Fara í efni

Brooklyn-bröns: að svelta Gaza

Í tvo mánuði hefur Ísraelsstjórn komið í veg fyrir að bæði matur og hjálpargögn berist inn á Gaza. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur mætt við landamærin og lýst áhyggjum sínum. Almenningi út um allan heim blöskrar, jafnvel stjórnvöldum. Macron hefur hvatt palestínsku heimastjórnina til að taka yfir stjórn á Gaza. Þá gæti tveggja ríkja lausnin verið í sjónmáli. Hann talaði um að afvopna Hamas og koma þeim frá völdum. Enn fremur bauðst hann til að Frakkland tæki að sér að viðurkenna Palestínu sem ríki á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í júní. Auðvitað vakti það hörð viðbrögð í Ísrael.

Misskilningurinn eða öllu heldur blekkingin, felst í því að beina orðum sínum ætíð til ráðandi afla í Palestínu, hvort sem það er á Gaza eða á Vesturbakkanum. Ef Macron hefði eitthvað bein í nefinu talaði hann fyrir stjórnarskiptum í Ísrael, hann talaði til Ísraels. Þrátt fyrir allt, er það í höndum Ísraels að ákveða. Öryggismálaráðherrann í stjórn Netanyahus er að ljúka vikuheimsókn sinni til Bandaríkjanna þegar þetta er skrifað. Vefmiðillinn https://thegrayzone.com/2025/04/25/ben-gvir-gaza-starvation-brooklyn-brunch/ hefur greint frá.


Á sunnudaginn var, 27. apríl, var þjóðaröryggisráðherra Ísraels, Itamar Ben Gvir, boðið í bröns á heimili kaupsýslumannsins og áhrifamanns gyðinga í Brooklyn, Harry Ajimi.

Ben Gir er leiðtogi flokksins, Gyðingavald (Otzmah Yehnudit) og er öfgafyllsti maður sem nokkru sinni hefur gegnt ráðherraembætti í Ísrael. Hann er landtökumaður sem hefur verið sakfelldur af dómstóli í Jerúsalem fyrir að hafa aðstoðað hryðjuverkasamtök. Hann styður pyntingar og þjóðarmorð og var myndaður er hann fagnaði hryðjuverkaárás landtökumanna þar sem palestínskt barn var brennt til bana. Einnig leiddi hann hóp landtökumanna í ofbeldisfullri árás á palestínska kaupmenn.

Í heimsókn ráðherrans til Bandaríkjanna, 23. apríl síðastliðinn, var fyrsti viðkomustaður hans, einkaheimili Trumps forseta á Florida, þar sem hann beindi orðum sínum til öldunga Repúblikanaflokksins, sem hann sagði hafa lýst yfir stuðningi við afgerandi afstöðu sína, hvernig eigi að bregðast við á Gaza ásamt því að sprengja ætti matvæla- og hjálpargeymslur.

Hluti fyrirlestrarferðar ráðherrans var til Yale-háskóla á vegum Shabtai-félags háskólans. Þar kynnti hann áætlun sína um að svelta Gaza. Um 100 nemendur ásamt 30 kennurum sóttu viðburðinn.

Bröns-fundurinn í Brooklyn var ekki hluti auglýstrar dagskrár ráðherrans. Gestgjafinn, Harry Adjmi, kaupsýslu- og fasteignamógull frá Brooklyn og forstjóri On Step Up fyrirtækisins, hefur stutt fjárhagslega, bæði Repúblikana og Demókrata í New York.

Í Ísrael styður Adjmi fjölda samtaka Sephardic-gyðinga ásamt her Ísraels, IDF. Heima er hann nátengdur öfgasamtökum rétttrúnaðarhreyfingarinnar, Chabad-Lubavitch sem hýsti Ben Gvir í Brooklyn 24. apríl.

Í janúar 2021 gaf Trump bróður Harry Adjmi, Alex, upp sakir, sem var dæmdur fyrir peningaþvætti fyrir kólumbískan eiturlyfjahring. Hann studdi kosningabaráttu Trumps um 50.000$.

Samkvæmt https://www.timesofisrael.com/liveblog_entry/ben-gvir-concludes-us-visit-after-meeting-gop-lawmakers-on-capitol-hill/ lauk ráðherrann heimsókn sinni á mánudagskvöld með fundi við fjóra þingmenn Repúblikana í þinghúsinu þar á meðal þess sem stýrir hinni öflugu utanríkismálanefnd fulltrúadeildarinnar. Að auki sagði öryggismálaráðherrann að hann hafi ekki verið hvattur í fundaferð sinni til að breyta stefnu Ísraels. Ekki nóg með það heldur hafi fjöldi þingmanna Repúblikana upplýst hann um viðleitni sína til að þrengja að efnahag stuðningshópa Palestínu.

Allt er þetta með þvílíkum ólíkindum; sýndarmennskan hjá ráðamönnum Evrópu og grímulaus stuðningurinn í Bandaríkjunum. Óhjákvæmilega dregur maður þá ályktun að um alþjóðlegt samsæri sé að ræða gegn Palestínu. Að Ísrael skuli komast upp með þjóðernishreinsanir sínar er auðvitað hneyksli sem á rætur í samþykkt Sameinuðu þjóðanna 1947 um stofnun Ísraelsríkis.

Að sjálfsögðu vakti heimsókn Ben Gvir usla, honum var fagnað og mótmælt. Brottfluttir frjálslyndir Ísraelar á Manhattan létu í ljós óánægju sína. Öfgar og ofbeldi stjórnvalda Ísraels eru á góðri leið með að leiða landið í glötun samhliða þjóðarmorðinu. Palestínu verður ekki eytt með þessari grimmd. Hins vegar gæti gerandinn glatað sjálfum sér og tilvist Ísraelsríkis verði bara til í sögubókunum.