Fara í efni

EDINBORG HEIMSÓTT

Edinborg II
Edinborg II

Lokið er vikudvöl í Skotlandi, í Edinborg, heimaborg minni og síðar fjölskyldu minnar í nokkur ár á áttunda áratugnum. Ég kom fyrst til náms, haustið 1969 en Vala þremur árum síðar.
Í þessari heimsókn dvöldum við hjá vinafólki sem býr í miðborginni, eins miðsvæðis og hugsast getur, í Rutland Street, rétt við gamla Caledonian hótelið við vesturenda Princes street. Þetta er Allyson Pollock, Íslendingum að góðu kunn en til Íslands kom hún vorið 2008 að halda fyrirlestur á vegum BSRB um einkaframkvæmd innan heilbrigðisþjónustunnar. Allyson hefur veit forstöðu rannsóknarsetrum í London, Edinborg og Newcastle en þar stýrir hún nú fjögur hundruð manna stofnun innan Newcastle háskóla. Hún hefur skrifað mikið, greinar og bækur og er sá fræðimaður sem breskir fjölmiðlar oftast leita til þegar fjallað er um skipulagsbreytingar innan velferðarkerfisins í Bretlandi. Hún er læknir eins og sambýlismaður hennar, Hedley, sem starfar sem heimilslæknir suður af Edinborg.

Listirnar næra sálina

Til Edinborgar komum við á föstudaginn langa og var við hæfi að hlýða á Mattheusarpassíu Bachs um kvöldið. Þar með var öll ferðaþreyta rokin úr okkur og við tóku ný ævintýri - öll smá í sniðum - nema náttúrlega fyrir fólk sem komið var í eins konar pílagrímsför.
Á laugardeginum sáum við frábæra málverkasýningu í Nýlistasafninu í Edinborg á verkum Jean Eardley, skoskrar myndlistarkonu, sem þekkt er fyrir að mála börn í fátækrahverfum Glasgow um miðja síðustu öld og síðan einnig málverk sem sýndu hlutskipti fátæks fólks í fiskiþorpi á vesturströnd Skotlands. Sjálf bjó hún við lítil efni og endurspegla verk hennar samúð og samhygð með fólkinu. Jean Eardley nýtur mikillar viðurkenningar og margir telja hana í hópi bestu málara síðustu aldar. Okkur fannst það mat vera sannfærandi!
Grasagarðurinn í Edinborg -  The Royal Botanic Garden - var kannaður og komumst við að þeirri niðurstöðu að vorið kæmi fyrr inann garðsins en utan því okkur sýndist gróðurinn vera lengra kominn þar á veg en annars staðar í borginn. Þarna er vissulega skjól gott en síðan er það hitt að maður hefur á tilfinningunni að garðurinn sé svo vinsamlegur kviknandi lífi að það hreinlega vakni þar fyrr en annars staðar.

Borðað í boði söguritara Florence Nightingale

Þegar halla tók að kveldi var haldið út að Firth of Firth brúnni þar sem við áttum pantað borð á notalegum veitingastað - The Wee restaurant - nánst við brúarstólpa elstu brúarinnar, með gestjöfum okkar og aðkominni frænku frá Kanda, fyrrum þingmanni Græningja og afkastamiklum söguritara um líf og störf Florence Nightingale sem vann sér til frægðar að innleiða hjúkrun á evrópskan vígvöll. Það gerði hún af hugkvæmni og fórnfýsi í Krímstríðinu sem háð var á árunum 1854 til 1856. Kanadakonan heitir Lynn McDonald, stórskemmtileg og fróð kona, ættuð frá Skotlandi eins og nafnið ber með sér og tók hún ekki annað í mál en að gerast gestgjafi hópsins.
Svo rann upp páskadagur. Þá hafði okkur verið boðið að heimsækja stórfjölskyldu gestgjafa okkar, skemmtilega og fjölhæfa fjölskyldu þar sem hádegisverðarboðið teygði sig inn í kvöldið með söng og hljóðfæraslætti. Gestgjafar okkar á þessum páskadegi búa í úthverfi Perth en fjölskyldumeðlimi dreif hins vegar víðar að.

