Fara í efni

Breyttar áherslur á Alþingi

Birtist í Fréttablaðinu 24.05.2003
Nýafstaðnar alþingiskosningar geta varla talist mjög sögulegar að öðru leyti en því að það var að vissu leyti afrek fyrir ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að halda velli þegar litið er til slóðans sem hún skilur eftir sig á átta ára valdaferli. Stjórnin kemur að vísu tætt út úr kosningunum. Báðir stjórnarflokkarnir tapa fylgi en ekki meiru en svo að ríkisstjórnin kemur til með að skrimta. Í stjórnarsáttmálanum hótar hún framhaldi á þeirri stefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin ár og er það ekki fagnaðarefni.

Framsóknarflokkurinn lét í verði vaka fyrir kosningarnar að allt kæmi til greina af hans hálfu varðandi stjórnarmyndun og reyndar má segja það um Samfylkinguna einnig. Enginn vissi í raun með hverjum þessir flokkar vildu starfa að kosningum loknum og í aðdraganda stjórnarmyndunar bárust fréttir af bónorðum  þvers og kruss. Gagnvart kjósendum er þetta fyrirkomulag ekki gott. Stjórnmálaflokkar eiga að segja afdráttarlaust fyrir kosningar með hverjum þeir vilja starfa.

 Þegar allt kemur til alls þá eru að uppistöðu til tvenns konar pólitískir straumar í stjórnmálunum. Annars vegar eru þeir sem vilja leggja rækt við samhjálp og félagslega þætti og hins vegar eru hinir sem telja markaðinn allra meina bót. Að sjálfsögðu koma upp mál sem ganga þvert á þetta svo sem Evrópumál en þetta eru meginlínurnar. Ef kjósendur gætu gengið að því sem vísu að þessar tvær meginblokkir í stjórnmálum vildu starfa saman þá væri það kjósandans að ákveða hvaða áherslur hann vildi styrkja innan stjórnarsamstarfsins.

Veikleikar stjórnarflokkanna

Í þessu ljósi skulum við líta á hvað gerðist í nýafstöðnum kosningum. Mitt mat er að veikleikar stjórnarflokkanna hafi verið þeir helstir að Sjálfstæðisflokknum var legið á hálsi fyrir að ganga of langt í hugmyndum um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar og að þetta sé helsta skýringin á miklu fylgistapi hans. Þeir sjálfstæðismenn sem voru þessarar skoðunar og vildu áframhaldandi stjórnarsamstarf hafi jafnvel hallað sér að Framsóknarflokknum því þeir hafi talið hann hófsamari á þessu sviði. Veikleiki Framsóknarflokksins var hins vegar stefna hans í atvinnumálum með áherslu á þungaiðnað. Þetta skýrir að Framsókn tapar fylgi auk þess sem auglýsingastofunum auðnaðist ekki að hylja með öllu fótspor flokksins á liðnum tveimur kjörtímabilum.

En hvað með stjórnarandstöðuna? Skilaboðin um kvótakerfið voru afgerandi. Frjálslyndi flokkurinn er ekki endilega með bestu stefnuna í fiskveiðimálum en enginn velkist í vafa um að flokkurinn talar um það málefni af lífi og sál. Stuðningur við Frjálslynda flokkinn var því krafa um breytingar á stjórn fiskveiða. Vinstrihreyfingin grænt framboð tapaði fylgi, lítillega en tapaði þó. Samfylkingin styrkti sig hins vegar. Þetta gerir VG óneitnalega erfiðara um vik í þinginu, róðurinn verður að sjálfsögðu þyngri fyrir bragðið t.d. hvað varðar störf í þingnefndum. Mín kenning er sú að margir stuðningsmenn VG hafi lagt slíkt ofurkapp á að fá nýjan forsætisráðherra að þeir hafi m.a. af þeim sökum kosið Samfylkinguna. Þetta hafi jafnvel átt við um eindregnustu náttúruverndarsinna sem sárnaði afstaða Samfylkingar og forsætisráðherraefnis hennar í Ráðhúsinu þegar Kárahnjúkar komu til kasta þess. Margir töldu að með því að kjósa Samfylkinguna væru þeir að grípa til þess ráðs sem líklegast væri til að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Þetta reyndist rangt mat. Með atkvæði sínu voru menn einfaldlega að breyta styrkleikahlutföllum á þingi.

VG hvergi bangin

Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði erum hvergi bangin gagnvart því starfi sem framundan er. Það verður hins vegar að skoðast af fullu raunsæi að kjósendur færðu ekki aðeins styrkleikahlutföllin til innan stjórnarmeirihlutans heldur einnig minnihlutans. Umhverfisverndarsinnar og vinstrimenn fengu ekki þann styrk sem þeir höfðu vænst  til að takast á við verkefni komandi kjörtímabils, en hægri sinnaðri sjónarmið innan stjórnarandstöðunnar styrktust hins vegar nokkuð.

Vonandi mun okkur takast að breyta styrkleikahlutföllum á Alþingi í næstu Alþingiskosningum. Fram til þess tíma munu þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs gera allt sem í okkar valdi stendur til að bregðast ekki trausti þeirra þúsunda sem veittu okkar brautargengi með atkvæði sínu í kosnigunum.