Fara í efni

ER PUNGUR Á VALGERÐI?

Skjár einn var tekinn í bakaríið á dögunum fyrir að sjónvarpa enskum knattspyrnuleikjum með enskum þulum en ekki íslenskum. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist á sjónvarpsstöðinni Sýn í dag þar sem keppni framsóknarmanna í hrútspungakasti verður sýnd í beinni útsendingu. Spurningin sem brennur á vörum þeirra sem gera heiðarlega tilraun til að fylgjast með þessari skrýtnu og torskildu íþrótt er hvort íslenskir þulir muni útskýra og lýsa leiknum eða hvort honum muni verða lýst á framsónsku eins og tíðkast hefur hingað til?
Fótboltinn er alþjóðleg íþrótt en pungakastið einangrað við fámennan hóp íslenskan og á sér alls engar djúpar rætur í sport-sögu landsins. Þeim mun alvarlegra verður yfirvofandi brot Sýnar að teljast heldur en í tilviki Skjás eins, og breytir þá litlu þótt Guðni hross verði látinn lýsa öllum herlegheitunum enda var frammistaða hans vægast sagt hörmuleg síðast, eins og við var að búast. Hvað meinti hann til að mynda með því að betra væri eitt eista í hendi en tvö í pungi eftir að Halldór formaður kastaði pungnum óvart framan í Alfreð, hvern hann sagði síðan vera með augað í pung? Var þetta aulafyndni eða sértæk og yfirveguð lýsing á íþróttinni, prýdd þar til gerðum hugtökum? Og af hverju hrópaði Guðni þegar iðnaðarráðherra kastaði tveimur pungum í einu: Það er pungur á Valgerði!! Með jákvæðni að leiðarljósi reyndi ég að gera mér í hugarlund að þetta væri eitthvað samsvarandi vítaspyrnudómi í fótboltanum en um leið læddist sá grunur að mér að um gæti verið að ræða hreinræktaðan dónaskap af hálfu lýsandans. Því miður er ég engu nær í dag en fyrir tveimur árum síðan. Og í framhaldi af þessum fáeinu dæmum er varla neitt undarlegt að spurt sé: er hægt að bjóða íslenskum áhorfendum upp á svona nokkuð? Auðvitað verður hver að svara fyrir sig í okkar ágæta lýðræðisríki en lögin eru í það minnsta afdráttarlaus þegar enska knattspyrnan er annars vegar.
Þjóðólfur