Fara í efni

Engin óvissa um kostnað við Kárahnjúkagöng?

Nýlega birtist á heimasíðu minni ágætt bréf frá Andrési Kristjánssyni þar sem hann lýsti áhyggjum vegna fyrirhugaðra virkjunaráforma og þá ekki síst vegna ófyrirséðra útgjalda. Vísaði hann í gangagerð í tengslum við neðanjarðarlestakerfi í Kaupmannahöfn. Nefndi hann tölur í því sambandi en kvaðst ekki hafa þær staðfestar. (sjá bréf AK og svar 17/12 sl.) Í svari mínu til Andrésar sagðist ég ætla að reyna að afla nánari upplýsinga um þetta efni. Það hef ég nú gert og hefur eftirfarandi komið fram:

Áætlaður kostnaður vegna ganganna var 5,3 milljarðar d. kr. eða u.þ.b. 63 milljarðar ísl. kr. Þessi kostnaður tvöfaldaðist og varð u.þ.b. 11 milljarðar d. kr. eða um 130 milljarðar ísl. kr. Ástæðuna segja Danir vera þá staðreynd að ævinlega fylgi gangagerð mikil óvissa. Engu að síður höfðu þeir borað prufuholur með 300 m. millibili til þess að átta sig sem best á aðstæðum. Þrátt fyrir það var ekki mögulegt að meta aðstæður betur en svo fyrirfram að mjög mörg óvænt tilvik komu upp sem leiddu til tvöföldunar á kostnaði og lengingu á verktíma úr 4-5 árum áætluðum í 7 ár. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að gera samanburð á danska mannvirkinu og Kárahnjúkagöngum. Heildarlengd ganganna í Danmörku var 4,5 km eða einungis 1/9 af þeim 40 km. sem útboð voru opnuð í um daginn vegna Kárahnjúkavirkjunar!

Samtals verða göngin vegna væntanlegrar Kárahnjúkavirkjunar ca. 70 km. Lesendum skal bent á eftirfarandi slóð vilji þeir afla sér nánari upplýsinga um dönsku framkvæmdina.

http://cph.ing.dk/tema/metro/

Í bréfi sínu veltir Andrés því upp hvort ítalska fyrirtækið Impregilo, sem bauð í gangagerðina við Kárahjnúka, hafi komið við sögu í dönsku framkvæmdinni. Ekki hef ég fundið því stað. Hins vegar getur það vel verið en Andrés segir að fyrirtækið kunni að hafa komið að fyrsta tilboðinu í verkið sem hann heldur að hafi verið langt undir kostnaðaráætlun. Allt kann þetta að vera rétt. Það sem að ofan greinir eru hins vegar staðreyndir sem rétt er að hafa í huga í umræðunni um Kárahnjúka.