Fara í efni

Dæmi hver fyrir sig

Birtist í Mbl
Í skjóli kvótakerfis í sjávarútvegi hefur safnast mikill auður á hendur fárra aðila. Þessum auði fylgir vald. Og valdinu fylgir ábyrgð. Á sjómannadaginn reis útgerðarauðvaldið á Akureyri ekki undir þessari ábyrgð. Forstjórar stórfyrirtækja í sjávarútvegi hótuðu samtökum sjómanna fjársvelti við hátíðarhöldin ef þau afturkölluðu ekki boð sitt til Árna Steinars Jóhannssonar alþingismanns, talsmanns Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs í sjávarútvegsmálum á þingi, um að ávarpa sjómenn á hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Sjómannadagsráð á Akureyri varð við þessari kröfu og bauð Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra í ræðustól. Þar hvatti hún til þess að menn hættu að karpa um kvótakerfið eins og hún mun hafa komist að orði að sögn fjölmiðla.

Á undanförnum dögum hefur þjóðin fylgst með forstjórum Samherja og ÚA lýsa því yfir að boðskapur Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs sé þeim ekki þóknanlegur og stríði gegn hagsmunum sjómanna. Sú staðhæfing stenst að sjálfsögðu ekki.

Hitt er deginum ljósara að sú stefna Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs að nema kvótagerfið úr gildi í áföngum er stærstu kvótahöfunum ekki að skapi. Enda þótt þeir hljóti að viðurkenna að sú aðferð sem VG leggur til er í senn raunsæ og sanngjörn, þ.e.a.s. að fyrna kerfið á 20 árum, þar sem þriðjungur fyrndra aflaheimilda færi á landsmarkað, þriðjungur til byggðarlaga og þriðjungur væri boðinn þeim handhöfum veiðiréttar sem fyrnt er frá til endurleigu. Þetta er að sjálfsögðu eitur í beinum stórútgerðarinnar sem lítur á það sem beina ógnun við hagsmuni sína að hróflað verði við kvótakerfinu.

Ekki síður eru þeir ósáttir við að rök okkar fyrir breytingum á kvótakerfinu nái eyrum almennings. Í greinargerð sem VG hefur sent frá sér er sérstaklega vikið að fjórum brotalömum núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis:

1.  Í mörgum tilvikum er ástand fiskistofna nú svipað eða jafnvel verra en fyrir daga kvótakerfisins. Auk þess hamlar kvótakerfið mjög allri nýliðun og kynslóðaskiptum í atvinnugreininni.

2.  Rétturinn til viðskipta með kvóta, bæði möguleikinn til að leigja öðrum veiðiheimildir í stað þess að hafa þær til eigin nota og varanleg sala þeirra, hefur haft í för með sér að ákveðnir aðilar hafa átt þess kost að hagnast gríðarlega. Slíkur gróði, ekki síst þegar hinir sömu hverfa út úr sjávarútveginum með milljónatugi, hundruð milljóna eða milljarða, sem rekja má til andvirðis veiðiheimilda, samrýmist vægast sagt illa ákvæðum fiskveiðistjórnunarlaganna um sameign þjóðarinnar.

3.  Framsal veiðiheimilda og sú staðreynd að byggðarlögunum er í núverandi kerfi ekki tryggður neinn réttur hefur sums staðar leitt til þess að kvóti hefur horfið á brott og miklir staðbundnir erfiðleikar skapast í atvinnumálum. Hröð samþjöppun veiðiheimilda, sameining fyrirtækja og stækkun hefur víða haft í för með sér sársaukafullar breytingar af þessum toga. Einkum eru það hinar minni sjávarbyggðir sem hafa byggt mikið á bátaútgerð og ekki njóta þess að hafa höfuðstöðvar einhvers af stóru fyrirtækjunum í byggðarlaginu, sem eiga undir högg að sækja við núverandi fyrirkomulag. Fiskvinnslufyrirtæki sem engan aðgang hafa að veiðiheimildum, fiskverkafólk og sjómenn og aðrir íbúar sjávarbyggðanna eru þolendur þessa ástands og þess öryggisleysis sem það hefur skapað. Framsal veiðiheimilda og leigubrask hefur leitt til stórfelldra árekstra í samskiptum sjómanna og útvegsmanna, kostað verkföll og átök sem ítrekað hafa leitt til lagasetningar er svipt hefur sjómenn samningsrétti.

4.  Mikil umræða hefur verið um brottkast afla og það eðli kvótakerfisins umfram aðrar fiskveiðistjórnunaraðferðir að ýta undir að fiski sé hent.

Það er meðal annars á þessum atriðum sem Vinstri hreyfingin - grænt framboð byggir þá stefnu sína að taka beri upp annað skipulag við stjórnun fiskveiða. Við stefnumótun höfum við haft eftirfarandi forsendur til hliðsjónar:

 

*            Auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.

*            Sjávarútvegurinn aðlagi sig markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni við náttúruna og lífríkið.

*            Sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innanlands.

*            Sjávarútvegsstefnan stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu.

*            Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standa sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti snertir.

Til þess að ná þessum markmiðum höfum við sett fram ítarlegar og vel útfærðar tillögur sem við höfum gert grein fyrir í ræðu og riti. Dæmi nú hver fyrir sig. Stríðir þessi málflutningur gegn hagsmunum sjómanna og fiskvinnslufólks? Svo sannarlega ekki. Stefna VG tryggir hagsmuni sjómanna og fiskvinnslufólks. Það eru hins vegar braskararnir og þeir sem eru að sölsa undir sig sameign þjóðarinnar sem kveinka sér og leggjast nú svo lágt að notfæra sér völd sín - auðvaldið - til að reyna að þagga niður í gagnrýnisröddum. Það mun hins vegar aldrei verða.