Fara í efni

DAPURLEG DELLA

Leifstöðin
Leifstöðin

Í tengslum við kjarasamninga í byrjun tíunda áratugarins var gert stórátak í að kveða niður verðbólgu og viti menn, hvetja fólk til að KAUPA ÍSLENSKT. Menn vildu styrkja íslenska atvinnustarfsemi og þar með atvinnu í landinu. Því öflugri sem íslensk framleiðslufyrirtæki yrðu þeim mun meir vænkaðist okkar sameiginlegi hagur. Þetta var kenningin.

Og hana var hægt að ræða kinnroðalaust árið 1990 án þess að hljóta óbótaskammir fyrir þjóðrembu og heimóttarskap. Það var áður en Íslendingar tóku meirapróf í frjálshyggju. Áður en kapítlaisminn hætti að snúast um framleiðslu og þjónustu og störf og fór þess í stað að snúast um fjárfestingatækni og að stroka út úr sálalífinu allt sem heitir íslenskt, einblína bara á hvað kemur prívatbuddunni best þá sekúnduna.

Nú þykir fínast að allt sé helst útlenskt og menn verða miður sín ef hallað er orði á erlendar risakeðjur sem vilja ráða löggjöf hér á landi eins og frægt varð að endemum í sumar þegar bandaríska risakeðjan Costco vildi segja til um hvert fyrirkomulag skyldi vera á Íslandi í áfengissölu og innflutningi kjötmetis. Þeir voru ófáir sem sáu sig knúna til að taka upp hanskann fyrir stórfyrirtækið þegar menn leyfðu sé að gagnrýna þetta ráðslag.

Í byrjun tíunda áratugarins litu menn almennt ennþá svo á að máli skipti hvert arður af atvinnustarfsemi rennur og að það gæti líka skipt máli að rætur eigenda fyrirtækja liggi inn í okkar samfélag. Þetta viðhorf hefur breyst nokkuð þótt sjálfur sé ég við sama heygarðshornið að þessu leyti.

Þannig hef ég glaðst yfir velgengni fyrirtækisns Kaffitárs sem ég veit ekki betur en hafi staðið sig einkar veI í sínum rekstri - líka í Leifsstöð.

Nú er okkur sagt að niðurstöður forvals á verslunar- og veitingarými á Keflavíkurflugvelli verði kynntar í næstu viku g látið hefur verið að því liggja að svo kunni að fara að Kaffitári verði úthýst til að rýma fyrir erlendum stórrisa. Keflavíkurflugvöllur starfar á alþjóðlegum markaði segja rekendur Leifsstöðvar og þess vegna hafi forvalið þurft að vera alþjóðlegt. Þá hefur einnig komið fram að breskt ráðgjafafyrirtæki, Concession Planning International hafi verið ráðið til að aðstoða við valið. Skyldi sú ráðgjöf hafa verið boðin út?

Í tilkynninguni sem Isavia sendi frá sér í gær segir að í kjölfar mikillar fjölgunar farþega í Keflavík sé þörf á meiri þjónustu en áður og að við undibúning forvalsins og gerð regla fyrir það hafi meginmarkmiðið verið að fyllsta jafnræðis yrði gætt á milli þátttakenda. Hví mátti ekki reyna að búa svo um hnútana að íslenskt fyrirtæki hreppti verkefnið? Ég held að það hefði gagnast okkur betur.

Það er kominn tími til að losa um markaðsskrúfuna í sálarlífi þjóðarinnar.  Spyrja þarf hvort ávinningurinn af því að styðja íslenskt framtak kunni ekki að vega þyngra en hugsanlegur ávinningur  af því að fá erlenda risakeðju til að borga ögn meira fyrir leigu á fermetrunum en Kaffitár gerir? Eða gengur ekki útboðið út á það? Telur Concession Planning International ef til vill að finna megi fyrirtæki sem helli betur upp á en Kaffitár gerir? Við bíðum spennt eftir niðurstöðunni úr þessu dapurlega ferli sem ég hygg að sé í óþökk fleiri en forsvarmanna Kaffitárs.