Fara í efni

ÉG BORGA, ÉG BORGA, ÉG BORGA BARA FYRIR MIG

Viðskiptaráðherrann fullvissaði íslenskan almenning um það í síðustu viku að eftirlitsskylda með Icesave reikningunum í Bretlandi hvíldi á breska fjármálaeftirlitinu og ekki því íslenska. Stefán Már Stefánsson, prófessor, leiðrétti hinn unga ráðherra kurteislega í fjölmiðlum. Fjölmiðlarnir hafa hins vegar látið ráðherrann vera þrátt fyrir þetta og þar með fest á honum gengið. Þetta var fyrir viku og mikið vatn runnið til sjávar síðan, og nú kemur Stefán Már Stefánsson aftur fram í Morgunblaðinu og nú í félagi við Lárus Blöndal, hæstaréttarlögmann. Boðskapur tvímenninga er skýr. Íslenskum stjórnvöldum ber ekki að greiða þá 500 til 600 milljarða brúttó sem viðskiptaráðherrann ungi sagði vera hámarksupphæðina sem ríkisstjórnin er tilbúin að leggja á íslenska skattgreiðendur. Ráðherrann ungi fékk eina spurningu um þetta og svo ekki meir. Hann viðurkenndi að röksemdafærsla lögmannanna væri líkast til rétt, en við yrðum að taka tillit til þess að ef við létum skattgreiðendur ekki greiða samkvæmt ítrustu kröfum Breta, þá væri hætta á að við einangruðumst í samfélagi þjóða. Hér kemur aftur fram afstaða viðskiptaráðherrans til réttarríkisins sem ber dómsgreind hans dapurlegt vitni. Ráðherra hefur sér það til afsökunar að hafa verið á grunnskólaaldri þegar EES samningurinn var í burðarliðnum, en honum til upplýsingar er Stefán Már Stefánsson sá fræðimaður sem hefur verið íslenskum stjórnvöldum hvað drýgstur við að túlka leyndardóma EES samningsins. Aftur létu íslenskir blaðamenn viðskiptaráðherrann unga sleppa með skrekkinn og spurðu hann ekki frekar út um lagalegan grundvöll þess að leggja drápsklyfjar á börn framtíðarinnar. Gengið á honum ennþá fast. Ég treysti því Ögmundur að þú takir þetta mál upp á Alþingi strax á morgun. Ráðherrann verður að svara gildum rökum tveggja lögmanna sem báðir eru sérfræðingar á sviðinu sem rætt er um. Það er ekki þolandi að setja fjöregg kynslóðanna í hendur þeirra sem halda að þeir geti staðið frammi fyrir alþjóð og sagt eitt í dag og annað á morgun. A good plan today is better than a perfect plan tomorrow, sögðu þeir í Wag The Dog, en það var bíómynd. Ég bið þig að athuga það sérstaklega Ögmundur að lögfræðileg greining Stefáns Más og félaga er í fullu samræmi við það sem fram kom í viðtalinu við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra, sem samfylkingarþinmenn vilja ómaklega kenna um fall bankanna. Kannski er það til að breiða yfir kraftmiklar yfirlýsingar aðaltalsmanns sjálfrar Samfylkingarinnar daginn áður. Að síðust þetta, ég sá á vef Landsbanka Íslands óundirritaða yfirlýsingu frá bankanum sem nú er í þroti. Yfirlýsing þessi hefur verið lesin upp gagnrýnislaust í öllum fjölmiðlum segja mér heimildarmenn heima. Var það skilanefndin sem sendi þetta út, eða hafa afsettir bankastjórar Landsbankans í þroti, ritstjórnarvaldið á vefsíðunni www.li.is. Ekki úr vegi að spyrja viðskiptaráðherrann unga um þetta og ýmislegt af því sem nú er að vaxa fram undan nýrri stjórn Nýja landsbankans. Vonandi halda fjölmiðlarnir genginu á viðskiptaráðherranum áfram föstu, ella er hætta á gengishruni.  
Ólína