Fara í efni

EKKI HÆGT AÐ STINGA HÖFÐINU Í SANDINN ENDALAUST

Sæll Ögmundur.
Ég er að hlusta og horfa á alþingi og ég er sammála þér. Ég veit að það þarf að ræða fjárlög en þarf ekki að ræða miklu alvarlegri mál? Hvaða ástæðu gáfu þeir ykkur upp varðandi það að fresta þessari umræðu? Það verður að ræða efnahagsástandið núna. Er endalaust hægt að stinga höfðinu í sandinn? Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei fengið mitt atkvæði og mun ekki fá. Samfylkingin er einsog einhver sagði meðvirk húsmóðir sem reynir að halda friðinn á meðan húsbóndinn drekkur sig fullan. Fólkið í landinu er orðið þreytt á þessu ástandi en einhvern veginn er aftur og aftur kosinn þessi flokkur, sem ég kýs að kalla "mafíu" . Það tel ég vera réttnefni á Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddson sem er einræðisherra okkar tíma virðist ráða enn landinu. Það er sorglegt að á 21. öldinni skuli spilling vera svona mikil.
Eitt vil ég nefna að lokum, það sem gerir mig svo reiða er það að þegar að stjórnmálamenn tala um að allir þurfi að leggjast á eitt að spara og veita aðhald, hvernig má það þá vera að stjórnmálamenn fái afturvirka kauphækkun og þið eruð á margfalt hærri launum heldur en hinn vinnandi verkamaður???
Virðingarfyllst,
Bryndís Kristjánsdóttir

Sæl Bryndís og þakka þér fyrir bréfið. Engin haldbær rök voru færð fyrir því að taka Fjárlagafrumvarpið til umræðu í gær í stað þess að ræða efnahagsástandið og þar með forsendur frumvarpsins. Ríkisstjórnin verður að segja þjóðinni hvað hún hyggst fyrir áður en við getum lagt mat á forsendur frumvarpsins. Varðandi ábendingar þínar um kjör stjórnmálamanna þá staðnæmist hugur minn við eftirlaunalögin og er þér hjartanlega sammála.
Kv.
Ögmundur