Fara í efni

ER VERIÐ AÐ FIKTA Í FRÉTTUM?

Sæll Ögumundur.
Bestu þakkir fyrir gömul og ný kynni. Mig langar til að spyrja: Er verið að innleiða ritskoðun í landinu í skjóli skuggalegra niðurstöðu hrunskýrslunnar? Hvar er Davíð Oddsson niðurkominn núna? Er hann virkilega flúinn úr landi? Á dögunum birtist á vefmiðlinum visir.is frétt um að Davíð Oddsson væri flúinn úr sprungunum við Rauðavatn og meira að segja alla leið úr landi. Ekkert var minnst á þessa stórfrétt í Morgunblaðinu en ekki leið á löngu að fréttin á visir.is var tekin ofan án nokkurra skýringa. Mér tókst nú samt að berja þessa smán augum og var fljótur að blogga eins og sjá má hér: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/1039903/ Þetta er stórmerkilegt! Greinilegt er að snillingar frjálshyggjunnar telja sig ekki þurfa að standa reikningsskap gerða sinna. Eru frjálshyggjuöflin kannski að fikta í fréttum landsmanna og beita miskunnarlaust ritskoðun í krafti ósýnilegs valds síns? Þá var einnig mjög merkileg yfirlýsing fulltrúa Engeyjarættarinnar á Alþingi Íslendinga núna á dögunum, sjá um það hér: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/1040062/ Við sitjum uppi með kostulegan arf verstu ríkisstjórnar íslenska lýðveldisins og jafnvel þó víðar væri leitað. Hrunið og tómarúmið í kjölfar þess minnir einna helst á eymd hrundra borga Evrópu eftir heimsstyrjöldina síðari. Við sitjum uppi með einhverja þá verstu vitleysu sem nokkrun gat dottið í hug í Evrópu og órað fyrir. Við erum skuldug upp fyrir haus án þess að hafa getað átt neinn möguleika að verja okkar hagsmuni og allt okkar sparifé t.d. í formi hlutabréfa er horfið í hít siðlauss braskaralýðs. Braskaranir hafa haft okkur að fíflum og fagurgali vissra stjórnmálamanna er ótrúlega bíræfinn og ekki til að bæta úr. Nóg af svo góðu - í bili.
Baráttukveðjur úr Mosfellsbæ,
Guðjón Jensson