Fara í efni

CESR: Við getum ekki leyft okkur þann munað að örvænta

Fyrirsögnina hef ég eftir Roger Normand, framkvæmdastjóra Rannsóknarstofu Efnahagslegra og Félagslegra Réttinda (Center for Economic and Social  Rights, CESR). Vefslóð þessarar stofnunar er www.cesr.org

Þetta virðist mér vera hin merkasta stofnun en það var einmitt á vegum hennar sem Arundhati Roy kom til New York til að flytja fyrirlestur síðastliðið vor, eins og fram kemur á síðunni í dag. Roger Normand flutti inngangserindi að fyrirlestri hins indverska gests og er það að finna á sömu vefslóð og fyrirlestur hennar, sjá slóð í lok þessa pistils.

Fóru til Íraks í upplýsingaleit

Roger Normand segir frá því að þremur vikum eftir fyrra Flóastríðið, 1991, héldu nokkrir nýútskrifaðir háskólastúdentar til Íraks til að afla upplýsinga um eyðileggingu af völdum stríðsins. "Við vorum ung og reið yfir því hve fjölmiðlar voru gagnrýnislausir og þar af leiðandi einnig bandaríska þjóðin. Okkar líkaði illa að láta ljúga að okkur.

Við ferðuðumst um Írak og sáum eyðilegginguna, allt var nánast í rúst: raforkuver, vatnsból, samgöngukerfi, birgðastöðvar fyrir matvæli, sjúkrahús og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ræddi um mannúðaraðstoð á sama tíma og ráðið samþykkti að efnahagsþvinganir yrðu lagðar á þjóðina. Fólkið hrundi niður, einkum voru það börn hinna fátæku sem urðu fórnarlömb þessa hildarleiks."

Við erum ekki góðgerðarstofnun – við berjumst fyrir réttlæti

Tveimur árum eftir förina til Íraks var CESR sett á fót. "Við viljum láta þá svara til saka sem skapa öðrum örbirgð og viðhalda henni. Við byggjum starf okkar á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi á sviði heilsu, menntunar, húsnæðis, vinnu og félagslegs öryggis, en allt þetta auk tjáningarfrelsis er grundvöllur mannlegrar reisnar." Roger Normand segir að starfið byggist á því "að gefa félagslegu réttlæti inntak að nýju, að gera mannréttindi að nýju að veruleika."

Síðan gerir hann stuttlega grein fyrir starfi samtakanna í Ecuador, á hernumdu svæðunum í Palestínu, Nígeríu, Thailandi og að ógleymdum Bandaríkjunum. Hann segir hópinn sem stendur að CESR berjast fyrir réttlæti en líti ekki á sig sem góðgerðarstofnun.

Lítill hópur getur fengið miklu áorkað

Hann segir að Margaret Mead hafi einhvern tímann sagt að menn skyldu aldrei vanmeta möguleika lítils hóps til að breyta heiminum. Við erum að verða vitni að slíku nú í Bandaríkjunum. Þetta sé lítill hópur öfgamanna í kringum Bush Bandaríkjaforseta: "Þeir valda ómældri eyðileggingu en þeir hafa líka vakið upp freslsishreyfingu og það er undir okkur öllum komið, hverju og einu hvernig henni reiðir af: Við getum ekki leyft okkur þann munað að örvænta ( :We cannot afford the luxury of despair). Við berum ábyrgð gagnvart börnum okkar, hverju öðru, og ekki síst, gagnvart jörðinni sjálfri sem bar ekki ávöxt til þess eins að verða eyðileggingu að bráð."

sjá nánar  http://www.cesr.org/roy/royspeech.htm