Fara í efni

DAGUR VATNSINS - HVER Á VATNIÐ?

Birtist í Morgunblaðinu 22.03.07.
Áráði 2005 sameinuðust 14 félagasamtök og stofnanir um að hvetja stjórnvöld til að huga að sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Gott tilefni til að minna á þetta er nú því dagur Sameinuðu þjóðanna helgaður vatninu er einmitt í dag, 22. mars. Í yfirlýsingu samtakanna 14 segir: "Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi." Samtökin sem standa að þessari yfirlýsingu eru öll helstu verkalýðssamtök landsins, Þjóðkirkjan, Öryrkjabandalagið, almannasamtök á borð við MFÍK og fleiri.

Vatn ekki eins og hver önnur verslunarvara

 

Á heimsvísu og hér innanlands hefur verið tekist á um vatn og hvernig með það skuli fara. Í yfirlýsingu samtakanna 14 eru tekin af öll tvímæli um afstöðu þeirra:
"Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru. Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt."

Vatnið á dagskrá hjá BSRB

 

Haustið 2005 efndi BSRB til ráðstefnu um vatn og héldu fjölmargir vísindamenn og talsmenn almannasamtaka afar fróðleg erindi sem vörpuðu ljósi á mikilvægi vatnsins. BSRB hefur látið sig málefni vatnsveitna varða og mótmælt einkavæðingu þeirra, ekki einvörðungu vegna þess að starfsmenn eru margir félagar í BSRB heldur skiptir það okkur öll máli sem neytendur og skattgreiðendur hvernig vatnsveitur eru skipulagðar. Hefur BSRB boðið fræðimönnum á þessu sviði hingað til lands til þess að greina frá reynslu annarra þjóða af mismunandi rekstrarformum. Hér má vísa í rannsóknir breska fræðimannsins David Halls frá háskólanum í Greenwich sem hingað kom í nóvember 2005 og fjallaði um efnið. Á heimasíðu BSRB www.bsrb.is  er að finna yfirlýsingu samtakanna 14, erindi David Halls, áskorun BSRB til stjórnarskrárnefndar auk fjölda greina og skýrslna um vatn.

Rétturinn til vatns verði stjórnarskrárbundinn

 

Íslendingar eiga því að venjast að hafa aðgang að besta vatni sem finna má á jarðríki. Þess vegna reynist okkur erfitt að setja okkur í spor þeirra sem ekki hafa aðgang að ómenguðu vatni nema í mjög takmörkuðum mæli. Ef svo hins vegar færi að vatn og vatnsveitur yrðu einkavæddar og aðgangur að vatninu seldur dýrum dómum yrði annað upp á teningnum. Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins ályktuðu samtökin 14 "að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns."
Á þetta er ástæða til minna í tilefni dagsins.