Fara í efni

ENN OG AFTUR UM VATN – OG NOKKUR ORÐ UM CHE OG PINOCHET

Fyrir fáeinum dögum brást ég hér á heimasíðunni við skrifum Birgis Tjörva Péturssonar í Viðskiptablaðinu um vitundarvakningu sem samtök launafólks og ýmis almannasamtök hafa efnt til um miklivægi vatns og að aðgangur að því verði viðurkenndur sem mannréttindi (sjá HÉR).

Aftur skrifar Birgir Tjörvi í Viðskipblaðið í dag. Hann ítrekar fyrri afstöðu sína að þessar áherslur hljóti fremur að eiga við um fátæk lönd þar sem vatnsskortur er en hér hjá okkur sem búum við nægt vatn. Hann segir jafnframt að enda þótt einkavæðing hafi í einhverjum tilvikum mistekist, þá sé það ekki vegna þess að einkavæðingin sjálf sé slæm: " Það liggur ekkert fyrir um að í þeim tilvikum  sé orsakanna að leita í þeirri grunnhugmynd að einkaaðilar hafi eignarrétt og einkaframtakinu sé leyft að njóta sín við nýtingu og dreifingu vatns . Þær grunnhugmyndir eru tvímælalaust það sem framtíðin ber í skauti sér."
Þarna greinir okkur á. Hins vegar er tónninn sá í grein Birgis Tjörva að hann vilji gjarnan ræða málin á grundvelli röksemda. Það segist Fredrik Segerfeldt líka vilja gera. Birgir Tjörvi vísar í grein sem hann ritaði  í Financial Times í ágúst sl.. Í þessari grein "svaraði Svíinn Fredrik Segerfeldt  -sem hefur m.a. ritað bókina Vatn til sölu (e. Water for sale) – Ögmundi fyrir mig." Ég hef nú aflað mér greinar Fredriks Segerfeldts og lesið hana. Þar er nú sannast sagna ekki mikil rök að finna en ég heiti Birgi Tjörva því, að ég mun afla mér fyrrnefndrar bókar eftir Segerfeldt og kynna mér röksemdir hans. Ég sakna þess að Fredrik Segerfeldt ræði reynsluna af einkavæðingu vatnsins. Hann gerir líkt og Birgir Tjörvi að vara okkur við því að láta reynslu af "slæmri einkavæðingu" hræða okkur því að einkavæða (" But these mistakes do not make strong arguments against privatizations as such, but against bad privatizations. Let us, therefore, have a discussion on how to make them work better, instead of rejecting the idea altogether." )

Gott og vel, ræðum bæði hugmyndafræðina og reynsluna. Í því samhengi vil ég spyrja Birgi Tjörva Pétursson hvort honum finnist sú hugmynd ganga upp að efna til samkeppni um dreifingu á vatni þegar aðeins ein vatnsleiðsla liggur inn í híbýli manna og mannvirki almennt? Gengur m.ö.o. hugmyndafræði einkavæðingarinnar yfirleitt upp þegar dreifing á neysluvatni er annars vegar? Þegar það síðan í ofanálag sýnir sig að einkavæddar vatnsveitur hafa nánast  alls staðar leitt til hærra verðlags, lakari þjónustu og rýrari starfskjara almennra starfsmanna hljótum við að láta slíkt stýra gjörðum okkar.

Í þriðja heiminum sem þeir Birgir Tjörvi og Fredrik Segerfeldt vísa til, jafnt sem í iðnvæddum ríkjum, hefur reynslan verið sú að einkaaðilar hafa komist í einokandi stöðu og þar sem fleiri en einn hafa verið um hituna hafa þeir einfaldlega skipt markaðnum upp á milli sín! Þannig, að það er ekki aðeins svo að einkavæðingin hafi gengið illa sem slík – sjálf grunnhugmyndin hefur einfaldlega ekki gengið upp.

Þetta á ég eftir að ræða nánar eftir að ég hef kynnt mér bók Fredriks Segerfeldts, Vatn til sölu, sem áður segir.

Hins vegar hef ég til gamans flett upp á Fredrik þessum Segerfeldt. Hann skrifar fyrir blöð og heimasíður sem eru nokkuð hressilega hægri sinnaðar og sjálfur segist hann gæti frekar hugsað sér að ganga í bol með mynd af Pinochet, fyrrum einræðisherra í Chile en Che Guevara. Sér væri það að vísu ógeðfellt því Pinochet hefði verið einvaldur og morðingi. Hann hefði hins vegar barist fyrir þjóðskipulagi sem leiddi til hagsældar, sá fyrrnefndi hefði hins vegar barist fyrir þjóðskipulagi fátæktar. Það er nefnilega það. 

Sjá dæmi um skrif Segerfeldts. 

Segðu mér hverjir eru vinir þínir og ég skal…

Auðvitað á að dæma menn af verkum þeirra en ekki þeirri umgjörð sem þeir hrærast í. Gamalt máltæki segir að vísu, segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal þá segja þér hver þú ert. Hér eru nokkrir vinir og velgjörðarmenn Tech Central Station , heimasíðu sem Fredrik Segerfeldt hefur skrifað greinar á. Sú heimasíða er fjármögnuð af stórfyrirtækjum eins og the American Beverage Association, AT&T, ExxonMobil, Freddie Mac, General Motors Corporation, McDonalds, Merck, Microsoft og Nasdaq, Eða eins og segir á heimasíðunni þá er hún "supported by sponsoring corporations that share our faith in technology and free markets. Smart application of technology - combined with pro free market, science-based public policy - has the ability to help us solve many of the world's problems, and so we are grateful to the American Beverage Association, AT&T, ExxonMobil, Freddie Mac, General Motors Corporation, McDonalds, Merck, Microsoft, Nasdaq, and PhRMA for their support. All of these corporations are industry leaders that have made great strides in using technology for our betterment, and we are proud to have them as sponsors. "