Fara í efni

BROTALÖM Í MENNTAKERFINU EÐA VIÐSKIPTARÁÐ AÐ MINNA Á GAMALKUNN VINNUBRÖGÐ?

Hálfviti
Hálfviti


Hver er skýringin á því að Viðskiptaráð kemur aftur og ítrekað fram með skýrslur og ábendingar sem eru gersamlega úr takti við það sem flest fólk kallar heilbrigða skynsemi?

Nýjasta afrekið fjallar um húseiginir ríkisins sem skýrsluhöfundar Viðkiptaráðs hvetja til að verði allar seldar. Augljósast sé að þeirra mati að á slíkum sölulista verði  "almennt húsnæði sem við teljum alfarið eiga heima í umsjón einkaaðila. Undir þann flokk fellur skrifstofuhúsnæði, íbúðarhúsnæði, lögreglustöðvar og kirkjur. Samtals falla um 200 þúsund fermetrar undir þennan flokk."

Gríðarleg talna"fræði" fylgir skýrslunni, fjöldi húseigna tíundaður og fermetrafjöldi í gólffleti að sama skapi. Allt þetta er aðgengilegt á heimasíðu Viðskiptaráðs.

Ég minnist þess er ég sat í stjórn lífeyrissjóðs í aðdraganda hrunsins að finna þurfti nýtt húsnæði undir starfsemina. Kom fram hugmynd um að leita að hentugu leiguhúsnæði til frambúðar. Þetta var á tíma þegar frjálsmarkaðs-hugmyndafræði Viðskiptaráðs blómstrði hvað mest. Að ráði varð þó á endanum að gera úttekt á kostnaði við leiðirnar tvær, annars vegar að eiga húsnæðið og hins vegar að leigja það.

Fyrri kosturinn reyndist að sjálfsögðu miklu ódýrari - enda þyrfti þá ekki að fjármagna arðinn til eigenda leiguhúsnæðisins. Varð hinn ódýrari kostur fyrir valinu (sem var þó ekki sjálfgefið á þeim tíma, en það er önnur saga).

Skömmu áður hafði Alþingi gert samning um leigu á skrifstofuhúsnæði undir nefndarstarf þingsins. Að þeirri samningsgerð lokinni var eftirsjá efst í huga fulltrúa þingsins að hafa ekki keypt húsnæðið þótt dýrt væri, svo miklu hagstæðara hefði það reynst þegar til lengri tíma var litið.

Fleiri dæmi gæti ég tint til.

Nú geri ég mér grein fyrir því að Viðskiptaráð vill beita sér í þágu félagsmanna sinna, sem margir hverjir eru áfjáðir í að gera út á ríkið. Stefna nefndrar skýrslu er vissulega í þeim anda.

En hvað segir Verslunarskóli Íslands og viðskiptadeildir háskólanna sem væntanlega hafa menntað rannsakendurna? Telja þeir þetta vera til marks um brotalöm í þeirri menntun sem þeir veita? Hefðu skýrslurnar sem Viðskiptaráðið hampar svo mjög og sumir fjölmiðlar einnig, þótt gjaldgengar? Eða hefði verið gefin falleinkunn eins og Viðskiptaráðið sjálft hlýtur svo oft fyrir framlag sitt til þjóðmálaumræðunnar? Spyr sá sem ekki veit.