Fara í efni

BURT MEÐ BANKALEYND


Hver á(tti) peningana sem fjármálamenn bröskuðu með (og braska enn?) með í bönkum og fjármálastofnunum? Við. Almenningur. Nú er komið á daginn hve ótrúlega ósvífnir þeir voru í viðskiptum sín í milli í harðsvíraðri samtryggingu og krossfjárfestingum; hvernig þeir skákuðu milljarðatugum til og frá á taflborði eiginhagsmuna; og hvernig þeir síðan undir það síðasta settu fjármuni í ríkisskuldabréf þegar þeim þótti hætta á að peningarnir væru ekki nægilega tryggir í bönkunum sem þeim - "kjölfestufjárfestunum" - höfðu verið fengnir í hendur af þáverandi stjórnvöldum. Hvers vegna ríkisskuldabréfum? Jú, ríkisskuldabréfin eru þar tryggilegast á ábyrgð okkar, almennings!
Um hvað snýst slagurinn um bankaleynd núna? Hann snýst um rétt okkar - þessa sama almennings - til að sjá hvernig farið var með okkur. Þarf að segja meira? Þetta er siðleysi af hæstu gráðu. Ekki er nóg með að búið sé að setja bankana á hausinn heldur þjóðfélagið allt - og samt leyfa fjármálamenn sér að tala um það sem mannréttindi að sveipa  gjörðir sínar leyndarhjúp!
Niðurstaða: Aflétta verður bankaleynd af ÖLLUM fjármálastofnunum. Ekki bara Kaupþingi, heldur líka Landsbankanum og sparisjóðunum...

Rætt um bankaleynd á Alþingi 2002

Vitnað hefur verið í bankalög frá árinu 2002. Hér er glefsa úr einni af ræðum mínum frá þeim tíma þar sem vikið er að bankaleyndinni en áður hafði ég gert sparisjóði að umtalsefni og hvernig stofnfjáreigendur bjuggu í haginn til að geta braskað með stofnfjárhluti sína. En í þessum kafla er það semsagt bankaleyndin og nýuppgötvaðir möguleikar til að skjóta fé úr landi - skattlausu - í gegnum dótturfyrirtæki bankanna:

Það er ýmislegt, eins og gerist, í þessum umsögnum umhugsunarvert og sumt jafnvel svolítið skondið. Þannig rita þrír bankastjórar stærstu bankanna, Árni Tómasson, Valur Valsson og Halldór J. Kristjánsson, undir greinargerð þar sem þeir dásama þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum fjármálamarkaði á síðustu árum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Íslenskur fjármálamarkaður hefur tekið stórstígum framförum á liðnum áratug og er það ekki síst að þakka því aukna frjálsræði sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir í löggjöf á þeim markaði.``

Ég held að það skrifi ekki allir upp á þessar lýsingar, allra síst í seinni tíð þar sem ...(verið)...er að braska með þessar eignir Íslendinga, ríkisbankana. Við þekkjum öll þá hörmungarsögu. Það er nánast verið að braska, segi ég, og gera það í skilningnum ,,pólitískt brask``. Menn færa pólitískum vildarvinum sínum Búnaðarbankann þessa dagana nánast á silfurfati. Hreinn arður eftir skatta af Búnaðarbankanum er 2.000 millj., tveir milljarðar, á þessu ári. Þeir sem fá hann í sinn hlut þurfa ekki að borga neitt út í hönd og munu væntanlega slá lán hjá sjálfum sér og skrifa upp á það með veði í eigninni sem þeir eru að festa kaup á. Þetta er það sem er að gerast. Þetta eru hinar stórstígu framfarir og svo tala menn með þessum hætti.

Hins vegar kemur manni ekkert á óvart úr þessum herbúðum. Ég hef áður gert að umræðuefni yfirlýsingar sem hafa komið frá bankastjórum ríkisbankanna og ég hef stundum furðað mig á því andvaraleysi og ábyrgðarleysi sem ríkir í viðskrn. gagnvart ríkisbönkunum. Mig rak t.d. í rogastans þegar bankastjóri Landsbankans hreykti sér í byrjun árs 2000 af útrás bankans á skattaparadísareyjar eins og Guernsey á Ermarsundi. Bankastjórinn skýrði hvers vegna Landsbankinn væri að fara út á Ermarsundið á þessi skattleysissvæði og sagði, með leyfi forseta:

,,Bankaleyndin er mikilvæg af mörgum ástæðum. Hún er til dæmis mikilvæg þeim sem vilja halda fjárfestingum sínum og öðrum ákvörðunum fyrir sjálfa sig. Við þekkjum það á Íslandi að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum.

Sumir spyrja sig hvort aflandsþjónusta sé á einhvern hátt tengd því sem ekki þolir dagsljósið. Það er fjarri því, þannig starfsemi mundi Landsbankinn aldrei stunda og yfirvöld í Guernsey eru mjög ströng hvað þetta varðar. ... Bankaleyndin`` --- segir hann síðan --- ,,nær því ekki til ólögmætra hluta.``

En það er altalað í fjármálaheiminum og hinum pólitíska heimi að þessar bankaparadísir svokölluðu grafi undan velferðarsamfélögum okkar vegna þess að í gegnum bankakerfin á þessum stöðum komist menn undan því að greiða skatta sína og skyldur til samfélagsins. Þetta eru bara staðreyndir. Ýmsir af umsvifamestu aðilunum á fjármálamarkaði á Íslandi eru með heimilisfesti á Gíbraltar, t.d. einstaklingur sem hefur verið að fjárfesta hér í elliheimilum undir handarjaðri ríkisstjórnarinnar og segir að það sé hægt að græða vel á slíkri starfsemi. Hverju skyldi það sæta?

Annar stór fjármálamaður flutti til London. Hann sagðist vilja mennta börnin sín í skóla þar.....Hvers vegna vildi þessi maður fara til London? Jú, skólarnir væru betri þar. Hann borgaði það sem einhvern tíma var kallað vinnukonuútsvar á Íslandi. Menn eru sem sagt orðnir svo blindir að það sætir furðu að helstu forsvarsmenn í fjármálalífi þjóðarinnar skuli leyfa sér í álitsgerð til Alþingis að mæra þetta ástand og telja að þau skref sem stigin hafa verið undir handarjaðri ríkisstjórnarinnar á liðnum árum hafi verið til framfara..."