Fara í efni

EKKI LÍTA UNDAN


Ræða á útifundi á Lækjartorgi
Forsætisráðherra Íslands, sagði á Alþingi í vikunni að við yrðum að gera okkur ljóst að Íslendingar væru þess ekki umkomnir að stöðva ófriðinn í Palestínu. Hann sagði að þótt framferði Ísraela á Gaza svæðinu væri óafsakanlegt þá yrðum við að gæta að því að Ísraelar væru að svara eldflaugaárásum á eigið land. Það væri skýringin, þeirra skýring og þar með réttlæting á þessum aðgerðum.

Það má vel vera að við, ein og sér, smáþjóð á norðurhjara, séum þess ekki umkomin að stöðva hernaðarofbeldið í Palestínu. Okkur ber hins vegar að gera það sem í okkar valdi stendur til að stöðva yfirgang og ofbeldi hvar sem við fáum því komið við; okkur ber að leggjast á sveif með öllum þeim sem um víða veröld koma nú saman til að mótmæla ofbeldinu á Gaza. Og hvort sem við erum fá eða mörg þá er verkefnið hið sama; að vekja heimin til vitundar um það sem nú er þar að gerast.

Í næstum heilt ár hefur Gazasvæðið í Palestínu verið sem heljarstórt fangelsi. Þar hefur fólk ekki verið frjálst ferða sinna, lokað fyrir rafmagn og skrúfað fyrir eldsneyti. Fyrir bragðið hafa samgöngur lamast og það sem meira er, vatnsdælur stöðvast og klóökin stíflast. Matvæli eru á þrotum, lyf og önnur hjúkrunargögn að sama skapi. Og er þá ekki byrjað að ræða morðin og ofbeldið.

Og nú þegar spurt er hvers við séum megnug; hvaða áhrif við getum haft á aðstæður í fjarlægum heimshluta kemur upp í hugann hann Eduardo Grutzky. Gyðingur ættaður frá Ísrael, sem óx úr grasi í Argentínu, nú búsettur í Svíþjóð. Þegar Eduardo var 18 ára gamall lét herforingjastjórnin argentíska hneppa hann í fangelsi. Sakarefnið var að reyna að stofna samtök námsmanna. Í fangelsi var Eduardo haldið í 7 ár án réttarhalda. Þar sætti hann hrottafengnum pyntingum; var nær dauða en lífi þegar honum loks var sleppt úr haldi. En hvers vegna losnaði Eduardo Grutzky úr fangelsi? Og hvers vegna skyldi hann hafa fengið læknishjálp í fangelsi þegar hann var kominn í lífshættu af innvortis blæðingum vegna pyntinganna? Hann segist hafa fengið staðfest að það hafi verið vegna þrýstings íslenskra Amnesty félaga.  Og nú nær 30 árum síðar var Eduardo Grutzky kominn til Íslands til þess að þakka fyrir sig. Þakka fámennri sveit Íslendinga sem lét sig varða mannréttindi hinu megin á hnettinum, þakka einstaklingum sem lögðu það á sig mánuðum, misserum og árum saman að skrifa óteljandi bréf til að vekja athygli á hlutskipti hans.

Við getum það sem við viljum. Þannig var kynþáttastjórninni í Suður- Afríku velt, með samstilltu átaki frelsishreyfingar heima fyrir og þrýstingi frá heimsbyggðinni allri. Það er í vitneskjunni um þetta sem ábyrgð okkar liggur. Vitneskjunni um að það er hægt að breyta heiminum.

En fyrst er að skilja. Ísraelar og bakhjarl þeirra í Washington - Bush-stjórnin  - stillir upp sem jafningjum, sem tveimur jafnsettum vígvélum, annars vegar hinni ísraelsku og hins vegar hinni palestínsku. Þessar vígvélar standi gráar fyrir járnum hvor gegn annarri.
Staðreyndirnar tala öðru máli. Palestínumenn eru hernumin þjóð. Ísraelsríki hefur öll ráð þeirra í hendi sér, ákveður einhliða hvert skuli vera fjárstreymið til palestínskra stjórnvalda hverju sinni, hvenær landamæri skuli opnuð og hvenær þeim skuli lokað..... og hvað varðar eldflaugaárásirnar frá Gaza á byggðir í Ísrael, sem nú eru notaðar sem skálkaskjól  fyrir morðæðið undanfarna viku, þar sem á annað hundrað Palestínumenn, þar af tugir barna hafa verið myrt köldu blóði, þá er það svo að tilefnið var einn maður drepinn, karlmaður á fimmtugsaldri í Sderon, eina fórnarlamdið í slíkum eldflaugaárásum á undanförnum níu mánuðum! 
 
