Fara í efni

Einn kommi er einum of margir

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur gagnrýnt samstarfsmenn sína – suma hverja – fyrir að sýna Bandaríkjastjórn óvild og almennt fyrir að draga taum vinstrimennsku í fréttaflutningi og við þáttagerð. Þetta er með miklum ólíkindum og fyrir margra hluta sakir.
Í fyrsta lagi er þetta röng fullyrðing. Almennt hefur Ríkisútvarpið verið alltof lint og daufgert í fréttum á liðnum árum og hef ég hvorki orðið var við vinstrislagsíðu (nema síður sé) né að annarlegra viðhorfa gæti í garð Bandaríkjastjórnar. Það er hins vegar staðreynd að Bandaríkjastjórn hefur sætt mikilli og harðri gagnrýni bæði í Bandaríkjunum sjálfum og um heim allan. Þetta á við hvort sem horft er til ríkisstjórna eða almenningsálits eins og skoðanakannanir eru vísbending um. Tilefnin þekkja allir, nú síðast árásin á Írak í óþökk og án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Á að þegja frásagnir af þessu í hel? Hvað er útvarpsstjóri eiginlega að fara?
Það vekur athygli mína að þeir fréttamenn og þáttagerðarmenn sem útvarpsstjóri beinir spjótum sínum að hafa almennt þótt faglegir í vinnubrögðum. Þeirra "glæpur" virðist hins vegar vera sá að segja okkur fréttir sem eru hægri sinnuðum mönnum ekki að skapi!  Ekki hef ég alltaf verið sammála öllu því sem þessir fréttamenn hafa sagt eða áherslum þeirra í fréttaflutningi. Ekki er það þó vegna þess að ég sé hægri sinnaður. Það er einfaldlega vegna þess að aldrei er hægt að gera svo að öllum líki - alltaf. Fréttamenn eru engar heilagar kýr og það er mikilvægt að störf þeirra séu gagnrýnd. En sú gagnrýni á að vera á faglegum nótum og í farvegi sem stuðlar að málefnalegri og uppbyggilegri umræðu á meðal starfsmannanna. Það á ekki við um gagnrýni Markúsar Arnar að þessu sinni. Því miður.
Einkum er það Spegillinn sem hefur fengið skammtinn frá útvarpsstjóra. Þar er í forsvari Friðrik Páll Jónsson. Hann hefur yfirburða þekkingu enda með áratuga reynslu að baki. Hann er sérlega yfirvergaður fréttamaður, fagmaður á borð við það sem best gerist nokkurs staðar í heiminum. Þetta leyfi ég mér að fullyrða. Ég starfaði við erlendar fréttir á Ríkisútvarpinu í áratug og tel mig geta talað af nokkru innsæi um þetta efni. Mér hefur þótt Spegillinn vera nokkuð opinn þáttur og þar hefur verið leitast við að veita okkur innsýn í alþóðaumræðu á svipaðan hátt og geriast á góðum fjölmiðlum, þar sem vönduð vinnubrögð eru viðhöfð, á Norðurlöndum, Bretlandi, Frakklandi og víðar. Auðvitað finnur maður að á RÚV er fjármagn naumt skammtað, til dæmis ekki hægt að senda fréttamnenn á vettvang eins og æskilegt væri eða sinna rannsóknarvinnu, sem nauðsynleg er fyrir vandaða þáttagerð. Engu að síður er margt prýðilega gert. Mér hefur oft þótt Speglinum takast að vekja okkur til umhugsunar með skemmtilegum og fróðlegum pistlum. Þannig hefur upplýsingum og hugmyndastraumum verið veitt inn í þjóðfélagsumræðuna hér á landi. Allt sem víkkar sjóndeildarhringinn og dýpkar skilninginn er til góðs. Vilja menn skrúfa fyrir þetta? Vill útvarpsstjóri ef til vill fréttatíma sérhannaða fyrir þá Björn Bjarnason og Hannes Hólmstein, fréttatíma sem smellpössuðu inn í þeirra heimsmynd?  Þá gengi náttúrlega ekki að segja frá öllu, til dæmis því að Bandaríkjastjórn njóti ekki vinsælda í heiminum nú um stundir.
Dapurlegasta framlag í umræðuna nú kom frá ungum framsóknarmanni í Fréttablaðinu í gær, fulltrúa síns flokks í Útvarpsráði, Páli Magnússyni. Hann var spurður hvort væri "allt fullt af kommúnistum í Ríkisútvarpinu". Svar hans var á þessa leið: "Ef það er einn þá eru þeir of margir."  En hvað um frjálshyggjumenn, krata eða öfgafulla framsóknarmenn? Er það allt ílagi? Viljum við ekki að í Ríkisútvarpinu sé starfandi fólk með aðskiljanegar skoðanir? Viljum við ekki framar öllu að þar sé starfandi heiðarlegt fólk, helst fulltrúar sem flestra sjónarmiða, líka þeirra sjónarmiða sem Framsóknarflokkurinn heldur fram? Ég neita því ekki að ég þyrfti að taka mig nokkuð á til að óska sérstaklega eftir framsóknarmanni inn á fjölmiðil.
En það er hvorki mitt né annarra að leggja mælikvarða á skoðanir fólks þegar valið er til starfa á fjölmðli. Við eigum að gera kröfur til fagmennsku og heiðarlegra vinnubragða. Auðvitað er til slíkt fólk í öllum stjórnmálaflokum. Á stórum fjölmiðli þarf að vera fjölbreytni í skoðanaflórunni. Þegar ég hugsa málið til botns þá er niðurstaðan að sjálfsögðu sú að auðvitað þurfi framsóknarmenn líka að fá að vera með: Lifi skoðanafrelsið!