Fara í efni

"EINHVERS STAÐAR ERU MÖRKIN Í HUGUM OKKAR ALLRA": PRÓFASTURINN Á REYNIVÖLLUM KALLAR EFTIR ÞJÓÐARSÁTT


Séra Gunnar Kristjánsson, prófastur á Reynivöllum í Kjós, flutti magnaða ræðu á fundi í Hraunseli í Hafnarfirði um náttúruvernd og þjóðgarð á Reykjanesi. Önnur stórgóð erindi voru flutt á ráðstefnunni og mun ég gera henni nánari skil hér á síðunni. Nánast er sama hvar borið er niður í ræðu séra Gunnars, alls staðar er að finna umhugsunarverðar og upptendrandi hugleiðingar. Hann talar mjög ákveðið í þágu náttúruverndar: "Það er tímaskekkja að óska eftir auknum virkjunum og aukinni stóriðju hér á landi. Vel menntuð þjóð í upplýstu og skapandi samfélagi með háþróað skólakerfi hefur margar leiðir um að velja til að auka velferð sína. Það gerir hún best með fjölþættu, litríku og skapandi atvinnulífi þar sem hver og einn finnur leið til að nýta sína starfsgetu. En stóriðjan hefur bitnað um of á landi okkar, ekki síst vegna virkjananna, það ætti öllum að vera ljóst."

Síðan segir Reynivalla-prófastur og er þaðan sótt fyrirsögnin: "Á sínum tíma þótti engin goðgá að virkja Gullfoss, Dettifoss og Goðafoss, en síðar rann mönnum kalt vatn milli skinns og hörunds þegar minnst var á slíkar hugmyndir og nafn Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti kemur í hugann, nafn konunnar sem var reiðubúin til að leggja líf sitt að veði fyrir verndun Gullfoss. Einhvers staðar eru mörkin í hugum okkar allra. "
Ég hvet alla til að lesa erindi séra Gunnars Kristjánssonar frá upphafi til enda. Það er að finna hér að neðan.

 

“Útsprunginn fífill.”
Endalok stóriðju?
1. Inngangur

Samtök um óspillt land í Hvalfirði eða Sól í Hvalfirði var fámennur hópur baráttuglaðra hugsjónamanna við Hvalfjörð fyrir áratug. Hugsjónir þeirra voru varðveisla óspillts lands en um leið nýting þess í þágu mannsins.

Eftir á að hyggja var baráttan ekki líkleg til sigurs, alþjóðlegt viðskiptastórveldi veifaði peningaseðlum og sigur þess mátti bóka fyrirfram. Þegar ljóst var að baráttan var töpuð mættu forsvarsmenn Sólar í Hvalfirði til guðsþjónustu í Reynivallakirkju og héldu síðan út á Hálsnesið sem gnæfir yfir hina fornu og sögufrægu Maríuhöfn, þaðan sem álverið blasir við sjónum. Þar afhjúpaði sóknarpresturinn minnisvarða með áletrun sem allir Íslendingar þekkja: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt en jörðin fær hlutdeild í himninum..., þar ríkir fegurðin ein...“ (Heimsljós II, 139). Þarna kallast andstæðurnar á yfir Hvalfjörðinn og þær andstæður mætast í hverjum einstaklingi hér á landi þessa dagana.

Það er því tímanna tákn að samtök um óspillt land komi nú víða fram á sjónarsviðið: Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi, Sól á Suðurnesjum. Barátta þeirra um landið heldur áfram en nú er meðbyr meiri en nokkru sinni enda flestum ljóst að tilefnið er ærið: landið er í húfi, umhverfi uppvaxandi kynslóðar er í hættu.

2. Aðrir tímar

Umræða um stóriðju og náttúruvernd hefur breytt um svip. Efinn um að við Íslendingar séum á réttri leið grípur um sig. Hið mikla inngrip inn í öræfin norðan Vatnajökuls vakti marga til umhugsunar, gegndarlaust virkjunaræði ráðamanna þjóðarinnar hefur vakið spurningar margra.

Því missætti sem upp kom í íslensku samfélagi með virkjun Jökulsánna á öræfunum norðan Vatnajökuls verður að ljúka með sátt fyrr eða síðar, sáttmála við landið og sáttargjörð með þjóðinni. Nú er tækifærið til að nema staðar um sinn, nú er tími endurmats og umhugsunar.

