þriðja heims lönd við að byggja upp orkuiðnað sinn. Við munum sjálfir aldrei taka þátt í byggingu orkumannvirkja svo neinu nemur og erum heldur ekki aflögufærir fjárhagslega til að bæta úr brýnni þörf þriðja heims landa fyrir fjármagn. Hins vegar getum við lagt til einhvern skerf með þekkingu jarðvísindamanna og tækniþekkingu, sem við eigum þá að "selja" eins ódýrt og unnt er þegar í hlut eiga miklu fátækari lönd en Ísland. Góð leið til þess er að efla Jarðvísindaháskóla sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Í umræðum undanfarna daga hefur maður heyrt að Orkuveitan geti hagnast um einhverja miljarða, jafnvel tugi miljarða, á þátttökunni í REI, sem væri þá hugsanlega hægt að nota til að greiða niður orkukostnað Íslendinga. En einhvers staðar koma þeir peningar frá og maður veltir fyrir sér hvort það sé siðferðilega réttlætanlegt að láta fátækt fólk í þriðja heiminum greiða niður orkukostnað Reykvíkinga.
Jón Torfason