Fara í efni

ENN OF SNEMMT AÐ SEGJA TIL UM HVORT INNRÁSIN Í ÍRAK HAFI VERIÐ TIL GÓÐS EÐA ILLS?

Í tilefni þess að þrjú ár eru liðin frá innrásinni í Írak var Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra Íslands, spurður á Alþingi hvort hann teldi innrásina hafa verið til góðs fyrir Íraka. Hann kvað allt of snemmt að segja til um það!: "Aðeins framtíðin getur leitt það í ljós hvort það sem hefur gerst í Írak verði þjóðinni til farsældar þegar fram líða stundir. Það er alveg ljóst að þar er um að ræða tvo vonda kosti. Ég held að öllum megi vera það ljóst að framtíð íröksku þjóðarinnar hefði ekki verið björt undir ógnarstjórn Saddams Husseins. Það er líka ljóst að það ástand sem núna er í Írak er mjög alvarlegt. Þar ríkir ástand sem er á margan hátt skelfilegt, þar eiga sér stað hryðjuverk og þær hryðjuverkaárásir sem þar eru stundaðar á hverjum degi hljóta að vera öllum mikið áhyggjuefni...Auðvitað má deila um það sem áður hefur gerst en framtíðin hlýtur að skipta meginmáli og aðeins sagan getur dæmt það þegar langur tími líður."
Ég leyfi mér að gefa mér að hryðjuverkin, sem Halldór Ásgrímsson vísar til, séu hryðjuverk framin af andófsöflum gegn innrásinni. Fram til þessa hefur forsætisráðherra ekki tjáð sig mikið um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og Breta í Írak! Það er dapurlegt til þess að hugsa að eftir allar fréttirnar af fjöldamorðum, ógninni og kúguninni, pyntingum og niðurlægingu, sem tengist innrásinni og hernáminu í Írak, skuli höfðinu enn vera barið við steininn í Stjórnarráði Íslands. Það er ennþá of snemmt að segja til um hvort innrás, sem nú hefur leitt til borgarastyrjaldar í landinu, hafi verið til góðs eða ills, segir forsætisráðherra þjóðarinnar!
Auðvitað kemur að því einhvern tímann að birtir yfir Írak. En það verður ekki vegna þess að Bandaríkjamenn og Bretar, með stuðningi viljugra vina sinna, réðust á þjóðina heldur þrátt fyrir þá árás og allar þær hörmungar sem hún hefur leitt af sér.