Fara í efni

FAGRA ÍSLAND Í 1.461 DAG

FB logo
FB logo

Birtist í Fréttablaðinu 12.08.08
Ég hef skrifað greinar í þetta blað undir fyrirsögninni Fagra Ísland, samhljóða stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Samfylkingin hét stóriðjustoppi kæmist hún til valda, nú skyldi gefið upp á nýtt, einsog formaðurinn orðaði það í aðdraganda síðustu alþingiskosninga: „Með þessari stefnumótun um hið fagra Ísland hefur Samfylkingin tekið þá skýru stefnu að sú stóriðjustefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt á umliðnum árum og boðar á komandi kjörtímabili eigi ekkert erindi við framtíðina. Hún á ekkert erindi við framtíðina, nú er tímabært að stokka upp spilin, gefa upp á nýtt og gefa náttúrunni betri spil á hendi en hún hefur haft hingað til. Samfylkingin mun fylgja þessu máli fast eftir, þetta verður veganesti hennar inn í nýja ríkisstjórn."

Sami stjórnmálamaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kom fram í fréttum Stöðvar 2 um verslunarmannahelgina til að tjá sig um þá ákvörðun umhverfisráðherra að heildstætt mat skuli gert á því að virkja og reisa álverksmiðju á Bakka við Skjálfanda. Gaf hún yfirlýsingu um að þetta þýddi ekki að horfið væri frá viljayfirlýsingu um að reisa álver á Bakka. Þvert á móti. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hafði áður gefið í botn í ámóta yfirlýsingum.

Hvernig er hægt að láta kjósa sig á þing á þeirri forsendu að allri frekari stóriðju verði skotið á frest en beita sér síðan fyrir stóriðju sem aldrei fyrr?

Ég leyfði mér að skrifa nokkrar greinar í þetta blað um svik Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Ég tölusetti svikin undir heitinu Fagra Ísland dagur 1, dagur 2 ... og svo framvegis. Fyrir þetta hlaut ég nokkurt ámæli frá fólki sem taldi að ég væri of íhaldssamur í upptalningunni. Svikin væru miklu örari en ég gerði grein fyrir. Sennilega var þetta réttmæt gagnrýni. Nú spyr ég: Hvernig verður Ísland útlits þegar Samfylkingin verður búin að svíkja í umhverfismálum allt kjörtímabilið? Það er 1.461 dagur. Mikið hægt að svíkja á svo mörgum dögum. Skyldi vera hægt að forða okkur frá þeirri ógæfu?
 
Höfundur er alþingismaður.