Fara í efni

ERU MENN BÚNIR AÐ GLEYMA?

Ég hlustaði á þingmann Samfylkingarinnar á Bylgjunni í morgun ráðast á forsetann og segja að hann hafi verið einn helsti stuðningsmaður útrásarvíkinganna. Forsetinn hafi séð partíinu fyrir húsnæði. Síðan kemur Pétur hér á síðunni hjá þér og kennir forsetanum um allt sem aflaga fór í íslensku samfélagi og vill hann norður og niður. Þau skrif eru óvenjulega ósvífin og heiftug.
En er þetta alveg svona einfalt? Kom ekki nánast allt þjóðfélagið að útrásarruglinu, stjórnmálamenn, stjórnkerfið, utanríkisþjónustan meðtalin sem mærði óskapnaðinn? Eru menn nokkuð búnir að gleyma? Þegar þú varst að gagnrýna forsetaembættið Ögmundur  og útrásarvíkingana og útþenslu bankanna þá var það nánast eins og rödd hrópandans í eyðimörkinni og var tekið með háðsglósum. („Ögmundur vill bankana úr landi!")
Núna þykjast margir hafa tekið lagið með þér þarna í eyðimörkinni. En það gerðu þeir ekki. Þeir voru í allt öðrum kór, og sungu sumir hátt.
Það getur vel verið að hægt sé að endurskrifa söguna og kannski er það alltaf gert. En minni mitt leyfir þessar sögufalsanir hins vegar ekki.
Jóhannes Gr. Jónsson