Fram undir þetta hafa menn verið ginnkeyptir fyrir skjótfengnum gróða og reiðubúnir til að loka augum fyrir neikvæðum afleiðingum stóriðjunnar. Nú er ekki annað að sjá en menn séu reiðubúnir – ekki síst hin uppvaxandi kynslóð – til að opna augun og spyrja: hvert leiðir þessi hraða þróun? Hvaða afleiðingar hefur hún fyrir sjálfsmynd okkar Íslendinga sem mótast hefur um aldir í sambýli við náttúrulegt umhverfi?

Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að hér er ekki um að ræða óverulegan fórnarkostnað heldur óafturkræfar breytingar á hinu náttúrulega umhverfi mannsins, fórnarkostnað sem kynslóðir framtíðarinnar munu greiða. Það er fórnarkostnaður í formi eyðileggingar á óspilltu landi í stórum stíl, í formi sívaxandi mengunar, í formi ruðningsáhrifa á þróun fjölbreyttra atvinnuhátta svo eitthvað sé nefnt. Framtíðarsýn orkufrekrar stóriðju á Íslandi er ekki glæsileg.

3. Stóriðja í Hafnarfirði

Hér í Hafnarfirði hefur stórbrotinni, náttúrulegri umgjörð byggðarinnar verið stórspillt. Þar verður ekki aftur snúið um fyrirsjánalega framtíð. Afdrifarík ákvörðun um stóriðju var tekin á sínum tíma – og þá voru það ekki heimamenn sem réðu ferðinni heldur stjórnvöld. Þeim til afsökunar er að vitund manna var þá önnur og skilningurinn á gildi óspilltrar náttúru hverfandi á við það sem nú er. Þá var tekin ákvörðun sem hefði verið óhugsandi nú: að reisa stóriðjuver á mesta þéttbýlissvæði landsins.

Að þessu sinni vinnur tíðarandinn ekki með frekari náttúruspjöllum heldur gegn þeim. Hér verður því tekin tímamótaákvörðun og engum er það betur ljóst en Hafnfirðingum. Hér er fyrsta raunhæfa tækifærið sem Íslendingum býðst til að veita óhóflegu inngripi inn í náttúru landsins viðnám og um leið að beina óheillaþróun í virkjunarmálum og atvinnuuppbyggingu í farsælli átt.

Í þessu samhengi er orðið “stóriðja” í reynd tiltölulega saklaust orð miðað við þá drauma um risaálver vítt og breitt um landið sem málið snýst í reynd um. Álver merkir jafnframt virkjun með tilheyrandi landspjöllum. Í þeirri feigðarför er enginn sáttmáli við Ísland á döfinni heldur er landið skoðað sem hráefnið eitt og einskis virði umfram það. Lífríkið er niðurlægt sem orkubú sem á sér aðeins tilverurétt sé hægt að breyta því í fjármagn sem aftur er hægt að breyta í tæki og tól til þess að njóta lífsins, m.a. að njóta óspillts lands sem þá verður ekki lengur til staðar.

Hér er svo sannarlega um tímamótaákvörðun að ræða. Það skiptir máli fyrir framtíð Íslands hverjir fara með sigur af hólmi í þeim átökum um landið sem nú standa yfir.

Við Íslendingar erum ekki fátæk þjóð, við erum “ein auðugasta þjóð í heimi” svo vitnað sé í fréttaviðtal við utanríkisráðherra í þessari viku. Fátækt knýr Íslendinga ekki til að spilla landinu. Hinn eiginlegi auður þessarar þjóðar er ekki orkan sem tekist hefur að beisla eða auðurinn sem framleiðsla á áli skilar til þjóðarbúsins heldur hið gjöfula land sem við byggjum. Hin eiginlega fátækt í þessu samhengi er blindan á hinn dýrmæta auð sem liggur í óspilltu landi. Hin eiginlega fegurð hafnar öllum verðmerkingum og því er hún auðveld bráð þeirra sem hugsa í einni vídd, í vídd fjárhagslegs ávinnings.

Framtíðin er björt svo lengi sem okkur tekst að sýna ráðsmennsku í sambúðinni við landið. Tíminn vinnur með þeim viðhorfum sem meta hinn eiginlega þjóðarauð að verðleikum.

Það er tímaskekkja að óska eftir auknum virkjunum og aukinni stóriðju hér á landi. Vel menntuð þjóð í upplýstu og skapandi samfélagi með háþróað skólakerfi hefur margar leiðir um að velja til að auka velferð sína. Það gerir hún best með fjölþættu, litríku og skapandi atvinnulífi þar sem hver og einn finnur leið til að nýta sína starfsgetu. En stóriðjan hefur bitnað um of á landi okkar, ekki síst vegna virkjananna, það ætti öllum að vera ljóst.