Hugulsamir höfðingjar

Gestgjafar okkar voru sannkallaður höfðingjar og hugulsamir í ofanálag þannig að við vorum sem blóm í eggi hverja einustu stund. Kosturinn við að búa inni á heimili er að þá kemst maður nær ýmsum siðum og venjum sem maður ella færi á mis við. Þar fer að sjálfsögðu allt eftir dyntum hvers og eins. Gestgjafar okkar fóru um helgar á markað - og var laugardagur fyrir páska þar engin undantekning - á Castle  Terrace og í Grassmarket að sækja „brauðið sitt" og „skonsurnar, marmelaðið og sultuna sína". Allt bragðst þetta að sjálfsögðu betur þegar öllum seremóníum er fylgt.
Að einu leyti skildi hins vegar með okkur og eftirsókninni í það sem fólki fannst vera eftirsóknarverðast. Þannig þótti það harla óvenjuleg ósk að vilja nánst framar öllu örðu, heimsækja Wester Hailes hverfið í útjaðri Edinborgar. Skýringin var hins vegar sú að þar höfðum við búið í tvö ár undir lok dvalar okkar í Edinborg á námsárunum. Hverfið er risastórt og þykkir ekki það fínasta í Edinborg - á tímabili var það skilgreint sem hálfgildings slum.
En viti menn, hverfið hafði breytt um svip, risablokkin sem við höfðum búið í var horfin - hafði verið rifin til grunna þótt hún hefði verið ný þegar við fluttum í hana um miðjan áttunda áratuginn - blokk sem Edinborgarháskóli hafði tekið á leigu af borginni til að hýsa fjölskyldur námsmanna. Því miður hafði verið illa staðið að smíði þessara húsa og allur aðbúnaður ekki sem skyldi. Þess vegna urðu „lífdagar" margra húsanna ekki langir.
Svo breytt var hverfið nú orðið að við þekktum okkur varla. Smám saman rann þó gamla myndin upp fyrir hugskotssjónum. Að sjálfsögðu litum við einnig við á öðrum stöðum sem við höfðum búið, Montpelier Park í Bruntsfield hverfinu, Belhaven Terrace í Morningside og stúudentagörðunum í Pollock halls en þar hafði ég búið í tvö ár.
Um kvöldið snæddum við ásamt gestgjöfum okkar á ágætum indverskum veitingastað í High Street sem ber ekki minna nafn en Mother India!

Hin gömlu kynni gleymast ei

Á þriðjudeginum komu eftir okkur góður vinir okkar Thomas og Moira en Thomas Harrison var sonur vinafólks foreldra minna sem ég hafði heimsótt í minni fyrstu utanlandsför árið 1961. Þessi góðu fjölskyldukynni gerði ég að umtalsefni þegar ég ávarpaði Burns supper samkomu Edinborgarfélagsins fyrr á árinu. Þennan þriðjudag, þriðja í páskum, áttum við Thomas nú eftir að rifja upp gamla og góða tíma.
Thomas og Moira höfðu skipulagt daginn vel og vorum við um margt fróðari í dagslok en í upphafi dags. Fyrst var haldið til útivistarsvæðis skammt frá Falkirk - Helix - þar sem komið hafði verið upp risavöknum listaverkum the Kelpies - tveimur hestshausum úr málmi sem gnæfa 30 metra upp í loftið.
Kelpies eru þóðsagnaverur sem tóku á sig ýmis form í skoskum vötnum og er Loch Ness skrímslið kunnast þeirra. Þessir Kelpies voru hins vegar engin skímsli og síður en svo sögulaus því þau áttu að minna á dráttarklárana sem drógu ferjurnar eftir ám og einnig og ekki síður, manngerðum skurðum, þar á meðal á milli Edinborgar og Glasgow og annarra áningastaða á þessi svæði.
Skurðirnir og þar með dráttarklárarnir hafa löngu lokið upphaflegu hlutverki sinu. Skurðirnir eru hins vegar aftur að komast í notkun, að þessu sinni í nýjum túrisma. Búið að hreinsa þetta gamla námu- og iðnaðarland og gera það eftirsóknarvert útivistarfólki og áhugafólki um siglingar á skipaskurðum.
Hápunktinn fyrir áhugasama er að finna, einnig á þessu svæði við Falkirk. Þar er að finna hjólið svokallaða sem er nýstárlegur skipastigi þar sem bátar eru teknir í eins konar risavaxið hjól sem svo haganlega er byggt og þyngdarlögmálið svo snilldarlega nýtt að það tekur sáralitla orku að knýja það áfram. Þegar bátarnir og ferjurnar eru komnar inn í eins konar opið hylki í hjólinu, er því snúið þannig fyrr en varir eru bátar og ferjur komnar upp á skipaskurðinn hátt fyrir ofan eða neðan eftir atvikum. Þetta var rækilega útskýrt fyrir okkur. Vala kona mín skildi lögmálin en ég kinkaði skilningsvana kolli. Við fórum upp í hjólinu og síðan niður aftur og höfðum gaman af.
Falkirk hjólið er í grennd við rústir Antonínusar varnarveggjarins sem Rómverjar byggðu á annarri öld á milli Clyde fjarðar og Firth fjarðar. Hadriníusarveggurinn sem stóð lengur, er hins vegar sunnar, rétt sunnan landamæra Skotlands og Englands. Antonínuasarvegginn byggðu Rómverjar til að verjast Piktum, þáverandi íbúum Skotlands, sem ekkert vildu með það hafa að Rómverjar ráðskuðust með þá í þeirra heimahögum. Við komum þar að vegnum þar sem sjá má menjar um virki Rómverja, Rough Castle.
Daginn með Thomasi og Moiru enduðum við kvöldverði á frægri matarkrá í Ratho, Bridge Inn, en hún er við skipaskurð sem nú nær að nýju alla leið inn í Edinborg, reyndar að Ashley Terrace þar sem Harrison fjölskyldan hafði búið þegar ég heimsótti hana þrettán ára gamall.

