Fara í efni

BROT Á KÚRDUM SKOÐUÐ Í ANDA BERTRANDS RUSSELLS

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 17/18.03.18.
Á fimmtudag og föstudag fóru fram í París „réttarhöld" yfir ofsóknum tyrkneskra stjórnvalda á hendur Kúrdum. Réttarhöldin set ég í gæsalappir til að leggja áherslu á sérstöðu dómstólsins sem ekki er hluti af viðurkenndu alþjóðlegu réttarkerfi heldur er hann í anda stríðsglæpastóls sem breski heimspekingurinn og mannréttindabaráttumaðurinn Bertrand Russell og franski heimspekingurinn Jean- Paul Sartre stóðu fyrir á sjöunda áratug aldarinnar sem leið til að draga fram í dagsljósið ofsóknir og ofbeldisverk framin í skjóli ríkisvalds. Dómstóllinn ber nú heitið, í frjálslegri þýðingu, Dómstóll til varnar alþýðu,  Permanent Peoples‘ Tribunal og hefur verið kallaður reglulega saman til að fjalla um aðskiljanleg mál frá því hann var settur á fót í Bologna árið 1979 en áður hafði Russell dómstólinn fjallað um stríðsglæpi í Vietnam og Rómönsku Ameríku. Bertrand Russell stofnunin er efst á blaði sem stuðningsaðili réttarhaldanna yfir tyrkneskum yfirvöldum þegar rétturinn var kallaður saman í vikunni. 

Réttarhöld fyrir dómstólnum fara fram með því að fram er sett formleg ákæra, síðan eru kallaðir fyrir dóminn færustu sérfræðingar í alþjóðalögum, lögum og sáttmálum á sviði mannréttindamála og ýmsum sviðum sem tengjast málefninu. Síðan koma fyrir dóminn einstaklingar sem bera vitni um ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir sjálfir eða þekkja náið til. Gerandinn lætur ekki sjá sig.

Í dómnum sátu að þessu sinni sjö dómarar, allir með langa reynslu úr alþjóðlegu starfi, fræðimenn, dómarar úr fremstu röð. Allir hafa þeir getið sér orð fyrir að standa af einurð vörð um mannréttindi og ekki bognað þótt á móti hafi blásið. Þar má nefna Denis J. Halliday, sem sagði af sér sem æðsti eftirlitsmaður SÞ í Írak í mannréttindamálum undir aldamótin þegar Sameinuðu þjóðirnar neituðu að verða við ákalli hans og annarra eftirlitsmanna í Írak um að beita sér fyrir afnámi viðskiptabanns á landið sem sannanlega hafði valdið dauða hálfrar milljónar barna.

Eftir stendur reiðin yfir lyginni, ekki síst hjá þeim sem létu blekkjast af lygaáróðri þeirra fóstbræðra Bush og Blairs.

Ofsóknir á hendur Kúrdum hafa staðið linnulaust í áratugi en í réttarhöldunum tók ákæran hins vegar aðeins til tveggja ára 2015 og þó einkum 2016 en á því tímabili voru framin hryllileg hrannvíg, morð, mannrán, aftökur án dóms og laga, fangelsanir og pyntingar í bæjum og borgum í Kúrdahéruðum suð-austur Tyrklands. Í tvo daga hlýddum við, sem boðið hafði verið til að fylgjast með réttarhöldunum, á frásagnir vitna, horfðum á ljósmyndir og myndbönd  svo ægileg að erfitt er að lýsa. Færðar voru sönnur á að allt þetta var gert að yfirveguðu ráði hryðjuverkamannanna sem stýra Tyrklandi, bandamanna Íslendinga í NATÓ.

Öllu þessu hafði ég fengið að kynnast á ferðum mínum til þessara svæða og í frásögnum og skýrslum en þegar maður fékk þessa inngjöf í sálarlífið, skipulega fram setta og hlustað var  á þau sem áttu alla þessa þjáningu í vitund sinni, þá held ég að það hafi verið sameiginleg viðbrögð allra sem á hlýddu, að nú væri komið að okkur; að gera allt sem í okkar valdi stæði til að stöðva hryllinginn. Þrjú hundruð áhorfendur grétu.

Reyndar vissi heimurinn þetta allt. hafði séð og skilið. En samt gerðist ekkert. Sameinuðu þjóðirnar töluðu um „alvarlega atburði" en svo var það ekkert meira.

Menn hrökkva stundum við þegar Sameinuðu þjóðirnar eru gagnrýndar eða svokölluð mannréttindasamtök sem gefa sig út fyrir að vera eftirlitsaðilar en eru stundum lítið annað en varðhundar stórvelda. Ofan af öllu þessu verður að fletta. Það á enginn að vera laus undan óvæginni gagnrýni og fjölmiðlar verða að nenna að kafa í málin, allir fjölmiðlar, líka værukærir íslenskir.

Í París var horft til liðinnar tíðar en sjónum manna var þó stöðugt beint að líðandi stund. Árásir Tyrkjahers á Afrin í Norður Sýrlandi þessa dagana voru á allra vörum. Sá veruleiki hefur verið færður inn á okkar borð með morðinu á ungum íslenskum hugsjónamanni, Hauki Hilmarssyni, sem nýlega féll í loftárásum á því svæði. Hann hafði svarað innra kalli um að berjast við hlið þeirra sem sótt var að.

Hann má ekki hafa barist til einskis. Ábyrgðin á ofbeldi gegn varnarlausu fólki er okkar allra.