Fara í efni

En hvenær koma 90% lánin?

Íbúðalánasjóður er smám saman að sækja í sig veðrið. Það er vel. Ríkisstjórnin, eða öllu heldur félagsmálaráðherra hét því að hækka íbúðalán í 90%. Menn tóku það sem svo að 65% núverandi lánshlutfall yrði hækkað upp í 90% af verði venjulegrar íbúðar. Hámarksupphæð fyrir slík húsnæðislán er núna 11,5 milljónir. Sú upphæð er 65% af 17,7 milljónum. Það er algengt verð fyrir íbúðarhúsnæði á Reykjavíkursvæðinu. Ef hækka á 11,5 milljónir upp í 90% af 17,7 milljónum – í samræmi við fyrirheit félagsmálaráðherra - yrði að heimila hækkun lána upp í tæpar 16 milljónir. Það var hins vegar ekki gert. Hámarkslán mega aðeins fara í 14,9 milljónir. Ríkisstjórnin hefur því enn ekki staðið við fyrirheit sín um 90% lán. 14,9 milljón króna hámarkslán sem nú eru í kortunum eru aðeins 84% af 17,7 milljónum, því viðmiðunarmarki sem nú er viðurkennt. 84% lán eru þannig orðin að veruleika, en ekki 90% lán. Eðlilegt er að spurt sé, hvenær koma 90% lánin?