Fara í efni

ÉG HLAKKA LÍKA TIL

Alltaf dúkkar eitthvað upp sem kemur manni í gott skap. Morgunblaðið gerði lesendum sínum þann greiða síðastliðinn mánudag að vitna í yfirlýsingu frá verkalýðsfélaginu Eflingu þar sem segir að bar­átta Efl­ing­ar­fé­laga sé „gegn órétt­látu þjóðfé­lags­skipu­lagi. Hún hef­ur öðlast mátt til að verða raun­veru­legt hreyfiafl breyt­inga í ís­lensku sam­fé­lagi. Með bar­áttu síðustu mánaða hef­ur fé­lagið staðfest að umbreyt­ingu þess í bar­áttu­sam­tök verður ekki snúið við.”

Láti gott á vita.

Leiðarhöfundur er hins vegar ekki að gleðjast yfir þessari yfirlýsingu. Hann er þvert á móti að hneykslast á henni og það gerir hann ósvikið, alveg niður í iðrin. Sérstaklega þykir honum forkastanlegt að formaður Eflingar skuli hafa sagst hlakka til baráttunnar! Þar með minnir hann á það við hverja samtök láglaunafólks eru að kljást, nefnilega málsvara þeirra sem standa vörð um óbreytt þjóðskipuleg.

En ef slagurinn snýst um þjóðskipulagið hljótum við að spyrja hvort það sé þá ekki þetta þjóðskipulag sem þurfi að ræða? Það gengur ekki að hreyta ónotum í þau sem gagnrýna það án þess að gera grein fyrir því hvers vegna þjóðfélagsgerðin sé svo frábær að hún eigi að vera hafin yfir gagnrýni.
Og í því samhengi svari leiðarahöfundur og aðrir sama sinnis hvort í góðu lagi sé að bjóða verkafólki upp á kjör sem ekki geri því kleift að lifa lífinu á sambærilegan hátt og betur megandi þegnar samfélagsins; hvort það sé ásættanlegt að hluti samfélagsins ráði ekki við að búa í góðu húsnæði, leyft börnum sínum að stunda íþróttir eða sækja tónlistarnám og borða heilsusamlegan mat. Ég er ekki að taka til samnaburðar fólk sem hefur komist í verulega góðar álnir og því síður er ég að tala um stórgróðafólkið sem getur veitt sér og sínum allt sem hugurinn girnist og miklu meira. Það er vissulega umræða sem snýr að ranglátu þjóðskipulagi sem þarf að breyta. Ég er að tala um svokallað millitekjufók sem býr áhyggjulaust í húsnæði sínu, kaupir blöð, bækur og tímarit, fer í leikhús og ferðlög innan lands og utan og borðar góðan mat. Þetta er samanburðarhópurinn sem ég horfi til. Kannski er ég að tala um þann sem skrifaði umræddan leiðara í Morgunblaðið. Láglaunafólkið er einfaldlega að segja honum og skoðanasystkinum hans að það sætti sig ekki við að vera sett skör neðar að öllu leyti í tilverunni.

Og hvað þjóðfélagsskipanina almennt áhrærir þá tek ég undir með öllum þeim sem vilja burt með þjóðskipulag sem slær skjaldborg um þá sem sölsa undir sig sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar; þjóðskipulag sem lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar á kostnað samfélags og náttúru.

Og þegar við höfum rætt allt þetta skulum við tala um réttmæti baráttu – og þess vegna líka óréttmæta baráttu og þess vegna líka óréttmæt leiðaraskrif.

Sjálfum finnst mér að breyta þurfi þþjóðfélagsgerðinni í grundvallaratriðum – bylta henni. Hvort ég vilji þá sovét-Ísland? Kalli menn það sem þeir vilja, nema að opið lýðræðisþjóðfélag verður það að vera. Hitt er jafnljóst að spilabúlluna Ísland vil ég ekki.

Verkföll Eflingar eiga eftir að verða verklaýðshreyfingunni allri til góðs. Þau hafa hreyft við þjóðfélaginu, minnt á hvers launafólk er megnugt láti það ekki tala úr sér kjarkinn.

Baráttan gegn ranglætissamfélaginu þarf síðan að stigmagnast. Það mun gerast láti menn ekki úrtölur og andróður á sig fá; þá verður líka ástæða til að gleðjast. Ég hlakka til.

 

-------

Leiðari Morgunblaðsins mánudaginn 13. mars:

For­ysta Efl­ing­ar hef­ur lýst því yfir að til­gang­ur­inn sé orðinn að bylta þjóðskipu­lag­inu

Kjaraviðræðum og -deil­um á al­menna vinnu­markaðnum lauk að mestu í liðinni viku. Sjó­menn komu að vísu á óvart und­ir lok vik­unn­ar og felldu sinn samn­ing með nokkr­um mun. Óljóst er hverj­ar af­leiðing­ar þess verða en von­andi veld­ur aðeins eitt­hvert lítið atriði, eða jafn­vel mis­skiln­ing­ur, eins og skilja mátti á for­manni Sjó­manna­fé­lags Íslands að kynni að skýra niður­stöðuna.

Augu fleiri beind­ust þó eðli máls sam­kvæmt að niður­stöðunni í at­kvæðagreiðslu um miðlun­ar­til­lögu setts rík­is­sátta­semj­ara í deilu Efl­ing­ar og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Miðlun­ar­til­lag­an fékk mik­inn stuðning fé­lags­manna hvorra tveggja, 98% meðal at­vinnu­rek­enda og 85% meðal fé­lags­manna Efl­ing­ar. Í báðum til­fell­um er þetta hlut­fall þeirra sem greiddu at­kvæði.

