Fara í efni

EINHLIÐA SKRIF UM ÍSRAEL GAGNRÝND

Sæll Ögmundur.
Fyrir stuttu síðan kaus ég vinstri græna og var ánægður með það, vildi sjá ykkar sem leiðandi afl í borginni. Sjálfur er ég ekki mikið pólitískur, en mér leist bara vel á flokkinn og hugmyndir flokksins í mikilvægum málum. En að undanförnu hef ég verið að fylgjast með skrifum þínum og ummælum vinstri manna á því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég sé mikið eftir að hafa kosið flokkinn þinn eftir að ég sé hversu einhliða skoðanir ykkar eru á ástandinu þar. Ég hef verið í mörg ár mikill vinur Ísraels, en ég tek það fram að ég styð ekki morð á saklausi fólki eða stríð á nokkurn hátt. Eins og ég sagði þá eru skoðanir þeirra sem vinstri sinnaðir eru algjörlega einhliða á stöðu mála þarna niður frá. Ég skil ekki hvers vegna þú t.d sjáir ekki það að Ísraelsmenn þurfa að verja hendur sínar líkt og aðrir. Harkan sem þeir ganga fram í er einungis til að svara þeirri hörku sem þeir verða fyrir. Hizbolla samtökin hafa myrt fjölda saklausra borgara í N-Ísrael þúsundir loftskeyta þeirra hafa rignt yfir N-Ísrael á undanförnum vikum, þú minnist aldrei á það. Fólkið sem býr í N-Ísrael eru aðalega ísraelskir múslimar, þannig þessi hryðjuverkasamtök eru bara að myrða trúbræður sína. Svo er talað um að lífið í Ísrael sé bara dans á rósum á meðan líbanska þjóðin er að verða brunarústir einar. Þú vissir kanski ekki að í Ísrael eru 1 milljón manns á flótta frá norðurhlutanum, hvað með þetta fólk, það minnist enginn á það. Þið vinstri sinnaðir virðist bara sjá þetta stríð frá einni hlið. Ég veit að með fjölmiðlum hér á landi hefur verið algjörlega einhliða vinstrisinnaður fréttaflutningur á þessu stríði og þeir sem sjá þetta með augum raunveruleikans virðast bara vera íhaldsmenn. Best að kjósa þá það sem eftir er. Ég hafði í raun enga spurningu, langaði bara gagnrýna viðhorf þitt á því sem er að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs. þú hlýtur að taka gagnrýni, þú ert duglegur að gagnrýna. ég vona að þið vinstri menn farið að setja upp gleraugu raunveruleikans. Ég reyni að koma þessu til þín frá mér án þess að vera ókurteis.
Kv .
Steini

Sæll Steini og þakka þér fyrir bréfið. Sannast sagna reyni ég af fremsta megni að halda "gleraugum rauneruleikans", sem þú kallar svo á nefinu þegar ég fjalla um þessa atburði. Einmitt þess vegna er ég harðorður. Að mínu  mati liggur höfðusökin hjá Ísraelum en ekki Palestínumönnum, sem um áratugaskeið hafa verið fórnalömbin í þessum hildarleik þótt hitt sé rétt hjá þér að í stríðsátökum hefur fjöldi ísraelskra þegna fallið í valinn, þar með talið óbreyttir borgarar.
Ekki vissi ég að ein milljón Ísraela væru á flótta frá Norður-Ísrael. Hitt veit ég að í Golanhæðunum sem liggja að Suður-Líbanon, austan við nyrstu héruð Ísraels sem einnig liggja að Líbanon hafa Palestínumenn verið hraktir á brott frá heimilum sínum eftir að Ísraelsríki innlimaði hæðirnar í stríðinu 1967. Samkvæmt tillögum Sameinuðu þjóðanna frá 1947 átti það land hins vegar ekki að tilheyra Ísrael.  Ég kom á þessar slóðir þegar ég heimsótti Ísrael og Palestínu fyrir hálfu örðu ári. Sú heimsókn hafði djúp áhrif á mig.
Ég sendi þér hér slóð á pistil sem ég skrifaði frá Golanhæðunum þá. 
Mér þykir leitt að þú skulir ekki sjá þér fært að styðja VG í næstu kosningum vegna skrifa minna. Við því er lítið að gera. Ég skil að þú viljir vera þinni sannfæringu trúr. Sama á við um mig. Gangi þér allt í haginn. HÉR eru fleiri slóðir.
Með kveðju,
Ögmundur