Fara í efni

EVRÓPSK VERKALÝÐSHREYFING Á VAKTINNI – MINNT Á UNDIRSKRIFTASÖFNUN

Á stjórnarfundi Evrópusamtaka verkalýðsfélaga innan almannaþjónustunnar (EPSU) sem ég sat í byrjun vikunnar í Brussel var fjallað um hina margfrægu „þjónustutilskipun“ ESB. Tilskipunin var samþykkt af Evrópuþinginu sl. nóvember en allt mótunarferlið hefur einkennst af miklum átökum frá framlagningu tilskipunarinnar í ársbyrjun 2004. Þessi tilskipun ESB um þjónustu gengur í grófum dráttum út á það að um þjónustu skuli almennt gilda sömu markaðsskilmálar og um önnur viðskipti á innri markaði Evrópusambandsins.

Þá vaknar spurningin; hvað um velferðarþjónustu, á hún að lúta markaðsskilmálum og aðgangi markaðsaflanna?  Um þetta hefur stríðið staðið. Verkalýðshreyfingin hefur viljað skýrar markalínur og að sett verði löggjöf eða gefin út rammatilskipun sem afmarki með skýrum hætti alla velferðarþjónustu frá annarri þjónustu. Á það hefur ekki verið fallist. Framkvæmdanefnd ESB vill hins vegar fara þá leið að gefa út margar tilskipanir um einstaka þætti velferðarþjónustunnar og koma þannig í veg fyrir heildstæða umgjörð um hana. Það á til dæmis við um heilbrigðisþjónustuna en svo á að heita að hún sé undanskilin í hinni almennu þjónustutilskipun svo og ýmsir þættir félagsþjónustunnar. Óljóst er þó um túlkanir á ýmsum ákvæðum og með hvaða hætti tilskipunin verður endanlega innleidd í lög aðildarríkjanna. Þótt verkalýðshreyfingin hafi fagnað sigri þegar verstu annmarkarnir voru sniðnir af tilskipuninni eru alvarlegar blikur á lofti.

Greint var frá því á stjórnarfundinum að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (Commission) hefði safnað saman í skýrslu viðhorfum aðskiljanlegra aðila um framtíð heilbrigðisþjónustunnar en menn gera því skóna að á grundvelli þessarar skýrslu verði gefin út sérstök tilskipun eða grunnur að lagaramma um heilbrigðismál innan ESB.

Markaðsnefnd ESB (IMCO) gerði í síðasta mánuði tilraun til að ganga á svig við það samkomulag sem hafði náðst um þjónustutilskipunina með því að leggja til að heilbrigðisþjónustan yrði færð inn í þjónustutilskipunina á ný á afgerandi hátt og horfið frá öllum fyrri fyrirvörum. Á þetta féllst Evrópuþingið ekki. En þótt niðurstaða þingins yrði þessi var engu að síður að finna í hinni endanlegu samþykkt ákvæði sem ætlað er að búa í haginn fyriri markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar undir því yfirskyni að málið snúist fyrst og síðast um að tryggja landamæralausa heilbrigðisþjónustu.

Hví nefni ég þetta hér? Það geri ég vegna þess að okkur kemur þetta heldur betur við. Reglur sem gilda um markaðsvæðingu á hinu Evrópska efnhagssvæði taka til okkar. Þess vegna eigum við ekki að sýna andvaraleysi þegar þessi mál eru annars vegar. Í gegnum verkalýðshreyfinguna getum við haft áhrif og vil ég í því sambandi minna enn og aftur á undirskriftasöfnun á vegum hinnar evrópsku verkalýðshreyfingar um að verja velferðarþjónustuna. Ég hvet alla til þess að taka þátt í þessari söfnun. Það er hægt að gera HÉR. Við megum ekki sofna á verðinum þegar framtíð velferðarsamfélagsins er annars vegar.

Á stjórnarfundi EPSU voru gefnar skýrslur af starfi aðskiljanlegra nefnda. Hvað rafmagnsgeirann áhrærir er ljóst að markaðsvæðing raforkunnar gengur ekki sem skyldi. Samkeppnin virkar ekki því hvorki almenningur né fyrirtæki skipta um orkusölufyrirtæki. Þá er á það að líta að einokunartilhneigingin ágerist. Örfá risastór fyrirtæki eru hreinlega að gleypa markaðinn. Samt sem áður er haldið áfram á sömu braut. Alveg sama þótt reynslan sé afleit. "Það er enginn munur á að selja raforku og þvottaduft", var haft eftir forstjóra stærsta orkufyrirtækis Ítalíu (þar á ríkið enn 30% en er á leið út.) Svona er talað á sama tíma og raforkufyrirtækjunum er stolið af almenningi sem síðan er blóðmjólkaður. Alls staðar hefur markaðsvæðingin leitt til einokunar og stórhækkaðs raforkuverðs. Það er eins og margir stjórnmálamenn geri engan greinarmun á gryunnþjónustu samfélagsins, þ.m.t. velferðarþjónustunni og hverjum öðrum rekstri. Þannig sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra í viðtali við Viðskiptablaðið 1. júní sl. að þótt heilbrigðiskerfið væri mikilvægt – afar mikilvægt - væri það engu að síður eins og hver annar rekstur. Þetta er að mínu mati mikill misskilningur.

Í þessu andrúmslofti er ýtt undir einkaframkvæmdir opinberra aðila, ekki síst þar sem það kemur betur út í bókhaldi yfirstandandi árs, jafnvel þó heildarreikningur verði á endanum hærri fyrir skattborgarana. 

 "Það er helst að hægri menn séu varkárari en kratarnir,“ var sagt á fundinum. Þetta er nokkuð sem heyrist víða og veldur ugg á meðal félagslega sinnaðra sósíaldemókrata sem ekkert er gefið um markaðshyggju hægri sinnaðri félaga sinna. Ýmsir hafa gert því skóna að gjá sé að myndast innan hinnar sósíaldemókratísku hreyfingar hvað þetta varðar.

Á meðal þess sem fram kom á stjórnarfundi EPSU og vakti ánægju var að greint var frá því að borgarstjórar nokkurra stærstu höfuðborga Evrópu íhuga að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu til stuðnings sjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar hvað varðar velferðarþjónustuna. Þetta eru borgarstjórar Berlínar, Brussel, Lundúna, Parísar, Rómar og Vínarborgar. Hugsanlega bætast fleiri í hópinn. Þetta þóttu góð tíðindi.