Stewart og John 42 árum síðar!

Miðvikudagurinn var göngudagur framan af - að þessu sinni um stræti Edinbargar, farið var á fornar slóðir og nýbyggingar jafnframt skoðaðar. Klukkan 16 var svo komið að raunverulegu erindi þessarar heimsóknar, að hitta gamla skólafélaga mína sem ég hafði ekki séð síðan 1974 en fyrir all nokkru síðan ákváðum við þrir sagnfræðinemar, Stewart Tavner og John Kerr ásamt mér, að hittast á háskólalóðinni ásamt mökum, ganga um og rifja upp gamla tíma og síðan snæða saman um kvöldið. Allt gekk eftir og þegar við settumst að snæðingi í þekktum klúbbi í Princes street, The New Club, höfðu tveir vinir félaga minna bæst í hópinn ásamt maka annars. Var nú borðað og drukkið fram eftir kvöldi and everybody had a good time, eins og þar segir.

Ausið úr upplýsinga- og reynslubrunnum

Ekki var fimmtudagurinn af lakari endanum því þá komu til okkar hjónin Jim og Margareth Cuthbert, en þau höfðum við hitt stuttlega á laugardeginum og þá verið bundið fastmælum að við héldum áfram bráðskemmtilegum samræðum sem við höfðum átt þá. Jim hafði verið nánast æðst ráðandi á fjármálasviði skoska þingsins áður en hann fór á eftirlaun og var hafsjór upplýsinga. Ekki átti það síður við um Margaret sem í seinni tíð  - á síðustu árum ásamt manni sínum einnig - hefur stundað sjálfstæðar ransóknir á sviði efnahags- og samfélagsmála.
Einkaframkvæmd var um skeið nánast sérsvið þeirra og hlakka ég til lesa skýrslur þeirra um það efni en ég hef þó grun um að ég hafi lesið nokkrar þeirra þegar, því þau unnu talsvert starf fyrir verkalýðsfélög á borð við Unison en starfi þeirra fylgdist ég vel með þegar þau sinntu þessum málum best.
Með þeim Jim og Margaret fórum við til Linlithgow, skoðuðum fornar byggingar, þar á meðal höllina sem hin sögufrægu Skotadrottning, Mary Queen of Scots, fæddist árið 1542.
Neðan hallarinnar er fallegt vatn sem í árdaga var fljót sem skipt hafði um farveg einhvern tímann löngu áður en landið byggðist mannfólki. Þarna er mikið fuglalíf og var greinilegt á rauðbrystingunum sem sungu sem mest þeir máttu og létu mannferðir lítt trufla sig við listsköpun sína, að þeir undu sínum hag vel. Það gerðum við líka og áttum við skemmtilegt samtal við gestgjafa okkar og leiðsögumenn, um Skotland fyrr og nú og heimspólitíkina einnig.
Þau töldu að Brexit hefði endað í hinu mesta klúðri og vildu að þjóðirnar við norðanvert Atlantshafið íhuguðu aukið samstarf. Sameiginlegur gjaldmiðill gæti orðið nauðsynlegur en þá yrðu menn líka að vera tilbúnir að fara í enn nánara samstarf þegar fram liðu stundir. Ég skildi það svo að því væru þau hlynnt og ætti það við um marga Skota að þeir hugsuðu í þessa veru.

Söknuður og tilhlökkun

Um kvöldið buðum við gestjöfum okkar í mat uppí Newington, skammt frá stúdentagarðinum í Pollock Halls sem við þekktum svo ágætlega.
Og síðan rann föstudagurinn upp og tími til að kveðja og það gerðum við með nokkrum söknuði en að sjálfsögðu einnig tilhlökkun að hitta fólk sem við viljum gjarnan vera sem mest nærri!