Fara í efni

EFTIR HVERJU ER BEÐIÐ?

Læknar í skurðaðgerð
Læknar í skurðaðgerð

Halda menn að læknadeilan verði auðleystari ef samningaviðræður eru dregnar á langinn? Heldur ríkisstjórnin að samúð almennings með kröfum lækna muni dvína? Þannig er því ekki farið. Það eina sem mun fara dvínandi er áhugi lækna á að starfa á Íslandi.

Alvöru hætta á ferðum

Ég held að í alvöru gæti langvinnt verkfall leitt til landflótta lækna og annarra heilbrigðisstétta. Áður munu einhverjir læknar leita yfir í einkageirann. Þar bíða þeirra hins vegar fjárfestar sem vilja umbylta íslenska einkapraxískerfinu; smala öllum einyrkjunum saman í sjúkrahús rekin í gróðaskyni.

Drottningar og kóngar verða peð

Einhverjir læknar kunna að girnast þennan kost. En almennt sér læknastéttin í gegnum blekkingarnar. Menn vita að undir handarjaðri kauphallarbraskara yrði fátt um kónga og drottningar í eigin ríki!

Þjónarnir í Stjórnarráðinu

Verði almannakerfið áfram svelt mun flóttinn bresta á. Hugarórar? Nei, blákaldur veruleiki. Peningamennirnir bíða með vatn í munni, óþolinmóðir eftir að þeirra menn í Stjórnarráðinu skili sínu. Mér sýnist þeir ætla að rísa undir væntingum!    

Fyrsta verkfall langþreyttra lækna

Niðurskurður innan heilbrigðiskerfisins í kjölfar hruns (og reyndar einnig í aðdraganda þess) olli meira tjóni en margir ætluðu. Jafnt og þétt úreltist tækjabúnaður, starfsfólki fækkaði, álagið jókst. Og nú hefur soðið upp úr í fyrsta verkfalli lækna frá því þeir fengu vekfallsrétt árið 1986.

Lofar láglaunafólkið að þegja?

Vill láglaunafólk lofa því að biðja ekki um launahækkun ef samið er við lækna á ríflegum forsendum? Að sjálfsögðu ekki! En hvernig væri að biðja íslenska forstjóraveldið að halda í við sig - jafnvel skerða kjör sín. Krafan á að standa á þetta fólk ekki láglaunafólkið!

Við viljum samninga strax!

Ég er sannfærður um að almannarómur á Íslandi sé mjög á einn veg varðandi þessa deilu. Fólk vill að samið verði við lækna þannig að ásættanlegt verði fyrir stéttina að starfa innan almannaþjónustunnar og á Íslandi!