Ekki er síður at­hygl­is­vert að ein­ung­is um 3% allra fé­lags­manna Efl­ing­ar sáu ástæðu til að greiða at­kvæði gegn til­lög­unni. Þetta er sér­stak­lega at­hygl­is­vert í ljósi þess að miðlun­ar­til­lag­an vék í engu sem máli skipt­ir frá samn­ingi Starfs­greina­sam­bands­ins, SGS, sem Efl­ing er aðili að en for­ysta Efl­ing­ar hafði hafnað þeim samn­ingi al­farið. Og ekki er nóg með að for­ysta Efl­ing­ar hafi hafnað samn­ingi SGS frá því í des­em­ber síðastliðnum, held­ur hafði hún allt á horn­um sér hans vegna og taldi úti­lokað fyr­ir Efl­ingu að samþykkja hann fyr­ir fé­lags­menn sína.

Svo hart gekk for­ysta Efl­ing­ar fram vegna þessa að fyrri miðlun­ar­til­lögu sama efn­is var hafnað með stór­yrðum og fé­lags­menn dregn­ir út í verk­föll þar sem úti­lokað væri annað en að gera „Efl­ing­ar­samn­ing fyr­ir Efl­ing­ar­fólk“. Efl­ing­ar­fólk, sem er líka SGS-fólk, reynd­ist al­ger­lega ósam­mála þessu og um leið og það fékk tæki­færi til þá samþykkti það SGS-samn­ing­inn með fyrr­greind­um meiri­hluta.

For­ysta Efl­ing­ar reyn­ir af veik­um mætti að túlka niður­stöðuna á ann­an veg, enda get­ur hún ekki viður­kennt hve mjög hún er úr tengsl­um við fé­lags­menn sína. En það breyt­ir ekki þeirri staðreynd að for­ysta Efl­ing­ar setti allt á ann­an end­ann í þjóðfé­lag­inu um margra vikna skeið og olli at­vinnu­líf­inu miklu tjóni og al­menn­ingi veru­leg­um óþæg­ind­um með verk­föll­um sem eng­an til­gang höfðu og skiluðu eng­um ár­angri. Það eina sem verk­föll­in gerðu var að setja fé­lags­menn Efl­ing­ar í þá hættu að fá ekki hækk­un aft­ur­virkt frá sama tíma og aðrir launa­menn, en sátta­semj­ari skar for­ystu Efl­ing­ar úr þeirri snöru.

En hvað vakti þá fyr­ir for­ystu Efl­ing­ar með til­gangs­laus­um og skaðleg­um aðgerðum sín­um? Þekkt er að formaður Efl­ing­ar hef­ur sagst „hlakka til“ verk­falla, sem er með und­ar­leg­ustu um­mæl­um sem frá slík­um for­ystu­manni hafa komið, en skýra lík­lega að hluta hvernig fór. Senni­lega kem­ur þó fleira til og jafn­vel enn al­var­legra. Í yf­ir­lýs­ingu frá Efl­ingu eft­ir að seinni miðlun­ar­til­lag­an var kom­in fram, seg­ir að bar­átta Efl­ing­ar­fé­laga sé „gegn órétt­látu þjóðfé­lags­skipu­lagi. Hún hef­ur öðlast mátt til að verða raun­veru­legt hreyfiafl breyt­inga í ís­lensku sam­fé­lagi. Með bar­áttu síðustu mánaða hef­ur fé­lagið staðfest að umbreyt­ingu þess í bar­áttu­sam­tök verður ekki snúið við.“

Tals­máti for­manns Efl­ing­ar úr forneskju sov­ét­tím­ans og stétta­bar­áttu eft­ir kenni­setn­ing­um Karls Marx sker sig mjög frá flest­um ef ekki öll­um sem starfa í verka­lýðshreyf­ing­unni. Það er helst inn­an Sósí­al­ista­flokks­ins sem finna má slíkt tal og verður það ekki viðkunn­an­legra af þeim sök­um. Aug­ljóst er að ætl­un for­manns Efl­ing­ar er að beita fé­lag­inu enn frek­ar í þeim til­gangi að vinna að breyttu þjóðfé­lags­skipu­lagi, sem sagt að þjóðfé­lags­skipu­lagi sósí­al­ism­ans. Og til að þetta megi verða á Efl­ing ekki að snú­ast um bætt kjör fé­lags­manna, enda sýndi það sig í ný­af­staðinni kjara­bar­áttu að sá var ekki til­gang­ur­inn. Efl­ing á aðeins að vera tæki í hönd­um for­manns­ins til að ná öðrum mark­miðum.

Þessi mis­notk­un á verka­lýðsfé­lag­inu er al­var­legt mál. Verka­lýðsfé­lög hafa ákveðinn til­gang og njóta ákveðinna rétt­inda af þeim sök­um, til að mynda að geta boðað til verk­falla. Séu verk­föll­in ekki boðuð í þeim til­gangi að bæta kjör fé­lags­manna held­ur ein­göngu til að bylta þjóðfé­lags­skipu­lag­inu, þá er það slík mis­notk­un að hvorki stjórn­völd né al­menn­ing­ur geta látið sér það í léttu rúmi liggja.