Fara í efni

BROWN Í BARÁTTU FYRIR BROWN


Gordon Brown er ekki vinsæll forsætisráðherra í Bretlandi. Hann tók við einkavæðingarkyndlinum úr hendi Blairs forvera síns. Tony Blair er ólíkur öðrum frjálshyggju-hægri-mönnum að því leyti að hann notaði Verkamannaflokkinn - félagslega þenkjandi stjórnmálahreyfingu - til að villa á sér heimildir; fékk vinstri sinnað fólk til að kjósa sig en kom síðan í bakið á því með hægri sinnaðri pólitík. Blair afhenti auðvaldinu almannaeignir og var ötulli við það en sjálf járnfrúin Thatcher. Enda bar hún ótakmarkaða virðingu fyrir Blair. Og eflaust Brown líka. Hann var fjármálaráðherra í ríkisstjórnum undir forsæti Blairs þar til hann komst sjálfur á forsætisráðherrastólinn. Þá var illa komið fyrir Verkamannaflokknum. Hann  var rúinn öllu trausti og hafa skoðanakannanir  síðan verið flokknum svo óhagstæðar að Gordon Brown formaður, hefur ekki þorað að ganga til kosninga.
En þá gerist undrið: Sem af himnum ofan berst Brown forsætisráðherra hjálpræðið. Íslenskir bankar og fyrirtæki í eigu Íslendinga í Bretlandi lenda í banvænni krísu. Þeir geta ekki staðið í skilum við skuldunauta sína. Sem hendi sé veifað geysist  forsætisráðherrann lánlausi  fram á völlinn til að taka málstað breskra sparifjáreigenda og ekki síður digurra fjárfestingasjóða, sömu fjárfesta og fjármagna kosningabaráttu einkavæðingarsinna í breskri pólitík. Harður í horn að taka hann Brown. Enga vægð gegn andstæðingnum. Sigrar Brown Íslendinga, spyrja breskir fjölmiðlar. Ber hann sigur úr býtum eins og Thatcher gerði forðum í Falklandseyjastríðinu. Hún vann það stríð. Og í leiðinni mörg atkvæði. Óvinsæl Thatcher varð þá vinsæl á ný. Þetta er nú barátta Browns, að vinna hug og hjörtu Breta. Ef hægt er að nota Íslendinga til þess, þá skal það gert. Þess vegna vill Brown ekki leita sanngirnissamkomulags við Íslendinga. Ekkert sérstaklega stór í sniðum hann Gordon Brown.