Fara í efni

FÆÐINGARORLOFIÐ OG JAFNRÉTTIÐ

Sæll. Í stefnuskrá VG er kafli um jafnrétti. Mig langar til að spyrja þig, sem formann Fjölskyldu- og styrktarsjóðs, hvort að það samræmist stefnu flokksins að greiða ekki körlum úr sjóðnum?
Haraldur Geir Eðvaldsson

Sæll Haraldur Geir og þakka þér fyrir bréfið. Með nýjum lögum um fæðingarorlof sem tóku gildi í ársbyrjun 2001 náðist fram mikilvægt baráttumál launafólks og félagslegra afla um að lengja fæðingarorlof og skapa körlum samsvarandi réttindi og konum. Lögin voru hugsuð út frá rétti barnsins og með jafnrétti kynja í huga. Fram að þessum tíma höfðu konur í opinbera geiranum búið við þau kjör að fá greidd ígildi fullra launa í þrjá mánuði og fastra launa í þrjá mánuði. Samkvæmt nýju lögunum er hins vegar um að ræða 80% launa í þrjá mánuði og þrjá til viðbótar eftir atvikum (þ.e. ef konan tekur alls sex mánuði). Þetta gat því leitt til skerðingar á greiðslum. 
Eftir langar og strangar samningaviðræður við ríki og sveitarfélög náðist það á endanum fram að tryggja framlag sem okkur reiknaðist að myndi brúa bilið á milli réttinda í hinu gamla kerfi og hinu nýja fyrir konur í ofangreindum samtökum. Þetta kostaði mikið og langvinnt þjark enda hafði það verið ásetningur viðsemjenda okkar að þessi réttindi legðust algerlega af í opinbera geiranum, í besta lagi með eins konar sólarlagsákvæði.
BSRB, BHM og Kennarasamband Íslands beittu sér fyrir stofnun Fjölskyldu- og styrktarsjóðs sem þú vísar til og var þar kominn vísir að sjúkrasjóði auk þess sem sjóðnum var ætlað að fjármagna greiðslur til mæðra í fæðingarorlofi af framangreindum ástæðum. Karlar hafa sumir mótmælt þessari skipan og telja hana ekki vera í anda jafnréttis kynjanna.
Ég er ekki sammála og tel að menn verði að horfa á málin í sögulega samhengi. Ef þetta fyrirkomulag líður undir lok stendur sjóðurinn frammi fyrir þeim valkostum að lækka greiðslurnar til hvers og eins þar sem eftir sem áður verður sama upphæð til skiptanna eða koma á nýju fyrirkomulagi. Varðandi spurningu þína þá tel ég að þessi skipan stríði ekki gegn stefnu VG - þó ég geri mér fulla grein fyrir að mörgum finnist þetta orka tvímælis - en fyrst og fremst er þessi afstaða í samræmi við þau viðhorf sem hafa verið uppi í stjórnum BSRB, BHM og KÍ.
Með kveðju,
Ögmundur Jónasson