Fara í efni

RAUNHAGKERFI!

Ögmundur, ég vil þakka þér fyrir falleg orð um skólafélaga okkar Ingólf Margeirsson. Blessuð sé minning hans.
Og svo að pistlinum sem þú skrifaðir daginn eftir, 28. apríl, um „raunhagkerfið".
Ég, ásamt ótal mörgum öðrum, ætlaðist til að með „fyrstu hreinu vinstristjórninni á Íslandi" (sem er auðvitað bara bull) sem tók við eftir hrun fjármálakerfisins yrði til öðruvísi fjármálakerfi. Mér finnst ástæða til að rifja upp grein sem ég skrifaði í vefritið Smuguna fyrir tæpum tveimur árum undir titlinum „Vinstristjórnin stefnir að einkavæðingu bankanna": http://notendur.centrum.is/~einarol/einakavaedingbanka.html. Fjármálaráðherra hefur sagt í mín eyru að meiri hluti fjármálakerfisins sé í raun í félagslegri eigu (hvernig hann nákvæmlega orðaði það man ég ekki). En hversu mikils virði er það ef það er „raunhagkerfið" sem setur línuna? Ég veit alveg hvað er átt við með „raunhagkerfi": það er hið kapítalíska hagkerfi sem byggist á gróðahagsmunum einstaklinga. Hlutverk Bankasýslu ríkisins er m.a. „að undirbúa og vinna tillögur um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum". Auk þess mun henni ætlað að vera einhverskonar milliliður milli stjórnmálanna og fjármálafyrirtækjanna til að koma í veg fyrir of mikil afskipti stjórnmálamanna af fjármálastofnunum. Þar höfum við kannski ýmis víti að varast, en það var þó fyrst þegar bankarnir voru einkavæddir og losnuðu undan stjórnmálamönnunum, sem þrátt fyrir allt (helmingaskipti, klíkuskap, fyrirgreiðslu og allskyns spillingu) báru einhvern vott af samfélagslegri ábyrgð, sem ballið byrjaði. Ég á ekki von á að félagsleg sjónarmið eigi uppá pallborðið hjá núverandi bankaráði Landsbankans (http://www.landsbanki.is/umlandsbankann/skipulag/bankarad),  sem er væntanlega skipað án þess að sósíalistinn Steingrímur J. Sigfússon hafi haft neitt um það að segja.
Það er þá líka spurning hvort hann firri sig ekki ábyrgð með því að hafa þennan millilið sem Bankasýslan er. Þetta eru álitamál sem ég veit ekki til að hafi nokkurn tíma komið til umræðu í almennum röðum Vinstri grænna.
Einar Ólafsson