Fara í efni

ÚTIFUNDUR GEGN ÍRAKS-STRÍÐINU Á INGÓLFS-TORGI 15. MARS KL. 13

Það var aðfararnótt 20. mars 2003, upp úr klukkan hálf þrjú að íslenskum tíma, sem þrjúhundruð þúsund manna herlið, aðallega frá Bandaríkjunum og Bretlandi ásamt fámennum hersveitum frá Ástralíu, Póllandi og Danmörku, réðist inn í Írak. Meðal ríkja sem studdu innrásina var Ísland. Bandaríkjamenn kölluðu þessa aðgerð „Operation Iraqi Freedom".
Í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá innrásinni verða mótmælaaðgerðir um allan heim gegn hernámi Íraks og stríðsrekstrinum laugardaginn 15. mars og næstu daga. Í Reykjavík verður útifundur á Ingólfstorgi 15. mars og hefst hann klukkan eitt.
Það eru Samtök hernaðarandstæðinga sem hafa frumkvæði að þessum mótmælafundi. Samtökin hafa einnig afhent utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd tillögur um hvernig megi ljúka hernáminu og koma á friði. Þessar tillögur má nálgast á Friðarvefnum, fridur.is.
Enginn veit hversu mörg mannslíf þessi innrás og fimm ára ógnarástand í kjölfar hennar hefur kostað. Nýjustu tölur Iraq Body Count eru 82-90 þúsund. Þetta er lágmarkstala, hér er einungis taldir þeir sem vitað er með vissu að hafi verið beinlínis drepnir. Rétt tala er örugglega miklu hærri og þegar öll þau dauðföll eru talin, sem rekja má til ástandsins í landinu, má ætla að talan fari vel yfir hálfa milljón. Í breska læknatímaritinu Lancet hefur verið áætlað það þessi tala hafi verið komin yfir 650 þúsund um mitt ár 2006 og síðan hefur hún hækkað töluvert.
Samkvæmt Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna voru meira en fjórar milljónir Íraka á flótta í september 2007, þar af um helmingur utanlands. Í þessum hópi flóttamanna erlendis eru hlutfallslega margir menntamenn og velstætt fólk og óvíst hversu margir snúa nokkurn tíma til baka. Þannig að Írak er að missa sitt best menntaða fólk. Innviðir samfélagsins eru meira og minna í rúst. Auk þess er kostnaður hernámsveldanna, einkum Bandaríkjanna og Bretlands óheyrilegur og sá kostnaður kemur niður á alþýðu þessara landa. Og ungir hermenn þaðan koma heim í líkkistum.
Það er ekki að ófyrirsynju að íslenska ríkisstjórnin harmar þetta ástand.
Flestum er ljóst að hernámið er meginorsök þessa skelfilega ástands. Krafan um að endir verði bundin á það verður æ háværari. Þeirri kröfu verður haldið á lofti á Ingólfstorgi 15. mars. En það dugar hvorki að harma ástandið né krefjast þess að hernáminu ljúki nema menn reyni að átta sig á hvernig koma megi á friði, því það gerist ekki sjálfkrafa þótt hernáminu ljúki. Í Bandaríkjunum hafa áhrifamiklir stjórnmálamenn sett fram hugmyndir og áætlanir og má þar nefna þingmanninn Dennis Kucinich og George MacGovern fyrrum þingmann, sem á sínum tíma var í framboði til forseta gegn Richard Nixon.
Í janúar síðastliðnum setti friðarstofnunin Transnational Foundation (TFF) í Lundi í Svíþjóð fram tillögur um hvernig megi ljúka hernáminu og koma á friði í Írak. Stofnunin hefur að undanförnu verið að kynna þessar tillögur og meðal annarra hefur Hans von Sponeck, fyrrum fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Írak, komið að þeirr kynningu. Tillögur SHA eru í meginatriðum byggðar á tillögum TFF.