Þegar íslenskir ráðherrar tala um réttlætingu Ísraela á ofbeldisverkunum þá er þetta samhengið. Ísraelska hernámsliðið hefur í gegnum tíðina lært að lifa með tímabundinni gagnrýni umheimsins. Gagnrýnin er umborin að því tilskyldu að lykilorðið - leyniorðið -  fylgi: „Já, en við vitum að þið eruð að gera þetta í sjálfsvörn." Þannig talar Bush og þannig hafa íslenskar ríkisstjórnir talað í seinni tíð.

Við þurfum að skilja, sagði ég. En það er eitt að skilja á kaldan og tilfinningasnauðan hátt.  Annað að skilja þannig að hjartað nemi og tilfinningarnar, þannig að við gerum það núna sem við öll vildum að við hefðum gert þegar við lesum sögubækurnar eftir fimmtíu ár. Svo við þurfum ekki þá að spyrja, hvers vegna gerði enginn neitt, hvers vegna litu allir undan?
Þarf að drepa minn bróður, mína systur eða barnið mitt til að ég skilji í alvöru? Þarf að sprengja heimili  mitt í loft upp eða sjúkrahúsið þar sem faðir minn liggur, gamall og sjúkur, til að ég skilji til fulls fréttirnar frá Gaza?

"Það eru margar aðferðir til að íþyngja ekki samviskunni", sagði Richard Weizsäcker fyrrverandi forseti Þýskalands, "alltof mörg okkar þóttust eftir stríðið, ekkert hafa vitað."

En hér uppi á Íslandi spyr ég um okkar aðferð, hver er hún? Ekki getum við þóst ekkert vita. Því við vitum.

Á Alþingi var okkur tjáð að utanríkisráðherra Íslands  hafi sent utanríkisráðherra Ísraels bréf þar sem segi að íslenska ríkisstjórnin hafi áhyggjur af því sem sé að gerast á Gaza.

Þetta bréf svarar hvorki spurningum okkar né kemur til móts við kröfur okkar.

Ég spyr: Styður ríkisstjórn Íslands ofbeldisstjórn Ohlmerts? Ég spyr ríkisstjórnina því mér sýnist hún ekki hafa þrek til að horfa. Hún lítur undan. Að hafa áhyggjur, það er eitthvað sem maður hefur af bönkum. Við höfum ekki áhyggjur af ofbeldi, við fordæmum ofbeldi  - og við gerum það undanbragðalast.

Samkvæmt skoðanakönnunum í síðustu viku var yfirgnæfandi meirihluti Ísraela á móti ofbeldinu. Sjö af hverjum tíu vilja beinar viðræður við Hamas. Af hverju eru Íslendingar á móti því? Af hverju tökum við ekki undir með friðelskandi Ísraelum? Af hverju gefum við yfirgangsöflunum sífellt undir fótinn? Ekki þurfum við að vera hrædd við að láta í okkur heyra. Eða er okkar aðferð ef til vill sú að geafst upp fyrir ofurefli illsku og ranglætis?

Það er í tísku um þessar mundir að draga stríðsglæpamenn fyrir rétt. En það er ekki nándar nærri því eins mikilvægt og reyna að stöðva stríð og koma í veg fyrir stríðsglæpi. Við getum ekki beðið. Þessi fundur tekur ekki afstöðu með eða á móti þjóðum. Þessi fundur er haldinn til að hafna aðferðafræði illskunnar og aðferðafræði óttans. Við höfnum líka aðferðafræði skriffinnskunnar sem kæfir anda réttlætisins í loftlausum ráðuneytum. Í Palestínu liggja menn ekki bara í pólitísku blóði, þar liggja börn í alvöru blóði. Blóð fórnarlambanna í Palestínu rennur okkur til skyldunnar, við mótmælum og krefjumst þess að íslensk stjórnvöld líti ekki undan.