Fara í efni

EVRÓPURÁÐIÐ: FLÓTTAMENN, NAGARNO-KARABACH, STAÐGÖNGUMÆÐRUN OG DÓMSTÓLAR

Evrópuráðið - 47 aðildarríki
Evrópuráðið - 47 aðildarríki

Nýlokið er vikulöngu þinghaldi hjá Evrópuráðinu í Strasbourg en alls eru þessar þingvikur fjórar talsins dreift á árið.

Harðnandi umræða um flóttamenn

Málin sem koma til umræðu eru margvísleg en eiga öll samnefnara í mannréttindum með einum eða öðrum hætti. Vandi flóttamanna og vandi ríkja sem hafa fengið flesta flóttamenn til sín var að sjálfsögðu mál málanna en umræðan harðnar eftir því sem vandinn vex. Undarlegt hve þeir sleppa sem eru valdir að vandanum nema náttúrlega þeir sem ekki eru hallir undir vestræna hagsmuni.

Vatni beitt í stríði

Deilur Armeníu og Azerbaijan um Nagorno-Karabakh settu svip á þetta þing.  Til umræðu var skýrsla um Sarsung vatnsveituna sem er á svæðinu sem Armenar hernumdu í stríðinu frá 1988 til 94, og hafa þeir verið sakaðir um að nýta yfirráð sín með því að svipta það fólk aðgangi að vatni sem byggir landamærahéruðin Azebaijan megin, bæði til drykkjar og til að veita á akuryrkjuland. Ég hef sannfæringu fyrir að sú sé raunin - þetta eigi sér stað - en deilan sé hins vegar flókin. Annars vegar hefur hún valdið því að yfir milljón manns hröktust frá heimilum sínum á þessu svæði og eru nú landflótta innan landamæra Azerbaijan. Síðan er hitt að í Nagorno-Karabakh er yfirgnæfandi meirihulti Armenar og vill sem minnst hafa með Azerbaijan að gera. Með öðrum orðum, alþjóðasamfélagið viðurkennir rétt Azerbaijan til yfirráða, en vilji meirihluta íbúa er hins vegar á annan veg. Niðurstaðan í umræðunni var að fordæma Armena fyrir að beita réttinum til aðgangs að vatni í stríði og væri það skýlaust mannréttindabrot.

Hatrömm umræða um staðgöngumæðrun

Staðgöngumæðrun kom einnig til umræðu, að vísu ekki á þinginu sjálfu heldur í Félagsmálanefnd, en þar á ég sæti. Umræðan var hatrömm. Fyrir nefndinni lágu drög að skýrslu um staðgöngumæðrun, en á daginn hafði komið að höfundurinn, sósíaldemókrati frá Belgíu, var jafnframt læknir við sjúkrahús í Ghent, þar sem m.a. er fengist við staðgöngumæðrun. Andstæðingar skýrslunnar sögðu að hér væri um að ræða óeðlileg hagsmunatengsl og yrði skýrsluhöfundur að víkja. Ég tel að þessi tengsl hafi verið vituð, en að andstæðingar málsins hafi einfaldlega viljað koma í veg fyrir að umræðan færi fram. Ég lagðist gegn því að skýrsluhöfundi yrði bolað frá, en án nokkurra skuldbindinga af minni hálfi um afstöðu í málinu. Allir eru sammála um að koma í veg fyrir staðgöngumæðrun í ábataskyni, en stóra deilumálið verður hvort líta eigi svo á að það verði komið undir hverju ríki um sig hvað það leyfir í þessu efni og hvað það bannar, eða hvort Evrópuráðið eigi að beita sér fyrir algeru banni líkt og Evrópusambandið hefur gert. Málið á eftir að fá talsverða umræðu í nefnd áður en það kemur fyrir Evrópuráðsþingið.

Mikilvægi sjálfstæðra dómstóla

Á þinginu tók ég þátt í umræðu um dómstóla og mikilvægi þess að þeir væru óháðir og óspilltir. Kynnti ég afstöðu vinstri flokkanna þar sem tekið var undir sjónarmið sem sett voru fram í skýrslu um þetta efni. Í greinargerð sem fylgdi skýrslunni var skírskotun til þeirra ríkja sem ekki standa sig í stykkinu í þessu grundvallarmáli.

Moldóva undir smásjá

Nokkur ríki, einkum fyrrum landstjórnarsvæði innan Sovétríkjanna, eiga erfitt með að fóta sig á hinni hálu braut lýðræðisins. Það birtist m.a. í dómstólum sem háðir eru ríkisvaldinu og misbeitingu réttarkerfisins í garð andófsmanna og pólitískra andstæðinga stjórnvalda. Eitt slíkt ríki sem staðhæft er að ekki sé allt með felldu er Moldova. Þar voru skipaðir tveir þingmenn til að hafa yfirumsjón með úttekt á stöðu mála og var ég annar þeirra.