Fara í efni

BUNDINN ER SÁ ER BARNSINS GÆTIR

DV -
DV -

Birtist í DV 30.04.12.
„Takmarkið er að ekkert barn verði fyrir ofbeldi og að ekkert barn vaxi úr grasi með þeim hætti að það beiti aðra ofbeldi. Ég hef trú á því að það sé hægt. Það gerist ekki á einni nóttu, heldur með því að halda alltaf áfram og gefast aldrei upp. Því bundinn er sá er barnsins gætir." Þannig mæltist Höllu Gunnarsdóttur í ávarpsorðum þegar þrír ráðherrar, mennta- og menningarmálaráherra og velferðarráðherra, auk mín sem innanríkisráðherra, undirrituðu samning til þriggja ára um átak til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Verkefnisstjórn ráðuneytanna þriggja hefur verið skipuð til að ýta átakinu úr vör og er Halla fulltrúi innanríkisráðuneytis og jafnframt formaður stjórnarinnar.

Vitundarvakning um ofbeldi

Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna yfirstandandi fullgildingar á sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu gegn börnum. Samningurinn felur í sér að efnt verði til vitundarvakningar um málefnið og fræðslu beint að almenningi, réttarkerfinu, fólki sem starfar með börnum og síðast en ekki síst, að börnunum sjálfum. Með fyrirvara um samþykki Alþingis um fjárveitingar gildir hann til þriggja ára. Á þessu ári verður 25 milljónum króna varið til vitundarvakningarinnar og áætlað er að verja 16 milljónum á ári næstu tvö árin.
Á árum áður lágu ofbeldisbrot gegn börnum í þagnargildi. Íslendingum var tamt að líta svo á að kynferðislegt ofbeldi væri aðeins til úti í hinum stóra heimi, ekki á litla Íslandi, þar sem allir þekkja alla. Þetta var ekki rétt. Kynferðislegt ofbeldi þrífst á Íslandi eins og í öðrum samfélögum og í óhugnanlega miklum mæli.

Að taka í útrétta barnshönd

Ég hef stundum sagt frá því þegar ég sótti ráðstefnu í Rómarborg á vegum Evrópuráðsins. Þar komu fram ungmenni sem sjálf höfðu mátt þola kynferðislegt ofbeldi í æsku og sögðu sína sögu sína. Sérlega minnisstæður varð mér ungur, franskur maður, sem sagði frá þrautagöngu við að fá mál sitt tekið fyrir dóm og þeim erfiðleikum sem hann þurfti að ganga í gegnum meðan á málsmeðferð stóð. Hann sagði frá árangurslausum tilraunum sínum til að biðja  „kerfið" um hjálp. Ekkert svar, engin viðbrögð, enginn sem tók í útrétta hönd hans.
Í framhaldinu varð mér ljóst hve mikilvægt það væri að efna til umræðu við fulltrúa réttarkerfisins - einnig hér á landi -  um hvort og hvernig tekið væri í leitandi útrétta, barnshönd sem bæðist hjálpar; værum við nægilega vel vakandi?
Aðkoma innanríkisráðuneytisins að vitundarvakningunni er meðal annars að koma á framfæri reglum um barnvinsamlegt réttarkerfi, en að baki þeim reglum býr sú hugmyndafræði að réttarkerfi þurfi að aðlaga sig að þörfum barna, ekki öfugt. Réttarkerfin voru ekki upphaflega byggð upp með þarfir barna í huga. Þau eru heimur hinna fullorðnu, heimur formlegaheita, sem börn geta átt erfitt með að skilja. Litið er til Íslands sem fyrirmyndar í þessum efnum vegna stofnunar og starfsemi Barnahúss, sem er sérstaklega sett upp til að taka í hina útréttu barnshönd.

Gegn andvaraleysi í mannréttindamálum

Reyndar eru íslensk stjórnvöld að reisa baráttufána á sviði mannréttindamála almennt. Það er ekki laust við það hér á landi sem víðar í hinum iðnvædda heimi að andvarlaeysis hafi gætt varðandi mannréttindamál. Þá afstöðu einkennir eins konar blanda af sofandahætti og sjálfumgleði, ekki ólíkt því sem var þegar brot gegn börnum voru aðeins talin geta átt sér stað einhvers staðar langt í burtu, ekki hér heima. Síðan móðgast menn og fyllast vandlætingu þegar við erum gagnrýnd fyrir þær brotalamir sem hjá okkur kunni að vera að finna.
Í síðustu viku ræddi ríkisstjórnin aðkomu Íslands að mannréttindasáttmálum, þau lög og reglur sem gilda og síðan hvort samræmi sé í orðum og framkvæmd. Hér erum við ekki ein á báti. Nánast alls staðar í löndunum sem okkur eru nátengdust fer nú fram umræða um þessi efni. Þar á meðal er rætt um framtíð Mannréttindadómstóls Evrópu. Eitt hundrað og sextíu þúsund mál bíða nú afgreiðslu dómsins. Sumar þjóðir vilja takmarka umfang dómstólsins og draga úr vægi hans. Aðrar vilja efla hann og styrkja. Í þeim hópi er Ísland. Enda má fullyrða að Evrópudómstóllinn hafi haft jákvæð áhrif á þróun réttarfars á sviði mannréttindamála í aðildarríkjum Evrópuráðsins og á það sannarlega við um Ísland.
Með sama hætti hafa alþjóðlegir sáttmálar um mannréttindamál bein áhrif á stöðu mannréttindamála hér á landi. Vitundarvakningin sem nú er ýtt úr vör er hluti af fjölþjóðlegu átaki, undir merkjum Evrópuráðsins, um varnir gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Réttindi barna eiga - eins og önnur mannréttindi - að vera óbundin af landamærum. Ekkert barn á að þurfa að lifa við ofbeldi. Það er markmiðið og þangað förum við, skref fyrir skref.