Fara í efni

Eru fréttamenn Ríkisútvarpsins í álögum?

Fjárfesting Símans í Skjá einum hefur vakið athygli og viðbrögð. Fyrir fáeinum dögum sat stjórnarformaður Símans, Rannveig Rist, fyrir svörum um þetta efni í Kastljósi Sjónvarps. Hún kvað það vera eðlilega fjárfestingu fyrir símafyrirtæki sem vildi tryggja flutning um dreifikerfi sem það hefði upp á að bjóða að fjárfesta í sjónvarpsstöð. Ekki var hún þó að öllu leyti fjarri hugleiðingum Markúsar Arnar Antonssonar, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, sem fram komu í viðtali við Fréttablaðið sl. sunnudag. Rannveig sagði nefnilega að ekki vekti fyrir Símanum að fara út í dagskrárgerð eða hafa nein afskipti af henni. Markús Örn gekk lengra en hún gerði og varaði beinlínis við slíku samkrulli í eignarhaldi og sagði hann að fjölmiðlafyrirtæki sem starfaði "undir verndarvæng fjarskiptafyrirtækis" gæti notið óeðlilegra sérréttinda.

Í umræddu Fréttablaðsviðtali segir útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins um framtíðarmöguleika stafræns dreifingarkerfis: "Við höfum yfir okkur þá meginkröfu að þjóna landsmönnum öllum og til þess að þjóna öllu landinu teljum við að þurfi að byggja upp stafrænt dreifikerfi, jarðnet með sendum út um allt land...Samgönguráðuneytið hefur hefur haft forgöngu um athuganir á þessum málum og gert grófar áætlanir um það hvernig væri hægt að standa að því. Niðurstaðan var sú að óska eftir samráði útvarps- og sjónvarpsfyrirtækjanna annars vegar og fjarskiptafyrirtækjanna, aðallega Símans, hins vegar, um það hvort ekki væri hægt að ná samstarfi og sameinast um eina stefnu varðandi uppbyggingu á stafrænu dreifikerfi til alls landsins. Síminn og Norðurljós hafa ekki áhuga á því. Hér hjá RÚV höfum við sagt að við teljum lang eðlilegast að sem flestir aðilar taki höndum saman og til verði eitt kerfi sem bjóði upp á einn myndlykil til hagræðis fyrir notendur sem geti þannig náð öllum rásum sem í boði eru."

Prýðlieg hugsun Markús Örn! En nú kemur spurningin: Hvernig stendur á því að þessi stefna hefur ekki verið reifuð opinberlega? Og hver er skýringin á því að í fréttatímum RÚV og í Kastljósi Sjónvarpsins vakni sú eina krítíska spurning hjá fréttamönnum til stjórnarformanns Símans og annarra í forsvari á þeim bæ, hvers vegna fjárfest hafi verið í Skjá einum en ekki Norðurljósum? Hvers vegna er ekki spurt um samstarfsmöguleika við Ríkisútvarpið, sem lang eðlilegast hefði verið að leita til?! Þora menn ekki að spyrja um eðlilegt samstarf á milli stofnana í eigu samfélagsins? Að sjálfsögðu er sú leið sem útvarpsstjóri reifaði í Fréttablaðsviðtalinu sú allra eðlilegasta. En bruðlarar samkeppninnar svokölluðu mega ekkert sjá sem heitir samvinna og samstarf. Reglan skal vera að hver níði niður skóinn af samkeppnisaðilanum sem best hann getur. Því sárari sem hann síðan liggur í valnum þeim mun meiri er árangurinn! Ekki verður sagt að þetta sé beint gæfuleg mælistika á framfarir. En hvers vegna skyldi samfélagið láta bjóða sér upp á afturhaldshugsun af þessu tagi? Eru allir meira og minna í álögum? Mér sýnist það eiga við um fréttamenn Ríkisútvarpsins í þessu máli.