4. Afturhvarf til náttúrunnar

Á tímamótum í sögunni hefur maðurinn horft til náttúrunnar, þá hefur viðhorf hans mótast af lífsgildum hins upprunalega, þá hefur hann horft til náttúrnnar í listsköpun sinni og í annríki hins daglega lífs og sótt þangað nýjan skapandi kraft og aukinn lífsþrótt.

Nú eru slík tímamót í vitund okkar Íslendinga, það sýnir hin mikla og heita umræða. Það eru raunar tímamót í sögu hins alþjóðlega samfélags eins og alþjóðlegar stofnarnir hafa staðfest. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað þjóðir heims til ábyrgðar og endurmats í ljósi nýrrar þekkingar og framtíðarspám sem hafa ekki farið framhjá neinum.

Á tímum þegar horft er til landsins með nýju hugarfari skerpist ábyrgð mannsins andspænis lífríkinu og við finnum okkur knúin til að leita sátta við náttúruna á nýjan leik, gera sáttmála með einum eða öðrum hætti við umhverfið sem er forsenda alls sem lifir.

Á sínum tíma þótti engin goðgá að virkja Gullfoss, Dettifoss og Goðafoss, en síðar rann mönnum kalt vatn milli skinns og hörunds þegar minnst var á slíkar hugmyndir og nafn Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti kemur í hugann, nafn konunnar sem var reiðubúin til að leggja líf sitt að veði fyrir verndun Gullfoss. Einhvers staðar eru mörkin í hugum okkar allra.

Hvað var það sem leiddi hana til þessarar ákvörðunar? Það var vitund um gildi hins óspillta, það var hefð ævafornrar tryggðar Íslendinga við umhverfi sitt, trúnaður við fósturjörðina sem tilfinningar og saga tengjast mann fram af manni, það var vitund um gildi upprunalegrar fegurðar sem maðurinn þarfnast í heimi sem virðist sífellt meir firrast samband sitt við lífríkið – sem hann er þó hluti af.

Umhverfisverndarhreyfingum fylgir ein grundvallarhugsun: að snúa aftur til upprunans, að finna mennsku sína í tengslum við lífríkið sjálft, að kannast við að maðurinn deilir kjörum með lífríkinu í lengd og bráð.

Stóriðja stríðir gegn vitund okkar Íslendinga um landið, hér er um að ræða eitt grundvallarviðhorf þjóðarinnar. Sjálfsmynd okkar og sjálfsvitund, saga og samtíð eru samofin landinu í öllum þess myndum, í ógnvekjandi eyðingar- og sköpunarmætti þess, í ótæmandi örlæti þess og í fegurð sem á sér engan líka.

Að mínu viti stríðir stóriðja núna meir en nokkru sinni fyrr gegn tilfinningu okkar Íslendinga fyrir einstæðri náttúru landsins sem hefur vissulega átt í vök að verjast fyrir mótlæti eins og kuldaskeiðum, eldgosum og ágangi búfjár. En eyðilegging hinnar viðkvæmu náttúru Íslands af mannavöldum snertir við samviskunni og minnir sífellt á ábyrgð okkar á lífríkinu.

Við Íslendingar lifum eins og aðrar vesturlandaþjóðir í sífelldri togstreitu.

Annars vegar er náttúran í augum okkar hráefnið eitt sem bíður þess eins og verða nýtt og notað með öllum þeim ráðum sem til eru, með tækni og hugviti, tækjum og tólum til þess að auka velferð samfélagsins og velferð þeirra einstaklinga sem best standa sig í hernaðinum gegn landinu.

Hins vegar erum við svo dregin í aðra átt; það er löngun mannsins til að njóta náttúrunnar í sátt og samlyndi, til að vernda dýr og jurtir, land og haf, vötn og andrúmsloft. Þar eru aðrir og upprunalegri kraftar á ferð. Þar er löngun mannsins til fegurðar og lífsnautnar meginaflvakinn.

Þetta tvennt hefur um langan aldur ekki verið í viðunandi jafnvægi meðal okkar Íslendinga. Hafnfirðingar lenda í þeirri spámannlegu stöðu að þurfa að taka ákvörðun sem mun án efa gefa tóninn fyrir ný viðhorf í íslenskum þjóðmálum.

