Fara í efni

EINKAREKIN HEILBRIGÐISÞJÓNUSTA DÝRARI OG RANGLÁTARI

Bæklingur BSRB með erindi sænska fræðimannsins Görans Dahlgrens, Opinber eða einkarekin heilbrigðisþjónusta?, hefur vakið verðskuldaða athygli. Í bæklingnum er á skýran og fagmannlegan hátt fjallað um kosti og galla mismunandi rekstrarfyrirkomulags i heilbrigðisþjónustunni. Niðurstöður Dahlgrens eru mjög afdráttarlausar og á þá lund að einkarekin heilbrigðisþjónusta sé dýrari fyrir skattborgarann og óhagkvæmari fyrir samfélagið í heild sinni en heilbrigðisþjónusta rekin af opinberum aðilum. Dahlgren segir ekki vafa leika á því að einkarekstur aukin á mismunun og komi sérstaklega í koll tekjulágu fólki. Niðurstöður sínar styður Dahlgren með rannsóknum og óvéfengjanlegum staðreyndum.
Dahlgren starfar nú sem gestaprófessor við háskólann í Liverpool í Englandi og er jafnframt ráðgjafi heilbrigðisráðherra víða um heim. Í formála að fyrrnefndum bæklingi BSRB, segir m.a.um þennan virta fræðimann: “Göran Dahlgren hefur síðan á níunda áratugnum verið áhrifamaður á alþjóðavettvangi á sviði heilbrigðis, – heilsugæslu, – og lýðheilsumála. Bók hans „Hjúkrunarmarkaður framtíðarinnar – hverjir vinna og hverjir tapa?“ sem kom út 1994 vakti mikla athygli, en þar dregur hann upp mynd af samspili heilbrigðiskerfisins og markaðarins. Honum hlotnuðust Norrænu lýðheilsuverðlaunin árið 2003 en í úrskurði dómnefndar sagði að framlag hans hefði brotið blað á sviði jafnréttismála, aðferðafræði, stefnumótunar og skoðanamyndunar í nútíma lýðheilsustarfi.
Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1989 einstaklingum eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í starfi að lýðheilsumálum á Norðurlöndunum, en að þeim standa Norræna ráðherranefndin og Norræni lýðheilsuskólinn. Hann fékk ásamt prófessor Margaret Whitehead styrk frá Rockefeller sjóðnum árið 2001 til að framkvæma greiningu á stefnumótun á sviði jöfnuðar í tengslum við umbætur í heilbrigðismálum.”

Bæklingin má nálgast á skrifstofu BSRB en einnig er hægt að lesa hann á vefsíðu samtakanna. Sjá Hér