5. Tákn nýrrar vitundar

Það er fagnaðarefni að ný og sterk vitund um  umhverfi og lífríki hefur vaknað og sífellt fleiri sýna í lífi og starfi að þeim er ekki sama um umhverfið. Þar er fyrir að þakka starfsemi frjálsra umhverfis- og náttúruverndarsamtaka og einstaklinga.

Frjáls félagasamtök hafa gegnt brautryðjendahlutverki í hinni mikilvægu umræðu um umhverfismál. Það á við víða um heim og einnig hér á landi og ekki síst hér í Hafnarfirði. Þau hafa vakið fólk til umhugsunar um lífríkið og kallað til ábyrgðar, í því skyni hafa þau komið áleiðis fræðslu til almennings og stjórnvalda og beitt sér í baráttu fyrir bættu umhverfi.

Þau hafa einnig vakið til umhugsunar um lífsstíl okkar Íslendinga. Í því sambandi er gott að horfa inná við og huga að forsendum og samhengi í lífsgildum og lífsstíl sem þjóðin hefur búið að um langan aldur.

Þar á meðal er ein hinna svonefndu fjögurra höfuðdyggða í vestrænni menningarsögu, eitt grundvallarlífsgildi okkar menningar allt frá mótun grískrar heimspeki fyrir 2500 árum. Það er hófstillingin, sem margir telja höfuðdyggð sjálfra höfuðdyggðanna. Það er vissulega áhugavert að horfa til okkar samfélags og leggja þennan ævaforna mælikvarða á það sem við teljum eftirsóknarvert. Er hófstillingin þar enn gildur mælikvarði? Hefur vitundin um hófstillingu í eftirsókn eftir áþreifanlegum lífsgæðum ekki verið undirokuð og dæmd ógild um sinn? Viljum við ekki geta vaðið áfram án alls hófs í samskiptum við náttúruna? Og er það ekki þess vegna sem viðvörunarljósin byrja nú að blikka í hinum náttúrulegu lífsins gæðum? Ég þarf ekki annað en að nefna andrúmsloftið.

Lokaorð

Í umræðunni um álver og umhverfi er slegið á ýmsa strengi, þar eru lagðir fram útreikningar og áætlanir. En þeir sem hafa breytt sögunni í þessu efni eru einstaklingar sem lögðu sjálfa sig að veði, lífsviðhorf, lífsgildi og gildismat.

Umhverfisverndarhreyfing samtímans er oft rakin til einstaklings sem opnaði augu margra með þannig nálgun, til bandarísku konunnar Rachel Carson sem skrifaði bókina Raddir vorsins þagna sem kom út á íslensku fyrir rúmum fjórum áratugum, sú bók lauk upp augum margra um háskalega þróun í umhverfi mannsins. Það var hin skelfilega tilhugsun að maðurinn hefði gengið of langt, að honum tækist ef til vill að gera sjálfan sig ónæman fyrir röddum vorsins eða jafnvel að þagga þær niður með öllu.

Raddir vorsins hljóma brátt að nýju. Í Sjálfstæðu fólki er þessi lýsing á röddum vorsins. Ég bregð upp þeirri mynd að lokum.

Nonni litli tók leggina sína útá hól. Það var hann sem einn daginn kom inná baðstofugólf með þau tíðindi að það væri útsprúnginn fífill í bæarveggnum. Útsprúnginn fífill. Fáheyrður viðburður í afdal á þessum tíma árs. Öll systkinin og móðir þeirra fóru útundir bæarvegg til þess að skoða þennan litla fífil, sem breiddi krónu sína svo sæll og djarfur móti vetrarsólinni, þessa úngu viðkvæmu krónu. Eitt eilífðar smáblóm. Leingi leingi horfðu þau í tilbeiðslukendri aðdáun á þennan nýja vin, þennan forboða sumarsins í sjálfu vetrarríkinu, skrautlegan og ástúðlegan. Þau snertu hann í þögulli lotníngu með blágómunum, einsog trúaðar manneskjur ... það var einsog þau vildu segja: þú ert ekki einn, við erum einnig til, við erum einnig að reyna að vera til. Það var bjart yfir þeim degi. Uggur vetrarins allur horfinn á einum degi. Heiðríkja dagsins án endimarka í sálinni einsog á hvelinu, það var einn af hamíngjudögum lífsins og þau mintust þessa dags alla ævi.” (276).

Flutt á fundi um eldfjallagarð  í Hraunseli í Hafnarfirði 24. mars 2007.